26. október, 2023
Fréttir

Undirrituðum finnst það við hæfi að vekja athygli íbúa Borgarbyggðar og annarra á þeirri staðreynd að árið 2023 nánar tiltekið laugardaginn 14. október verður Slökkvilið Borgarbyggðar 100 ára. Það er því hjá okkur afmælisár þar sem því verður fagnað og þess minnst að 100 ár eru liðin síðan að slökkviliði var komið á fót í Borgarneshreppi eins og sveitarfélagið hét þá. En tilurð slökkviliðsins þegar til þess var stofnað var ekki átakalaus eins og meðfylgjandi tilvitnanir gefa glögga mynd af.

Í bókinni 100 ár í Borgarnesi segir á bls,243.

Árið 1919 var fyrst vakið máls á því, að nauðsynlegt væri að koma á hreinsun reykháfa, þar eð senn yrði mönnum skylt að vátryggja hús sín hjá Brunabótafélagi Íslands og eftirlits með reykháfum yrði þá krafist. Varð það og skömmu síðar.

Þá komu upp raddir um stofnun slökkviliðs, og með Stjórnarráðsbréfi 1922 var hreppurinn skyldaður til þess að kaupa slökkvidælu. Var hinu fyrsta slökkviliði hreppsins komið upp 1923 og Bjarni Guðmundsson járnsmiður ráðinn slökkviliðsstjóri. Slökkvidælan kom þó ekki fyrr en 1925 og mun aldrei hafa orðið að notum. Dælan sú var handknúin tveggja bullustrokka í vatnskari og í það var ausið vatni með strigafötum úr brunnum í kauptúninu því engin var vatnsveitan þá í Borgarnesi. Tilvitnun líkur.

Við athugun sem Geir Zöega vegamálastjóri, sem brunamál heyrðu undir á þessum tíma, lét framkvæma árið 1928 kom í ljós, að hvorki voru til brunavarnir né brunavarnatæki sem nefnandi þóttu í Borgarnesi. Var þá heitið fimmtungs lækkun á vátryggingargjöldum ef þessu yrði kippt í lag. Samþykkti borgarafundur heimild til lántöku til þess að bæta úr ágöllum.

Viðhlítandi vélknúin slökkvidæla var síðan pöntuð árið 1930. Og var í framhaldi af því opinber reglugerð um skipun slökkviliðs og brunamála í Borgarneshreppi samin, staðfest og útgefin af Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu 31. ágúst 1931 undirrituð af Ásgeiri Ásgeirssyni sem seinna varð forseti íslands. Þá var og Daníel Björnsson trésmiður ráðinn slökkviliðsstjóri í þessari lotu var einnig ákveðið að byggja húsnæði yfir slökkvitækin við syðri endann á rafstöðvarhúsinu við Borgarbraut 13. Þess má einnig geta til gamans að Daníel var faðir Erlu móður Írisar Grönfeld.

Eldskírn sína fékk slökkviliðið í septembermánuði 1931, er eldur kviknaði í heyhlöðu að bænum Þursstöðum í Borgarhreppi. Var Daníel vakinn með þessum tíðindum klukkan sex að morgni, og smalaði hann þegar saman sautján mönnum úr slökkviliðinu og hélt af stað með véldælu sína, slöngur og annað fleira er heyrði til slökkvistarfinu. Barðist slökkviliðið við eldinn í átta klukkustundir og tókst að koma í veg fyrir að heyið gerbrynni. Tilvitnun líkur

Endursagnir úr gömlum fundargerðum Hreppsnefndar Borgarneshrepps…

Á fundi hreppsnefndar Borgarneshrepps, fimmtudaginn 2. Mars 1922 sem haldinn var á skrifstofu Sparisjóðs Mýrasýslu var lögð fram dagskrá í fimm liðum og fyrsta mál á dagskrá er „Brunamál“ Oddviti lagði fram bréf frá Stjórnarráði Íslands þar sem hreppurinn er skyldaður til þess að kaupa slökkvitæki samkvæmt lögum um Brunabótafélag Íslands. Samþykkt var að kaupa brunadælu. Sign: Magnús Jónsson, Stefán Björnsson, Jón Björnsson, Sveinn Níelsson.

