Byggðarráð Borgarbyggðar

716. fundur

7. ágúst 2025 kl. 08:15 - 09:30

í fundarsal að Digranesgötu 2


Nefndarmenn

Davíð Sigurðsson boðaði forföll og Eðvar Ólafur Traustason - varamaður sat fundinn í hans stað
Guðveig Eyglóardóttir - varaformaður
Sigurður Guðmundsson - aðalmaður
Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir - áheyrnarfulltrúi

Starfsmenn

Stefán Broddi Guðjónsson - sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Broddi Guðjónsson - sveitarstjóri

Dagskrá

1. Fyrirhugaðir verndartollar ESB á kísiljárn
2508002

Evrópusambandið hefur upplýst að til standi að leggja verndartolla á kís­il­járn og aðrar tengd­ar vör­ur frá Íslandi og öðrum EES-ríkj­um. Fyrirsjáanlegt er að slíkir verndartollar hefðu þung áhrif á starfsemi Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og sköpuðu óvissu varðandi uppbyggingu í ýmissa iðngreina til útflutnings.

Byggðarráð Borgarbyggðar hefur þungar áhyggjur af boðuðum verndartollum Evrópusambandsins á kísiljárn. Fyrirsjáanlegt er að slíkir tollar yrðu áfall fyrir starfsemi Elkem á Grundartanga sem er eitt mikilvægasta iðnfyrirtækið á Grundartanga og um leið á sunnanverðu Vesturlandi. Neikvæð áhrif á þjóðarbúið yrðu umtalsverð. Það eru mikil vonbrigði ef ESB ákveður ganga með þessum hætti þvert gegn anda og efni Samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Það mun hafa veruleg áhrif á uppbyggingu útflutningsiðnaðar á Íslandi ef kjarni eins mikilvægasta milliríkjasamnings Íslands reynist ekki traustari en þetta. Þá er uppbygging iðnaðar á Grundartanga og víðar um land í húfi. Sveitarfélög á Vesturlandi hafa verið samstíga um mikilvægi uppbyggingar iðnaðar á Grundartanga, unnið að nýfjárfestingu og hlúð að nýsköpun á svæðinu. Byggðarráð Borgarbyggðar tekur heils hugar undir með bæjar- og sveitarstjórnum nágrannasveitarfélaga á Akranesi og Hvalfjarðarsveit og hvetur ríkisstjórn Íslands standa þétt með hagsmunum íslensks atvinnulífs gegn boðuðum verndartollum ESB.



Samþykkt samhljóða.



2. Snjómokstur í dreifbýli- Útboð 2025
2401233

Farið yfir stöðu vinnu við útboð vegna snjómoksturs í dreifbýli. Lögð fram drög að útboðslýsingu. Logi Sigurðsson umhverfisfulltrúi situr fundinn undir þessum dagskrárlið.

Framlögð ný útboðsgögn vegna útboðs á snjómokstri í dreifbýli í Borgarbyggð 2025. Í 4. mgr. 58. gr. laga um opinber innkaup segir að ef brýn nauðsyn krefst þess að hraða þurfi útboði sé kaupanda heimilt að víkja frá þeim frestum sem almennt gilda. Þó skuli frestur til að skila tilboðum yfir viðmiðunarfjárhæðum á EES-svæðinu aldrei vera skemmri en 15 almanaksdagar.

Byggðaráð telur að skilyrði hraðútboðs séu uppfyllt, þar sem tími er knappur fyrir bjóðendur kunni þeir svo sem að þurfa að kaupa tæki til verksins erlendis frá.



Byggðarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í leyfi sveitarstjórnar sbr. 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.



Samþykkt samhljóða.



3. Arðskrá Veiðifélags Álftár
2507193

Framlagður úrskurður um arðskrá fyrir Veiðifélag Álftár dags. 23. júlí 2025.

Framlagt.

Fylgiskjöl


4. Arðskrá Veiðifélags Langár
2507194

Framlagður úrskurður um arðskrá fyrir Veiðifélag Langár og Urriðaár - Langárdeild dags. 26. júlí 2025.

Framlagt.

Fylgiskjöl


5. Skipun kjörstjórnar - sameining við Skorradalshrepp
2506066

Lagt fram bréf, annars fulltrúa Skorradalshrepps í sameiginlegri kjörnefnd Borgarbyggðar og Skorradalshrepps, til innviðaráðuneytisins þar sem farið er fyrir nokkur atriði um störf kjörnefndar, verkefni og vinnutilhögun. Jafnframt lagt fram svar innviðaráðuneytisins.

Lagt fram til kynningar.



Bjarney L. Bjarnadóttir vék af fundi afloknum þessum dagskrárlið.



6. Erindi frá körfuknattleiksdeild Skallagríms vegna Þorsteinsgötu 5
2507195

Framlagt erindi frá körfuknattleiksdeild Skallagríms þar sem óskað er eftir afnotum af húsnæði við Þorsteinsgötu 5 að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Byggðarráð tekur vel í hugmyndir körfuknattleiksdeildar Skallagríms. Að skilyrðum uppfylltum þá styður byggðarráð að deildin fái afnot af húsnæðinu til loka leiktímabilsins 2025-2026. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.



