Byggðarráð Borgarbyggðar

717. fundur

21. ágúst 2025 kl. 08:15 - 10:15

í fundarsal að Digranesgötu 2


Nefndarmenn

Davíð Sigurðsson - formaður
Guðveig Eyglóardóttir - varaformaður
Thelma Dögg Harðardóttir - áheyrnarfulltrúi
Sigurður Guðmundsson boðaði forföll og Ragnhildur Eva Jónsdóttir - varamaður sat fundinn í hans stað
Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir - áheyrnarfulltrúi

Starfsmenn

Stefán Broddi Guðjónsson - sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Broddi Guðjónsson - sveitarstjóri

Dagskrá

1. Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn
2501024

Miðvikudaginn 20. ágúst 2025 hélt Almannavarnanefnd Vesturlands opinn íbúafund í Hjálmakletti í Borgarnesi vegna yfirstandandi skjálftavirkni í Ljósufjallakerfinu við Grjótárvatn í Borgarbyggð.

Byggðarráð þakkar Almannavarnanefnd og öðrum sem stóðu að fundinum fyrir góðan fund og upplýsandi umræður. Skjálftavirkni í Ljósufjallakerfinu við Grjótárvatn bendir til að kerfið sé vaknað til lífsins þó full óvissa sé um hvort og þá hvenær kvika nær til yfirborðsins. Þetta er nýr veruleiki fyrir íbúa og gesti við Ljósufjallakerfið og sérstaklega nærri Grjótárvatni. Borgarbyggð leggur áherslu á þétt samstarf sveitarfélaga á Vesturlandi innan Almannavarnanefndar. Byggðarráð fagnar því að búið er að taka skref til aukinnar vöktunar á svæðinu. Þá hvetur byggðarráð fjarskiptafélög og yfirvöld fjarskiptamála til að taka sem fyrst stór skref í að styrkja fjarskiptasamband í byggð og á helstu ferðamannaslóðum.



2. Samstarfsyfirlýsing HVE og SSV um mannauð og starfsstöðvar
2508108

Framlögð samstarfsyfirlýsing SSV og HVE um samstarf við að laða að aukinn mannauð og gera starfsstöðvar HVE og búsetu á Vesturlandi að eftirsóknarverðum valkosti fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Byggðarráð fagnar samstarfsyfirlýsingu HVE og SSV og tekur heils hugar undir þá stefnu og markmið sem þar koma fram. Í anda yfirlýsingarinnar hvetur byggðaráð HVE, heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn til að halda áfram þeim endurbótum sem hafnar eru á starfsstöð HVE í Borgarnesi og annars staðar á Vesturlandi.

Fylgiskjöl


3. Bjargsland og Kveldúlfshöfði - Gatnagerð og kostnaður
2203079

Kynnt staða málsins og lögð fram útboðsgögn.

Framlagt og felur byggðarráð sveitarstjóra að láta fara fram útboð á gatnagerð við Fjóluklett/Kveldúlfshöfða í samræmi við framlögð útboðsgögn.



Samþykkt samhljóða.





4. Lýsing á leið milli hesthúsahverfis og Einkunna
2311308

Yfirferð um stöðu málsins.

Sveitarstjóri kynnti þá undirbúningsvinnu sem átt hefur sér stað í sumar. Uppfærð kostnaðaráætlun kynnt. Byggðarráð samþykkir að málinu verði haldið áfram á grundvelli hennar og vonast til að framkvæmdir hefjist í haust.



Samþykkt samhljóða.



5. Stígur upp frá Fitjum meðfram Snæfellsnesvegi
2404110

Samhliða veituframkvæmdum er nú lokið grunnvinnu vegna göngu- og hjólastígs meðfram Snæfellsnesvegi frá gatnamótum Fitja að Engjaási. Framundan er yfirborðsfrágangur. Staðan kynnt fyrir byggðarráði.

Byggðarráð samþykkir að stefnt skuli að því að ljúka yfirborðsfrágangi fyrir veturinn í samstarfi við Vegagerðina.



Samþykkt samhljóða.



6. Fyrirhuguð sala á fasteignum Háskólans á Bifröst
2506020

Farið yfir stöðu málsins og sjónarmið Borgarbyggðar.