Á 78 fundi hreppsnefndar Borgarneshrepps, sem haldinn var 14. Október 1923 á skrifstofu Sparisjóðs Mýrasýslu var lögð fram dagskrá í fjórum liðum, og annað mál á dagskrá hans var Slökkvilið Borgarneshrepps og kosning slökkviliðsstjóra. Bjarni Guðmundsson, járnsmiður var kosinn slökkviliðsstjóri og Magnús Jónasson, bílstjóri til vara. Sign: Jón Björnsson, Stefán Björnsson, Sveinn Níelsson, Þorkell Guðmundsson, Magnús Jónsson.

Laugardaginn 5. Desember 1925, var settur fundur í hreppsnefnd Borgarneshrepps á skrifstofu Kaupfélags BorgfirðingaEitt mál lá fyrir fundinum, samþykkt að fela oddvita að útvega bráðabyrgða húsnæði fyrir slökkvidælu kauptúnsins og að sjá um að hún sé í standi hvenær sem þyrfti til hennar að grípa. Einnig sjái oddviti um útvegun á tækjum þeim sem dælunni þurfa að fylgja, vatnskar, fötur og framvegis. Einnig var oddvita falið að ganga ríkt eftir því að skoðun fari fram á eldstæðum og umbúnaði þeirra og reykháfum í kauptúninu. Fleira gerðist ekki. Fundi slitið Sign: Helgi Pétursson, Þorkell Guðmundsson, Magnús Jónsson, Stefán Björnsson, Árni Gíslason.

Árið 1930, mánudaginn 10. Nóvember var 180. fundur Hreppsnefndar Borgarneshrepps haldinn í skólahúsinu að undangengnu fundarboði frá oddvita. Dagskrá var í tveimur liðum.

  1. Oddviti lagði fram bréf frá vegamálastjóra dags, 1 nóvember s.l þar sem hann tjáir hreppsnefndinni að hann sé skipaður eftirlitsmaður í kaupstöðum og kauptúnum og ráðunautur Brunabótafélags Íslands í þeim efnum. Getur hann þess að árið 1928 hafi við athugun, komið í ljós að brunavarnir og brunatæki séu engin í Borgarnesi. Gerir hann tillögur um kaup á nauðsynlegum slökkvitækjum sem að líkindum muni kosta ísl kr 6.500 komin til Borgarness. Skýrir hann frá því að Brunabótafélagið hafi leyft sér að geta þess að öll iðgjöld fyrir húsatryggingar í kauptúninu muni verða lækkuð um 20% þegar áðurgreindar umbætur séu komnar í framkvæmd. Ennfremur getur hann þess að félagið bjóðist til þess að lána hreppnum fé til kaupa á umræddum slökkvitækjum gegn 6% ávöxtun og 10 ára afborgunum. Með því að heimild er til í lögum frá 1907 til þess að skylda kauptúnið til að útvega nauðsynleg slökkvitæki, þá er hreppsnefndin sammála um að gera ráðstafanir til útvegunnar á tækjum þessum að fengnu samþykki almenns hreppsfundar (íbúafundar)
  2. Oddviti lagði fram bréf frá Samgöngu- og atvinnumálaráðuneytinu, dags, 18. Október 1930, ásamt frumvarpi til laga um Brunabótafélag Íslands sem ráðuneytið sendi hreppsnefndinni það til athugunar. Var málinu skotið á frest uns nefndarmenn hefðu skoðað frumvarpið.

Laugardaginn 15. Nóvember 1930 (ekki er getið um fundarstað) en ætla má að hann hafi farið fram í skólahúsinu, var opinn almennur hreppsfundur, fyrir þeim fundi lá meðal annars bréfið frá vegamálastjóra sem hér að ofan greinir og oddviti las það upp á fundinum og einnig tillögur um nánara fyrirkomulag eftir að brunatækin verða fengin. Oddviti lagði fram svohljóðandi tillögu, sem var samþykkt með öllum atkvæðum fundarmanna.

