Dagskrá
1. Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn
2501024
Umræða í byggarráði vegna jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn.
Byggðarráð Borgarbyggðar fylgist grannt með þróun skjálftavirkni við Grjótárvatn. Miðja yfirstandandi skjálftavirkni er utan alfaraleiðar en þó óþægilega nærri efstu bæjum og frístundabyggð þar sem dvalið er allan ársins hring. Svæðið er mjög vinsælt útivistarsvæði og afréttur. Byggðarráð leggur áherslu á að fjarskiptaöryggi á svæðinu verði aukið og fagnar áformum Veðurstofu um aukna vöktun Ljósufjallakerfisins. Framundan er fundur í Almannavarnanefnd Vesturlands til að fara yfir stöðuna og fundir með Veðurstofu og fjarskiptafélögum.
2. Starfsemi Slökkviliðs Borgarbyggðar 2024
2501030
Framlagt yfirlit yfir starfsemi Slökkviliðs Borgarbyggðar árið 2024.
Framlagt. Byggðarráð þakkar gott yfirlit yfir starfsemi ársins.
3. Tekjumörk vegna afsláttar af fasteignaskatti
2501021
Lögð fram tillaga að tekjumörkum vegna afsláttar fasteignaskatts elli- og örorkulífeyrisþega í Borgarbyggð.
Tekjulágir elli- og örorkulífeyrisþegar sem eiga lögheimili í Borgarbyggð eiga rétt á afslætti af fasteignaskatti skv. reglum og ákvörðun sveitarstjórnar hvert ár, sbr. heimild í 5. gr. laga 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Hjá hjónum og sambýlisfólki ræður aldur þess er fyrr verður 67 ára. Afsláttur nær einungis til íbúðarhúsnæðis sem viðkomandi býr sjálfur í.
Afsláttur ræðst af tekjum undanfarandi árs. Afslátturinn er reiknaður til bráðabirgða við álagningu út frá öllum skattskyldum tekjum einstaklings eða hjóna/sambúðarfólks, þ.m.t. eigna- og fjármagnstekjum samkvæmt síðasta skattframtali, en þegar staðfest skattframtal liggur fyrir vegna tekna síðasta árs er afsláttur endurskoðaður og leiðréttur.
Tekjumörk eru ákveðin af byggðarráði Borgarbyggðar í desember á hverju ári og eru nú:
Fyrir einstaklinga, (tekjur á árinu 2024):
með tekjur allt að kr. 5.065.000 er veittur 100% afsláttur
með tekjur á bilinu kr. 5.065.001 - 5.864.000 er veittur 75% afsláttur
með tekjur á bilinu kr. 5.864.001 - 6.654.000 er veittur 50% afsláttur
Fyrir hjón (tekjur á árinu 2024):
með tekjur allt að kr. 8.375.000 er veittur 100% afsláttur
með tekjur á bilinu kr. 8.375.001 - 9.364.000 er veittur 75% afsláttur
með tekjur á bilinu kr. 9.364.001 - 10.464.000 er veittur 50% afsláttur
Byggðarráð samþykkir að fyrirkomulag afsláttar á fasteignskatt elli- og örorkulífeyrisþega í Borgarbyggð verði með óbreyttum hætti en hækkun verði 5,6% frá fyrra ári sem er í takt við breytingu á launavísitölu á milli ára og hækkun ellilífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins á milli ára.
Samþykkt samhljóða.
4. Verðfyrirspurn v. tjaldsvæða í Borgarnesi og Varmalandi
2411093
Rætt um fyrirkomulag rekstrar tjaldsvæða í Borgarbyggð en samningar um rekstur þeirra eru lausir.
Tjaldsvæðin í Borgarnesi og á Varmalandi eru í eigu sveitarfélagsins. Byggðarráð leggur til, að fenginni umsögn Umhverfis- og landbúnaðarnefndar, að sveitarstjóra verði falið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum um að taka við rekstri hvors tjaldsvæðis um sig. Að mati byggðarráðs er vannýtt tækifæri í sveitarfélaginu til að laða að ferðamenn sem kjósa að dvelja á tjaldsvæðum til lengri eða skemmri tíma og að tjaldsvæðin styðji við aðra ferðaþjónustu á svæðinu. Við val á samningsaðilum verði því horft til þátta á borð við beinar leigutekjur sveitarfélagsins, leigutíma, áform rekstraraðila um uppbyggingu, markaðssetningu, sjálfbærni o.s.frv. Einnig hvernig rekstraraðili sjái fyrir sér að starfsemin styðji ferðaþjónustu í sveitarfélaginu almennt og fjárhagslegar forsendur séu til staðar. Byggðarráð óskar eftir því að sveitarstjóri vinni auglýsingu á þeim grunni.
Samþykkt samhljóða.
5. Sorpútboð 2024
2406059
Farið yfir stöðu vinnu við mat á tilboðum vegna útboðs á úrgangsþjónustu í Borgarbyggð. Til fundarins koma undir þessum dagskrárlið Birgir Örn Birgisson hjá Consensa sem er ráðgjafi sveitarfélagsins, í gegnum fjarfundarbúnað, Sóley Baldursdóttir deildarstjóri umhverfis- og landbúnaðarmála og Guðný Elíasdóttir sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs.
Farið yfir innsend tilboð og þau rædd. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram í samráði við ráðgjafa og taka fyrir á næsta fundi byggðarráðs.
Samþykkt samhljóða.
6. Girðing á Lambatungur
2410217
Afgreiðsla 73. fundar fjallskilanefndar Þverárréttar: Rætt um vilja nefndarinnar til að girða á Lambatungum. Slík girðing myndi auka skilvirkni við smalamennskur. Nefndin kallar eftir frekara samtali við sveitarstjórn um þann möguleika.
Fulltrúar í fjallskilanefnd ræddu mikilvægi þess að tryggja aðskilnað milli svæða. Fjallskilanefnd Þverárréttar leggur ríka áherslu á að hafist verði handa við endurbætur á girðingu í Lambatungum. Jafnframt rætt mikilvægi girðingar milli landshluta og að henni verði viðhaldið. Jafnframt rætt ástand leitarmannaskála, réttar og fleira en alls staðar hefur byggst upp viðhaldsþörf. Fram kom ríkur vilji til að samstarf milli fjallskiladeilda verði aukið og sameining deilda gæti verið framfaraskref. Byggðarráð tekur undir mikilvægi girðingar í Lambatungum enda forsenda t.d. hagræðingar í smalamennsku. Byggðarráð telur mikilvægt að aðliggjandi fjallskilanefndir eigi samtal um verkefnið og lagðar verði tillögur á borð byggðarráðs um kostnað, tímalínu og fleira.
7. Brákarbraut 25, gamla sláturhúsið - áætlun um niðurrif
2409047
Framlögð drög að útboðsgögnum unnin af Verkís vegna niðurrifs á Brákarbraut 25 í Borgarnesi.
Farið yfir fyrstu drög að útboðsgögnum fyrir niðurrif á hluta húsnæðis í Brákarey sbr. minnisblað sem framlagt var á fundi byggðarráðs nr. 682, afgreiðslu fundar byggðarráðs nr. 688 og sveitarstjórnar nr. 258 dags 15. nóvember 2024. Byggðarráð felur sveitarstjóra að rýna gögnin og óskað er eftir fullunnum útboðsgögnum á næsta fundi byggðarráðs.
Samþykkt samhljóða.