7. júlí, 2025
Fréttir

Afgreiðsla frá fundi fræðslunefndar nr. 224: „Guðmunda Ólafsdóttir mætti til fundarins og fór yfir drög að íþróttastefnu Borgarbyggðar. Stefnan hefur nú legið frammi til umsagnar og einnig er hún byggð á ítarlegu og miklu samtali við helstu hagaðila og íbúa í sveitarfélaginu. Fræðslunefnd vill þakka Guðmundu kærlega fyrir hennar vinnu og framsetningu á stefnunni. Fræðslunefnd vísar stefnunni til byggðarráðs til umræðu.“
Byggðarráð, sem hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í leyfi sveitarstjórnar, sbr. 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, samþykkir nýja íþróttastefnu Borgarbyggðar.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að hefja samtal við íþróttahreyfinguna um samningsgerð á grundvelli stefnunnar. Á fundinum var upplýst að samtal við UMSB er nú þegar hafið.

Ný íþróttastefna sveitarfélagsins markar mikilvægt skref í mótun og eflingu íþróttastarfs til framtíðar. Stefnan var unnin af Guðmundu Ólafsdóttur í samstarfi við Stefán Brodda Guðjónsson sveitarstjóra og Sonju Lind Eyglóardóttur íþrótta- og tómstundafulltrúa Borgarbyggðar. Guðmunda situr í varastjórn UMFÍ og hefur starfað innan íþróttahreyfingarinnar bæði sem sjálfboðaliði og launaður starfsmaður frá 1999 hjá nokkrum félögum. Hún hefur lokið MBA-námi frá Háskóla Íslands þar sem lokaverkefni hennar var stefnumótun KR í heild fyrir árin 2019–2024.

Við vinnslu stefnunnar var lögð rík áhersla á samráð og þátttöku íbúa. Grunnskólar sveitarfélagsins voru heimsóttir þar sem börn og ungmenni fengu tækifæri til að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri. Þá voru haldnir tveir opnir íbúafundir – annars vegar fundur sérstaklega ætlaður þeim sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar og hins vegar almennur íbúafundur. Góð mæting var á báða fundina og bárust þar fjölmargar gagnlegar ábendingar.

Stefnan byggir á þeim tillögum og sjónarmiðum sem komu fram í þessum samráðsferlum og var einnig sett í samráðsgátt á vef Borgarbyggðar í sjö daga til frekari umsagna frá íbúum. Engar ábendingar bárust eftir þeirri leið.

Íþróttastefnan er kjarnyrt og hnitmiðuð. Í henni er sett fram skýr framtíðarsýn með markmiðum og aðgerðum sem ætlað er að styðja við öflugt og fjölbreytt íþróttastarf í Borgarbyggð. Fræðslunefnd sveitarfélagsins ber ábyrgð á framgangi stefnunnar og mati á árangri. Undir hverjum stefnuþætti er að finna viðmið um hvernig meta skuli árangur, og lagt er upp með að slíkt mat fari fram reglulega og árlega verði farið yfir framkvæmd aðgerða og árangur.

Stefnunni fylgir viðauki, „Úrvinnsla – undirstaða fyrir stefnu“, þar sem finna má gögn sem liggja að baki henni, m.a. greiningu á núverandi stöðu og SVÓT-greiningu (styrkleikar, veikleikar, ógnanir og tækifæri).

Með þessari stefnu er lagður grunnur að samtali við Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB) um nýjan samstarfssamning, þar sem vilji íbúa og sveitarfélagsins – eins og hann birtist í stefnunni – verður hafður að leiðarljósi. Samhugur er um að efla íþróttastarf í sveitarfélaginu á komandi árum.

Borgarbyggð þakkar Guðmundu Ólafsdóttur fyrir vandaða og faglega vinnu við mótun stefnunnar.

Hér má finna Íþróttastefnu Borgarbyggðar 2025-2030 

Tengdar fréttir

7. júlí, 2025
Fréttir

Skapandi vinnuskólinn í Borgarbyggð

Skapandi vinnuskólinn er í samstarfi með Listaskóla Borgarfjarðar og SSV en megin markmið verkefnisins er að ungmenni sem ráða sig til starfa hjá Vinnuskólanum hafi tækifæri til að vinna í skapandi störfum. Það er hún Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir sem stýrir verkefninu en Guðlaug er sjálfstætt starfandi myndlistarkona og sýningarstjóri sem býr og starfar á Vesturlandi. Hún lærði myndlist á grunn og …