Fundurinn heimilar hreppsnefnd að taka allt að 8000 – átta þúsund króna lán sem varið sé til kaupa á slökkvitækjum í nánu samráði við eftirlitsmann brunavarna í kaupstöðum og kauptúnum.“

Og svona til samanburðar er það samþykkt á þessum sama opna íbúafundi að Borgarneshreppur kaupi 200 – tvö hundruð króna hlut í Flugfélagi Íslands. Og til að setja hlutina í samhengi að þá var árið 1923 tímakaup verkamanns samkvæmt gögnum frá Dagsbrún 1 króna og 20 aurar. Og eflaust eitthvað á svipuðum nótum hér í Borgarnesi.

Í fundargerðum Framfarafélags Borgnesinga frá 1921 má finna áskorun félagsins á Hreppsnefnd Borgarneshrepps að að koma á fót „Brunaliði“ í kauptúninu, og það er ári á undan tilskipunar stjórnarráðsins um úrbætur í þessum efnum þannig að íbúarnir hafa verið þá þegar mjög vakandi um margt það sem gat og varð kauptúninu og íbúum þess til vaxtar og framdráttar og ljóst er að Framfarafélag Borgnesinga kom að mörgum mikilvægum málum er vörðuðu sveitarfélagið og velferð íbúa þess á þessum árum.

Á fundi Framfarafélags Borgarnesinga 4. Júní 1930 voru samþykktar nokkrar tillögur með áskorun á hreppsnefndina um að úr verði bætt hið snarasta, meðal annars að hreinsaður verði allur óþrifnaður og sorp meðfram vegum og af lóðum í þorpinu og að sorpþrær við hús verði hreinsaðar reglulega og að tæki þau sem sorpið er flutt á verði þannig útbúin að þau dreifi ekki sorpi og saur um göturnar í þorpinu ( því engin var vatns- né fráveitan á þessum árum og útikamrar við hvert hús, tilv, BKÞ). Ræsting sem ekki fæst framkvæmd af einstaklingum verði gjörð á kostnað hreppssjóðs. Þá er áskorun um að vegur meðfram sláturhúsi við Brákarsund verði gjörður hættulaus mönnum og skepnum.

Upp úr þessum fundi stendur þó klárlega áskorun fundarins á hreppsnefndina um að vinna að því ásamt umboðsmanni Brunabótafélags Íslands hér í Borgarnesi að lækkun fáist á brunabótaiðgjöldum. Og að athugað verði hvort slökkvidæla sú sem hreppurinn á verði gerð nothæf, eða könnuð nauðsyn á að eignast ný slökkvitæki. Einnig að byggt verði hús til að geyma tækin í og maður ráðinn til að sjá um geymslu þeirra og notkunTilvitnunum líkur.

Ágætu lesendur ég hef hér á undan tínt til eitt og annað sem markvert er úr fórum mínum ykkur til fróðleiks og skemmtunar sem tengist þeirri merku sögu sem spannar brátt heila öld, 100 ár og heyrir til brunavarna og slökkvistarfa hér í Borgarnesi fyrst sem lítill vanmáttugur hreppur, og allt til dagsins í dag þegar Borgarfjarðarhérað er sameinað í Borgarbyggð. Frá Skorradalshreppi vestur um að Haffjarðará sem gera u.þ.b. 5% af flatarmáli Íslands. Sveitarfélag sem hefur alla burði og getu til þess að eflast og dafna enn frekar en er í dag, enda liggja tækifærin við hvert fótmál einungis þarf að greina þau og nýta okkur öllum til hagsbóta.

