20. febrúar, 2025
Fréttir

Vegna framkvæmda við Borgarbraut 63

Vinna er hafin að nýju við uppbyggingu fjögurra hæða fjölbýlishúss við Borgarbraut 63, sem reist er í samvinnu Nemendagarða Menntaskóla Borgarfjarðar og Brákarhlíðar fasteignafélag.

Nú stendur yfir jarðvinna, og unnið er að gerð á rampi niður í bílakjallara. Ljóst er að framkvæmdirnar hafa áhrif á aðkomu að Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Brákarhlíð, auk þess sem íbúar munu verða fyrir áhrifum. Til að afmarka vinnusvæðið og tryggja öryggi verður aðkoma að HVE og Brákarhlíð þrengd tímabundið, og opnað verður fyrir einstefnuumferð um hjáleið að Kveldúlfsgötu.

Ekki er heimilt fyrir þungaflutninga að fara um hjáleiðina, en hún er ætluð fólksbílum og til að greiða leið sjúkrabíla.

Þessar breytingar á aðkomu og öryggisráðstafanir eru í samræmi við tilkynningu sem birtist á heimasíðu Borgarbyggðar í október síðastliðnum en þá var vonast til að vinna hæfist fljótlega.

Helstu breytingar á aðkomu:

• Aðkoman að heilsugæslu frá Borgarbraut verður einbreið. 
• Opnað verður fyrir hjáleið í gegnum Kveldúlfsgötu til að bæta aðgengi út frá öryggissjónarmiðum.
• Vinnubúðir verktaka verða staðsettar á bílastæði við HVE og Brákarhlíð næstu mánuði, með leyfi frá heilsugæslunni.

Gert er ráð fyrir að þrengingar við Borgarbraut og hjáleið um Kveldúlfsgötu verði í gildi til 1. júní 2025.

Verktaki vill vekja athygli á því að öryggisráðstafanir hafa verið settar upp á vinnusvæðinu í samræmi við hefðbundnar verklagsreglur. Þær fela meðal annars í sér vinnugirðingu umhverfis svæðið til að tryggja öryggi allra.

Framkvæmdaaðilar bera ábyrgð á að tryggja öryggi á svæðinu með merkingum, leiðbeiningum og lokunum fyrir akandi og gangandi umferð.

Helstu tengiliðir vegna framkvæmdanna:

Viggó Örn Guðbjartsson frá Atlas verktökum

Dýrfinna Arnardóttir frá Dynju

Ljóst er að þessar framkvæmdir valda töluverðu raski fyrir íbúa og vegfarendur á svæðinu. Íbúar eru beðnir um að sýna aðstæðunum skilning og fara með gát um svæðið.

 

Tengdar fréttir

1. júlí, 2025
Fréttir

Álit samstarfsnefndar um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps

Samstarfsnefnd um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps hefur skilað af sér áliti til sveitarstjórna sveitarfélaganna, sem hafa tekið þær til umræðu skv. 119. grein sveitarstjórnarlaga. Niðurstaða samstarfsnefndar er að sameining muni hafa fleiri kosti í för með sér en ókosti fyrir íbúa og að henni fylgi tækifæri sem annars stæðu sveitarfélögunum ekki til boða. Í skilabréfi nefndarinnar til sveitarstjórna segir eftirfarandi: …

18. júní, 2025
Fréttir

Aníta Björk Ontiveros er fjallkona Borgarnes 2025

Löng hefð er fyrir því í Borgarnesi að Kvenfélag Borgarness sjái um val á Fjallkonu úr hópi nýstúdenta ár hvert. Í ár 2025 var Aníta Björk Ontiveros fyrir valinu. Aníta Björk steig á svið og flutti ljóðið flutti ljóðið „Vorvísur“ eftir Sigríði Helgadóttur, frá Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum. Auk þess að flytja ljóð í Skallagrímsgarði heimsótti Aníta Brákarhlíð, þar sem hún …