Samþykkt samhljóða.



7. Erindi frá körfuknattleiksdeild Skallagríms um húseiningar við íþróttamiðstöðina
2507196

Framlagt erindi frá körfuknattleiksdeild Skallagríms um uppsetningu á húseiningum við íþróttamiðstöðina í Borgarnesi sem yrði m.a. aðstaða fyrir starfsmenn og þjálfara og fyrir nytjamarkað.

Byggðarráð tekur vel fram komnar hugmyndir og felur sveitarstjóra að vinna að samkomulagi á grundvelli þeirra. Byggðarráð leggur áherslu á að fyrirkomulagið yrði til skamms tíma enda framundan stækkun á íþróttahúsinu. Þá er mikilvægt að huga að aðkomu og snyrtilegu umhverfi. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.



Samþykkt samhljóða.



8. Tilkynning um kæru nr. 119-2025, Mælimastur á Grjóthálsi
2507190

Bjarney L. Bjarnadóttir kom aftur til fundarins.

Framlögð kæra 20 landeigenda í Borgarbyggð til úrskurðarnefndar- umhverfis- og auðlindamála vegna samþykkis sveitarfélagsins á nýju deiliskipulagi fyrir mælimastur á Grjóthálsi.

Lagt fram og sveitarstjóra falið að vinna greinargerð fyrir hönd sveitarfélagsins.



Samþykkt samhljóða.

Fylgiskjöl


9. Tilkynning um kæru nr. 122-2025, íbúðabyggð á Varmalandi
2507197

Framlögð kæra Laugalands hf. til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íbúðabyggðar á Varmalandi.

Lagt fram og sveitarstjóra falið að vinna greinargerð fyrir hönd sveitarfélagsins.



Samþykkt samhljóða.

Fylgiskjöl


10. Tímasetning næsta sveitarstjórnarfundar
2305084

Vegna fundar fulltrúa sveitarfélaga á Vesturlandi með ráðherrum ríkisstjórnar Íslands næst komandi fimmtudag 14. ágúst þá er lagt til að fundur sveitarstjórnar Borgarbyggðar hefjist kl. 19.00 í stað 16.00.

Samþykkt samhljóða.



11. Framkvæmd íbúakosninga - sameining við Skorradalshrepp
2508015

Lagðar fram þrjár fundargerðir sameiginlegrar kjörstjórnar Borgarbyggðar og Skorradalshrepps ásamt tillögum um framkvæmd íbúakosninga um tillögu að sameiningu sveitarfélaganna sem fram fara á tímabilinu 5.-20. september 2025.

Tillögurnar fela í sér að Borgarbyggð verði skipt í fjórar kjördeildir, þær hinar sömu og í Alþingiskosningum 2024, þ.e. Borgarneskjördeild, Lindartungukjördeild, Þinghamarskjördeild og Kleppjárnsreykjakjördeild.

Í tillögunum er gert ráð fyrir að kosið verði í öllum kjördeildum í ráðhúsi Borgarbyggðar 11 virka daga á kosningatímabilinu, auk laugardagsins 20. september. Föstudaginn 5. september verði kjörstaðurinn opinn kl. 10:00-14:00 en aðra virka daga til og með 19. september verði opið kl. 12:00-14:00. Laugardaginn 20. september verði kjörstaðurinn opinn íbúum allra kjördeilda kl. 10:00-16:00.

Fimmtudaginn 18. september verði opnaðir sérstakir kjörstaðir í Lindartungu, Þinghamri og á Kleppjárnsreykjum kl. 18:00-20:00 þar sem aðeins þeir sem tilheyra viðkomandi kjördeild geta greitt atkvæði.

Kjörstjórn leggur til að í Skorradalshreppi verði kjörstaður í Laugabúð í Skorradal 5 virka daga á kosningatímabilinu, auk laugardagsins 20. september. Föstudaginn 5. september verði opnunartími sá sami og sameiginlegs kjörstaðar í Borgarbyggð, þ.e. 10:00-14:00, en dagana 8., 10., 15. og 18. september verði opið kl. 16:00 til 18:00. Laugardaginn 20. september verði opið kl. 10:00-18:00.

Byggðarráð, sem fer með ákvörðunarvald fyrir hönd sveitarstjórnar í sumarleyfi hennar, samþykkir fyrir sitt leyti ofangreindar tillögur og felur sameiginlegri kjörstjórn að útfæra framkvæmdina nánar, þ.á.m. að velja kjörstaði fyrir kjördeildirnar þrjár utan Borgarness, að manna kjörstaði á opnunartíma þeirra og taka ákvarðanir varðandi færanlegan kjörstað. Byggðarráð samþykkir jafnframt fyrir sitt leyti að greiða kostnað við mönnun og umsýslu kosninganna, að því tilskyldu að hann rúmist innan viðmiða Jöfnunarsjóðs um stuðning vegna framkvæmdar íbúakosninganna. Vinna starfsfólks vegna kosninganna er háð samþykki sveitarstjóra.



Byggðarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í leyfi sveitarstjórnar sbr. 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.



Samþykkt samhljóða.





Fundi slitið - kl. 09:30