Þegar rennt er í gegnum tilvist og sögu slökkviliðs- og slökkvistarfa hér í Borgarnesi, þessa lífs nauðsynlega þjónustuþáttar í samfélagi hvers bæjar og sveitarfélags sést að þetta hefur verið og er enn endalaus barátta. Barátta fyrir bættum búnaði og bættri aðstöðu, bölvað streð og ströggl sem staðið hefur yfir í 100 ár og ekki sér fyrir endann á því enn. Margt hefur þó unnist til góðs, en margt er það líka sem eftir er að bæta úr er varðar þessa mikilvægu grunnþjónustu sveitarfélagsins. Það sem vakti athygli undirritaðs þegar farið var í gegnum skjöl og fundargerðir er þessi þráhyggja íbúa að eignast brunadælu, en á þessum árum var ekki um annað vatn að ræða til slökkvistarfa en úr brunnum í kauptúninu sem voru þó fjölmargir en vatnsveita var ekki lögð í Borgarnesi fyrr en við hernám landsins árið 1940. En vatnsveitan úr Seleyrargili var samvinnuverkefni Borgarneshrepps og Breska hersins. Þegar herinn kom hingað til Borgarness margfaldaðist íbúatalan og algert neyðarástand skapaðist vegna vatnsskorts en herinn var frekur til vatnsins, þess má og einnig geta að árið 1949 voru einungis 4 brunahanar í Borgarnesi, við Rafstöðvarhús, við húsgafl Egilsgötu 9. Á mótum Skúla- og Gunnlaugsgötu og við vigtarskúr í Brákarey. Vatnsveitan var ekki burðugri í upphafi en það að þegar Hótel Borgarness brann í september 1949 brugðu menn á það ráð að breiða segl á þök og veggi húsa Geirs Bachmann og Bjarna Guðjónssonar kaupmanns sem snéru að Egilsgötu og sprautuðu vatni stanslaust á seglin til að varna því að í þeim húsum kviknaði vegna nálægðar við hið stóra brennandi hús, en létu hótelið brenna niður enda varð ekkert við eldinn í því ráðið vegna vatnsskorts.

Horft til nú- og framtíðar.

Starf slökkviliðsmannsins hefur á alþjóðavísu verið skilgreint sem hættulegasta starf sem sinnt er á friðartímum fyrir utan hermennsku, og núna nýlega þann 1. júlí 2022 var það loks viðurkennt af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og undirstofnunum hennar eftir mjög ítarlegar rannsóknir sem staðið hafa yfir árum saman að slökkviliðsmenn séu almennt útsetnari fyrir því að fá krabbamein en allar aðrar starfsstéttir og eru krabbamein í lungum og eistum manna þeirra algengust, og því miður blasir einnig sú napurlega staðreynd við eftir ýtarlegar rannsóknir að makar slökkviliðsmanna eru einnig útsetnir fyrir því að veikjast af krabbameini heldur en aðrir og er leghálskrabbamein langalgengast meina þeirra. Því miður blasir sú ömurlega staðreynd við okkur að íslensk heilbrigðisyfirvöld sáu ekki ástæðu til að taka mark á þessum alþjóðlegu rannsóknum og taka þær til greina og handagagns hér á landi til að tryggja velferð slökkviliðsmanna varðandi veikindi af áðurnefndum völdum, éta þeir þó allt upp sem kemur frá ESB hversu vitlaust sem það er og innleiða hér á landi. Það er einnig algilt að íslensk stjórnvöld setja lög og reglur sem ætíð eru svoleiðis gerðar að hægt er að fara framhjá þeim ef hentar stjórnvöldum hverju sinni. Að slökkvistöðvar almennt hér á landi séu ekki búnar viðunandi hreinlætis og afeitrunaraðstöðu er algerlega óviðunandi staða og það árið 2023 þegar vitað er um þá stórkostlegu heilsufarslegu hættu sem þessu starfi er samfara.

