21. maí, 2024
Fréttir
Vesturland er fyrsti landshlutinn til að sameinast um svæðisbundið farsældarráð. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði samning þess efnis við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi í gær.

Með samningnum skuldbinda Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi sig til þess að ráða í stöðugildi verkefnisstjóra farsældar. Verkefnisstjórinn mun samhæfa farsældarþjónustu í sveitarfélögum í landshlutanum og koma á fót svæðisbundnu farsældarráði.

Samningurinn er byggður á niðurstöðum starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um samhæfða svæðaskipan í málefnum barna. Að mati starfshópsins voru mikil tækifæri við það að starfrækja svæðisbundin farsældarráð eftir svæðaskiptingu landshlutasamtaka sveitarfélaga en sveitarfélögin eru vön að vinna saman eftir landshlutum t.a.m. þegar kemur að sóknaráætlunum.

Börn og foreldrar sem á þurfa að halda eiga að hafa aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana samkvæmt farsældarlögum. Sveitarfélög skulu skipa svæðisbundin farsældarráð samkvæmt lögunum sem eru vettvangur fyrir samráð í þágu farsældar barna á svæðinu og forgangsröðun á aðgerðum.

„Það er áfangi að fyrsta farsældarráðið sé að taka á sig mynd. Ráðin gegna lykilhlutverki í farsældarlögum við samþættingu þjónustu með því að fá hina mismunandi þjónustuaðila að borðinu í samtal,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. „Við viljum brjóta niður múra milli þjónustuaðila, stofnana og sveitarfélaga til að veita bestu þjónustu á hverjum tíma og við hverjar aðstæður í þágu farsældar barna. Þau eru hjartað í kerfinu.“

Gott og árangursríkt samráð hefur átt sér stað við sveitarfélög og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka um að setja á laggirnar svæðisbundin farsældarráð með stuðningi ráðuneytisins. Sveitarfélög á Vesturlandi eru þau fyrstu til að sameinast um svæðisbundið farsældarráð.

Tengdar fréttir

6. júní, 2023
Fréttir

241. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Fundarboð

6. júní, 2023
Fréttir

Umhverfisviðurkenningar – tilnefningar

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd veitir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar og fallegar lóðir og hvetur íbúa til að taka þátt í að gera ásýnd sveitarfélagsins sem besta.