Sveitarfélagið hefur lagt kapp á það í sumar að kynna þá áskorun sem blasir við á Bifröst fyrir ráðherrum, sérfræðingum ráðuneyta, þingmönnum, Vinnumálastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fjölmiðlum og fjölmörgum fleiri aðilum. Mikilvægt er að halda á lofti hagsmunum sveitarfélagsins og íbúa þess. Þar ber eftirfarandi hæst:

1) Framlengja þarf heimild ríkissjóðs til að endurgreiða flóttamönnum fjárhagsaðstoð umfram tvö ár og verði ótímasett. Þannig er einstaka sveitarfélögum forðað frá því að lenda i fjárhagslegum vítahring sem þau hafa sjálf lítið um að segja. 2) Hefja þarf markvissa vinnu við að finna þorpinu á Bifröst nýtt hlutverk. Meginmarkmið við sölu á þorpinu verður að vera að þar byggist upp verðmætaskapandi starfsemi. Við sölu þorpsins á Bifröst verður að taka tillit til sveitarfélagsins og samfélagsins í Borgarbyggð. 3) Það verður að hefjast handa við að koma öllum þessum óvirka fjölda sem býr á Bifröst í virkni. Reynslan sýnir að það er ólíklegt að það gerist með áframhaldandi búsetu þeirra á Bifröst, fjarri atvinnumöguleikum og þjónustu.

Uppbyggilegt samtal við stjórnendur Háskólans á Bifröst er í gangi og í samræmi við það bindur Borgarbyggð vonir við að hafa mun meiri aðkomu en hingað til að fyrirhugaðri sölu þorpsins á Bifröst.



7. Framkvæmd íbúakosninga - sameining við Skorradalshrepp
2508015

Kynnt staða yfirstandandi vinnu vegna íbúakosninga vegna tillögu um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps.

Staða vinnunar kynnt. Íbúafundur fer fram Hjálmakletti 27. ágúst og á upplýsingasíðunni borgfirdingar.is eru birtar helstu upplýsingar er varða kosningarnar sem fram fara 5. - 20. september.



8. Aðalfundur Þróunarfélags Grundartanga 2025
2506169

Framlögð fundargerð aðalfundar Þróunarfélags Grundartanga sem fram fór 30. júní 2025.

Fundargerð framlögð.

Fylgiskjöl


9. Arðskrá Veiðifélags Langár
2507194

Framlagður uppfærður úrskuður og arðskrá fyrir Veiðifélag Langár og Urriðaár-Langárdeild. Breytingar frá fyrri úrskurði leiðréttingar á tölum um bakkalengd tveggja jarða.

Lagt fram.

Fylgiskjöl


10. Gjaldskrá úrgangsþjónustu 2025
2504101

Þann 1. september 2025 taka gildi breytingar á þjónustu og greiðslufyrirkomulagi á móttökustöðinni í Borgarnesi og ný gjaldskrá mun taka gildi. Samhliða verður innleidd rafræn greiðslulausn fyrir fasteignaeigendur í sveitarfélaginu þar sem tiltekin inneign (rafrænt klippikort) fylgir íbúðarhúsnæðum og sumarhúsum. Þórunn Unnur Birgisdóttir verkefnastjóri á fjármála- og stjórnsýslusviði og Logi Sigurðsson umhverfisfulltrúi kynna greiðslulausnina fyrir byggðarráði.

Byggðarráð þakkar góða kynningu. Eigendur íbúðarhúsnæðis og sumarhúsa í sveitarfélaginu munu sækja rafrænu klippikortin inni á síðunni borgarkort.is sér að kostnaðarlausu. Á þeim er inneign sem nýtist sem greiðsla fyrir þá flokka sem verða gjaldskyldir samkvæmt gjaldskrá sem tekur gildi 1. september. Það er von byggðarráðs að nýja greiðslulausnin leiði ekki til kostnaðarauka fyrir íbúa heldur þvert á móti muni koma í veg fyrir íbúar sveitarfélagsins beri kostnað af móttöku úrgangs sem er þeim óviðkomandi. Til framtíðar standa vonir til að fyrirkomulagið stuðli að enn betri flokkun úrgangs. Eftir sem áður verða algengir flokkar gjaldfrjálsir t.d. plastumbúðir, pappi, garðaúrgangur, málmar, raftæki og margt fleira. Framundan er áframhaldandi kynning á breyttu fyrirkomulagi og innleiðingu borgarkortsins sem vonandi sem flestir eigendur íbúðarhúsnæðis og sumarhúsa munu nýta sér.



Fundi slitið - kl. 10:15