Dagskrá
1. Snjómokstur í dreifbýli- Útboð 2025
2401233
Snjómokstur í dreifbýli var boðinn út fyrir nokkru. Farið yfir stöðuna á málinu. Til fundarins mættu Guðný Elíasdóttir, sviðsstjóri og Logi Sigurðsson umhverfisfulltrúi.
Farið yfir stöðuna á snjókmokstursútboði. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.
Samþykkt samhljóða
2. Lagning jarðstrengja í Borgarbyggð 2025
2503102
Farið yfir stöðuna á lagningu jarðstrengja við Einkunnir. Guðný Elíasdóttir, sviðsstjóri og Logi Sigurðsson, umhverfisfulltrúi sátu fundinn undir þessum lið.
Vonir stóðu til að mögulegt yrði að nýta samlegð í lagningu rafmagns fyrir lýsingu upp í Einkunnir í samstarfi við Rarik. Það náðist því miður ekki en þrátt fyrir það leggur byggðarráð áherslu á að ráðist verði í verkið í sumar eða haust. í ljósi stöðunnar leggur byggðarráð til að verkið verði boðið út að nýju við fyrsta tækifæri.
Samþykkt samhljóða.
3. Brákarbraut 25, gamla sláturhúsið - áætlun um niðurrif
2409047
Farið yfir stöðu vinnu við niðurrif gamla sláturhússins í Brákarey. Kynnt framvinda málsins og kostnaðaráætlun vegna áfanga tvö, sem væri niðurrif á burstum hússins. Guðný Elíasdóttir, sviðsstjóri sat fundinn undir þessum lið.
Vinna við niðurrif á gamla sláturhúsinu gengur samkvæmt áætlun en áætlað er að liðlega 60% verksins sé lokið. Það veldur hins vegar vonbrigðum að framhald hefur orðið á þeirri þróun að magn í einstaka verkliðum hefur reynst mun meira heldur en miðað hafði verið, það á við um blöndun einangrunar við steypu, asbest og timbur. Meira hefur farið í urðun heldur en gögn gerðu ráð fyrir. Raunmagn umfram það magn sem miðað var við í gögnum leiðir til þess að kostnaður við verkið fer verulega fram úr tilboði sem var tekið. Kostnaður er þó enn undir þeim ramma sem sveitarfélagið hafði sett sér. Það er hins vegar verulega gengið á það svigrúm.
Í ljósi framangreinds leggur byggðarráð til að kláraður verði fyrri áfangi enda verkið komið vel af stað en að beðið verði með að setja áfanga tvö á framkvæmdaáætlun.
Samþykkt samhljóða
4. Endurbygging GBF á Kleppjárnsreykjum - búnaðarlisti
2507061
Framlögð tillaga að innkaupum á búnaði í endurbyggingu Grunnskóla Borgarfjarðar - Kleppjárnsreykjadeildar.
Nú styttist í að hægt verði að taka tvær kennslustofur í nýbyggingu Grunnskóla Borgarfjarðar að Kleppjárnsreykjum í gagnið og því þarf að kaupa húsgögn svo hægt sé að hefja kennslu þar í haust. Farið yfir drög að búnaðaralista frá skólastjóra og ósk um að fjárfest verði í húsbúnaði nú í haust fyrir um 3,8 m.kr. í því skyni. Byggðarráð tekur vel í tillögur skólastjórnanda og vísar beiðninni til næsta viðauka við fjárhagsáætlun. Lagt er upp með að búnaðarlistinn verði svo fullunninn í samstarfi við sviðsstjóra fjölskyldusviðs og komi aftur fyrir byggðarráð með haustinu.
Samþykkt samhljóða.
5. Beiðni um skipan raflínunefndar vegna Holtavörðuheiðarlínu 1 - Beiðni um umsögn
2507033
Framlagt bréf frá Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu þar sem óskað er eftir afstöðu Borgarbyggðar til beiðni Landsnets um að stofnuð verði sérstök raflínunefnd vegna Holtavörðuheiðarlínu 1.
Byggðarráð ítrekar bókun sveitarstjórnar frá sveitarstjórnarfundi nr. 260: "Fyrirhuguð Holtavörðuheiðarlína 1 mun liggja um fjögur sveitarfélög. Enginn ágreiningur er uppi um þjóðhagslegt mikilvægi línunnar og mikilvægi hennar til að auka raforkuöryggi í landinu. Fyrir samfélagið í heild er því til mikils að vinna ef hægt er að auka skilvirkni skipulagsferlisins án þess að það bitni á gæðum skipulagsvinnunnar.
Innan sveitarfélaga eru skiptar skoðanir um æskilegt línustæði og ekki loku fyrir það skotið að ágreiningur muni vakna milli sveitarfélaga sömuleiðis. Því er æskilegt að skapaður sé farvegur til að ávarpa og greiða úr slíkum ágreiningi og tryggja sameiginlegan skilning. Fulltrúar sveitarfélaga í nefndinni fylgja enda stefnu sinna sveitarfélaga og gæti hagsmuna þeirra.