Það er því afar mikilvægt að slökkviliðsmönnum sé búin sú allra besta aðstaða sem völ er á til hreinlætis og afeitrunar á slökkvistöðvum eftir slökkvistörf, því húðin er jú stærsta líffærið okkar og því mjög mikilvægt að geta svitnað vel í gufubaði og hreinsað eiturefni út úr henni og alltaf sé hugsað fyrir því og að það sé regla sem ekki er vikið frá að slökkviliðsmenn allir hafi einungis og alltaf úrvalsbúnaði á að skipa hvort heldur er persónubúnaður eða stærri tæki og búnaður þeim tengdur í þeim efnum og verður alls ekki skorið við nögl sér. Einnig það að á slökkvistöðvum sé vélbúnaður til þvotta, þrifa og þurrkunnar á fatnaði sem og öðrum búnaði þeirra t.a.m. reykköfunartækjum, hjálmum og slíku því það einnig eykur endingu þeirra hluta margfalt. Og hér erum við að tala um skýra heilsufarsstefnu slökkviliðsins þar sem hvergi má kvika frá hvað hreinlæti og allan aðbúnað og aðstöðu varðar. Ítarlega er farið yfir þetta í 10 ára áætlun slökkviliðsins sem gerð var af slökkviliðs og varaslökkviliðsstjórum. Þess er vænst að eftir henni verði farið á komandi árum við uppbyggingu á aðstöðu slökkviliðsins í Borgarbyggð allri.

Færst hefur í vöxt á undanförnum árum að ríki og sveitarfélög grípi á lofti ýmis hugtök og slagorð þeim tengd, til að mynda „Barnvænt samfélag“ „Heilsueflandi samfélag“ „Kynlaus vinnustaður“ og svo mætti lengi áfram telja. Er því fylgt eftir af hálfu hins opinbera að koma þessum ágætu og háleitu markmiðum úr orðum og yfir til athafna, nú spyr sá sem ekki veit? Það er einnig gleðilegt að greina frá því að Slökkvilið Borgarbyggðar er í dag með eitt hæst hlutfall kvenna í slökkviliði hér á landi og því ber að fagna. Hinsvegar má alls ekki gleyma því og horfa framhjá að Borgarbyggð verður að búa slökkviliðsmönnum sínum, körlum jafnt sem konum og einnig þeim einstaklingum sem ekki falla undir þessar kyngreiningar viðunandi aðstöðu á slökkvistöðvum sínum hér í Borgarbyggð varðandi búningsaðstöðu, böð og hreinlætisaðstöðu og hjá því verður ekki komist og alls ekki hægt að bjóða fólki okkar uppá þetta ástand öllu lengur. Það er einnig nokkuð kátbroslegt að í dag skuli ennþá vera það sama uppi á teningnum og var í árdaga slökkviliðsins fyrir nær 100 árum þ.e.a.s. skortur á viðhlítandi og viðunandi húsnæði fyrir tæki og aðra starfsemi liðsins á starfsstöðvum þess.

Raunveruleikinn sem við okkur blasir í dag í brunum er sá að húsin stækka og verða flóknari og hættulegri, brunar verða hraðari og eitraðri efni eru í umferð varðandi húsbúnað og í umhverfinu öllu og bregðast þarf við umgengni og meðhöndlun þeirra. Og einnig er sífellt verið að gera ríkari og strangari kröfur á slökkviliðin varðandi þjónustu við íbúana á hverjum stað og eins er með menntun og þjálfun slökkviliðsmanna sem og allan búnað þeirra. Þá er einnig ný vá sem við okkur öllum blasir í kjölfar breytts loftlags en það eru stórir gróður og skógareldar sem eiga eftir að verða mun tíðari og alvarlegri ef ekki verður brugðist við af meiri krafti en gert er í dag af hinu opinbera og þá sérstaklega er varðar þjálfun og margskonar búnað slökkviliðanna og slökkviliðsmanna en við hér í Borgarbyggð erum þess mjög minnug eftir að Mýraeldar brunnu hér árið 2006 að margt þarf að bæta í þeim efnum. Það má segja að þessi vá sé mannanna verk tilkomin vegna hlýnandi loftslags, aukinnar skógræktar og breyttra búskaparhátta þar sem búfjárhald og beit búfjár hefur svo til alveg lagst af í stórum hluta Borgarfjarðarhéraðs, sem og víðar á íslandi.

