Velferðarnefnd Borgarbyggðar
157. fundur
11. febrúar 2025 kl. 09:00 - 11:00
í fundarsal að Digranesgötu 2
Nefndarmenn
Guðveig Eyglóardóttir - formaður
Kristín Erla Guðmundsdóttir - aðalmaður
Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir - aðalmaður
Kristján Ágúst Magnússon - aðalmaður
Sigrún Ólafsdóttir - varamaður
Starfsmenn
Erla Björg Kristjánsdóttir - félagsmálastjóri
Fundargerð ritaði: Erla Björg Kristjánsdóttir - félagsmálastjóri
Dagskrá
1. Trúnaðarbók 2025
2501057
Lagðar fram afgreiðslur starfsmanna frá síðasta fundi og afgreiddar umsóknir um fjárhagsstyrk.
Óheimilt er að birta afgreiðslu nefndarinnar og starfsmanna opinberlega og því eru afgreiðslur skráðar með formlegum hætti í trúnaðarbók. Það er skýr reglurammi sem nefndin og starfsmenn félagsþjónustu starfa eftir. Reglurnar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins.
2. Barnavernd - tölfræðilegar upplýsingar
2401084
Kynntar tölulegar upplýsingar fyrir árið 2024. Á síðasta ári bárust Barnavernd Borgarbyggðar samtals 237 tilkynningar, sem er nokkur aukning frá síðasta ári. Alls snéru tilkynningarnar að 130 börnum í Borgarbyggð. Algengasti tilkynningarflokkurinn snéri að vanrækslu, eða samtals 113 tilkynningar, 64 tilkynningar féllu undir ofbeldi og 59 tilkynningar vörðuð áhættuhegðun barna. Töluverður kynjamunur kemur fram, þar sem drengir eru margfalt fleiri þegar kemur að tilkynningum til barnaverndar.
Lagt fram til kynningar. Áhyggjuefni er að sjá hversu mikill munur er á milli kynjanna og eru vísbendingar þess efnis að oftar sé tilkynnt vegna drengja. Velferðarnefnd leggur áherslu á reglulega fræðslu til barna og ungmenna, og þeirra sem starfa í þágu barna.
3. Janus heilsuefling
2306047
Kynnt framvinduskýrsla Janusar heilsueflingar: Fjölþætt heilsuefling 60+ í Borgarbyggð, leið að farsælum efri árum. Í skýrslunni kemur fram að verkefnið gangi mjög vel og eru nú skráðir þátttakendur 120 talsins. Til stendur að taka inn nýjan hóp nú í febrúar.
Í lok nóvember 2024 fór fram þjónustukönnun til þátttakenda, þar sem spurt er út í þjónustuþætti og hvort iðkendur finni mun á andlegri-, líkamlegri- og félagslegri líðan frá því þau hófu þátttöku. Um 97% iðkenda telja þjónustuna vera góða eða mjög góða. Um 76% iðkenda segjast finna fyrir jákvæðum/mjög jákvæðum breytingum á andlegri- og félagslegri líðan sinni. Þegar spurt er út í líkamlega líðan segjast tæplega 80% finna fyrir jákvæðum eða mjög jákvæðum breytingum. Að lokum gefa iðkendur starfsmönnum Janusar að meðaltali 90 stig, af 100 mögulegum.
Velferðarnefnd fagnar því hversu vel heilsueflingin hefur gengið í Borgarbyggð.
4. Notendaráð og samráðshópur í málefnum fatlaðs fólks
2003205
Á fundi sveitastjórnar í byrjun árs 2023 voru Guðveig Eyglóardóttir, Bjarney Bjarnadóttir og Thelma Harðardóttir skipaðar sem fulltrúar sveitafélagsins í notendaráð í málefnum fatlaðs fólks. Ekki hafa komið fram tilnefningar frá Landssamtökum Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagi Íslands. Í bæklingi Þroskahjálpar um notendasamráð kemur fram að einnig komi til greina að boða til fundar með fötluðu fólki í sveitarfélaginu sem sjálft tilnefnir þar fulltrúa sína í ráðið. Fulltrúar fatlaðs fólks í ráðinu þurfa að endurspegla ákveðna breidd hvað varðar fötlun og stöðu.
Stefnt er á að halda opinn fund 13. febrúar nk. þar sem fer fram kynning á notendaráði og tækifæri gefst til að leggja grunn að notendaráði. Í kjölfarið verður áhugasömum boðið á framhaldsfund þar sem gefst kostur á að bjóða sig fram sem og kjósa aðal- og varamenn.
Velferðarnefnd fagnar því að verið sé að leggja að drög að notendaráði í málefnum fatlaðs fólks. Nefndin leggur vonir til að á næstkomandi fundi verði komnar tilnefningar.
Fundi slitið - kl. 11:00