Ekki er komin reynsla á skipan raflínunefnda. Það er von sveitarstjórnar að ef til þess kemur muni nefndin verða til þess að styrkja samtal Landsnets, ráðuneytis og sveitarfélaga sem vega muni fyllilega upp á móti þeim breytta farvegi skipulagsferlisins.
Skipan raflínunefndar felur í sér eftirgjöf skipulagsvalds. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á raforkulögum síðustu ár hafa rýrt skipulagsvald sveitarfélaga gagnvart kerfisáætlun Landsnets.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar vekur athygli á því að línustæði Holtavörðuheiðarlínu hefur ekki endanlega verið ákveðið né staðfest og ekki lokið við samninga við landeigendur, auk þess hefur ekki verið til staðar ágreiningur milli sveitarfélaga, sem fyrirhuguð lína kemur til með að fara í gegnum eða milli sveitarfélaga og Landsnets. Af þeim ástæðum telur Sveitarstjórn Borgarbyggðar ekki tímabært að skipa raflínunefnd að svo stöddu"
Samþykkt samhljóða.
Fylgiskjöl
6. Fjárhagsáætlun 2026
2505064
Farið yfir tekjuáætlun fyrir árið 2026. Eiríkur Ólafsson fjármálastjóri mætir til fundar og fer yfir áætlunina.
Í áætluninni er gert ráð fyrir 5,6% hækkun skatttekna á milli áranna 2025 og 2026 sem eru tæplega 340 millj kr. Í áætluninni er gert ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli fasteignaskatts frá því sem er á árinu 2025.
Samþykkt samhljóða.
7. Aukakostnaður vegna fjölnota íþróttahúss
2507074
Lagt fram yfirlit frá verktaka vegna stöðu framkvæmda við fjölnota íþróttahús.
farið yfir minnisblað frá Ístaki þar sem gerð er grein fyrir viðbótarkostnaði vegna ófyrirséða aðstæðna undir k.löpp í byggingu. Samkvæmt upplýsingum frá EFLU verkfræðistofu er þetta kostnaður sem fellur á hendur verkkaupa vegna óvissu um nákvæma staðsetningu klapparbotns undir byggingunni. Á undirbúningsstigi verksins voru gerðar rannsóknir til þess að fá ákveðna mynd á dýpi niður á fastan botn. Það var þó ljóst að dýpið gæti verið breytilegt inn á milli þeirra mælinga sem gerðar voru. Vegna þessarar óvissu var það gefið út á útboðstíma verksins að ef dýpi niður á fastan botn reyndist vera meira en áætlað væri ætti verktaki rétt á því að fá þann kostnað greiddan.
Kostnaður við stauraniðurrekstur var áætlaður í kringum 120 milljónir og er aukakostnaður um 12,5 m.kr. eða um 10% frávik frá þeim áætlunum. Þessi verkliður er oft háður töluverðri óvissu og er það mat verkefnastjóra verksins að aukakostnaður í þessu tilfelli sé innan skekkjumarka.
þar sem kostnaðurinn er óverulegur af þeim heildarkostnaði sem er á áætlun fyrir verkið er ekki talin ástæða til að bregðast við með viðauka að svo stöddu.
Samþykkt samhljóða
8. Viðauki við fjárhagsáætlun 2025
2502016
Kynnt tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun 2025 og fjárfestingarramma 2025-2028. Til fundarins kemur Eiríkur Ólafsson fjármálastjóri Borgarbyggðar.
Lögð fram tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun 2025. Þar er gert ráð fyrir auknum kostnaði um 1,2 m.kr. vegna hækkunar á kjarasamningum slökkviliðs, 2,3 m.kr. vegna boðtækjgreiðslna slökkviliðs, 4,0 m.kr. vegna afturvirkra hækkana slökkviliðs, 1,5 m.kr. vegna byggðarráðs og 2,8 m.kr. vegna sveitarstjórnar í ljósi hækkunar þingfarakaups og aukins fjölda varamanna, 3,0 m.kr. vegna launa í tenglum við skjölun og fl., 1,6 m.kr. vegna samnings við Syndis, 1,0 m.kr. vegna símsvörunar og 14,0 m.kr. vegna uppgjörs við fornbílafjélagið. Þá er gert ráð fyrir auknum tekjum vegna hærri arðgreiðslna en gert var ráð fyrir frá Faxaflóahöfnum að fjárhæð 30,0 m.kr.
Gert er ráð fyrir breytingum á framkvæmda- og fjárfestingaráætlun þannig að ákveðið er að verja 3,7 m.kr. til búnaðarkaupa fyrir Grunnskóla Borgarfjarðar að Kleppjárnreykjum.
Heildarkostnaðaráhrif viðaukans nema því hækkun upp á 5,3 m.kr. sem mætt verður með lækkun á handbæru fé.
Byggðarráð sem hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í leyfi sveitarstjórnar sbr. 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 samþykkir framlagðan viðauka.
Samþykkt samhljóða.
9. Fundargerðir Faxaflóahafna sf - 2025.
2504239
Framlögð fundagerð 258.fundar stjórnar Faxaflóahafna 04.06.2025.
Fundargerð framlögð.
Fylgiskjöl