Margnefnd orkuskipti eiga eftir setja mark sitt á starfsemi slökkviliða þar sem rafmagnsdrifnir bílar leysa bíla sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti af hólmi og það kallar á breyttar áherslur varðandi björgun fólks úr þannig bílflökum og einnig kallar það á annað verklag og sérhæfðan búnað til að fást við eld í rafhlöðum þannig farartækja, í þeim efnum dugir alls ekki að draga lappirnar við verðum að fylgja allri framþróun eftir og það kallar á sérhæfðari og öflugri búnað slökkviliðs.

Í þeim efnum er varða skógrækt og gróðurelda þarf ekki að finna upp hjólið að nýju heldur að horfa til og nema af kollegum okkar í Kanada og USA og ekki síst Evrópu hvað alla grunnþjálfun, aðferðarfræði og búnað varðar, en gríðarlegur lofthiti hefur plagað Portúgal, Spán og mið Evrópu undanfarnar vikur og í nokkrum löndum hafa brunnið gríðarlegir skógar og kjarreldar sem engin fordæmi eru fyrir og gríðarlegt eignatjón og einnig því miður manntjón svo skiptir þúsundum hefur orði af völdum hamfarahita og elda í gróðri og húsum á þessum svæðum.

Harla lítið hefur gerst af hálfu ríkisvaldsins og hins opinbera hér á landi frá árinu 2006 í þeim efnum að búa slökkviliðin undir það að fást við elda af svipaðri stærðargráðu og mýraeldar voru eða rúmir 75 ferkílómetrar annað en að skipa nefndir og starfshópa og þvæla um málefnið fram og aftur og lítið sem ekkert liggur þar eftir. Hér er aldeilis kominn baráttuvettvangur fyrir sveitarstjórnarmenn að knýja ríkisvaldið að málinu með meiri og afgerandi hætti en er í dag því það er öllum bæði litlum og meðalstórum sveitarfélögum algerlega ofvaxið að standa undir því að búa slökkviliðin með fullnægjandi hætti hvað varðar búnað og því miður er það raunin að mjög hægt miðar í þessum málum, það er skýr skoðun undirritaðs og reyndar fleiri í þessum málaflokki að gróðurelda á að skilgreina sem náttúruvá og þeir eiga að falla undir lög um almannavarnir og fyrir því þarf að berjast. Hér þurfa því allir þeir hagsmunaaðilar, skógræktin, skógarbændur, ríkisvaldið og samtök íslenskra sveitarfélaga að setjast niður og koma þessum málum á þann stað að sómi sé af og að slökkviliðin geti tekist á við þessa ógn sem við munum standa frami fyrir í sífellt meiri mæli á komandi árum með alvarlegum og ófyrirséðum afleiðingum.

Að ofansögðu þar sem ég hef lauslega farið yfir nokkra markverða punkta úr 100 ára sögu slökkviliðs og brunavarna hér í Borgarnesi sem engan veginn er tæmandi yfirferð og einnig sett niður á blað hugrenningar mínar og þankagang varðandi málaflokkinn sem er mér- og hefur verið mjög kær enda verið viðloðandi hann í 45 ár þá set ég hér punktinn.

Að öllu þessu sögðu vil ég nota tækifærið og óska Borgarbyggð sem og öllum íbúum Borgarbyggðar til hamingju með slökkviliðið sitt og þakka fyrir allan þann skilning og velvilja sem við njótum og höfum ætíð notið af þeirra hálfu.

Með góðri kveðju.

Bjarni Kristinn Þorsteinsson

Varaslökkviliðsstjóri í Borgarbyggð.

Tengdar fréttir

6. júní, 2023
Fréttir

241. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Fundarboð

6. júní, 2023
Fréttir

Umhverfisviðurkenningar – tilnefningar

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd veitir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar og fallegar lóðir og hvetur íbúa til að taka þátt í að gera ásýnd sveitarfélagsins sem besta.