
Guðný Elíasdóttir hefur verið ráðin í starf sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs hjá Borgarbyggð.
Guðný lauk B.Sc. í byggingarfræði frá háskólanum Vitus Bering í Danmörku árið 2004 og námi í tækniteiknun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 2000.
Undir skipulags- og umhverfissvið heyra skipulags- og byggingardeild og umhverfis- og landbúnaðardeild. Guðný hefur mikla reynslu bæði sem sérfræðingur og stjórnandi í þeim málaflokkum sem heyra undir sviðið. Hún hefur starfað sem deildarstjóri skipulags- og byggingarmála og verkefnastjóri framkvæmda og áætlana hjá Borgarbyggð síðan 2021. Guðný var byggingarfulltrúi og yfirmaður tæknisviðsviðs hjá Hvalfjarðasveit frá 2013 til 2021. Auk þess þá starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Rauða krossi Íslands frá 2010 til 2013 og var umsjónarmaður atvinnuátakshóp og hjá Arkís frá 2005 til 2009 þar sem hún hafði yfirumsjón með stórum verkefnum og teymisstjórn.
Alls voru umsækjendur um starf sviðsstjóra sjö talsins og úr öflugum hópi voru viðtöl tekin við fjóra umsækjendur og framhaldsviðtöl við þrjá.
Hagvangur hafði umsjón með ráðningarferlinu en fyrir hönd Borgarbyggðar stóðu að ferlinu sveitarstjóri, mannauðsstjóri og formaður byggðarráðs.
Fram kemur í afgreiðslu byggðarráðs þar sem ráðning Guðnýjar er samþykkt að vænst sé mikils af henni í að leiða afar mikilvæg verkefni í uppbyggingu og velferð sveitarfélagsins og íbúa þess.
Guðný hefur nú þegar tekið við starfinu en með ráðningu hennar er lokið þeim breytingum á skipuriti sveitarfélagsins sem samþykktar voru af sveitarstjórn í apríl síðast liðnum. Svið sveitarfélagsins eru eftir sem áður þrjú talsins; fjármála- og stjórnsýslusvið en sviðsstjóri þess er Lilja Björg Ágústsdóttir, skipulags- og umhverfissvið sem stýrt er af Guðnýju Elíasdóttur og fjölskyldusvið en sviðsstjóri þess er Hlöðver Ingi Gunnarsson. Eiríkur Ólafsson sem verið hefur sviðsstjóri fjármálasviðs er nú fjármálastjóri sveitarfélagsins. Sveitarstjóri Borgarbyggðar er Stefán Broddi Guðjónsson.
Tengdar fréttir

Starfamessa 2025
Starfamessa er viðburður þar sem fyrirtæki, stofnanir og menntastofnanir kynna störf, starfsgreinar og menntunartækifæri fyrir nemendum grunn- og framhaldsskóla og öðrum áhugasömum. Slíkar messur hafa verið vinsælar meðal grunn- og framhaldsskólanema sem vilja kynna sér framtíðarmöguleika betur, bæði varðandi nám og störf. Fyrirtæki og stofnanir nota messuna til að kynna starfsemi sína. Markmið Starfamessu: Að kynna fjölbreytt námstækifæri á Vesturlandi …

270. fundur sveitarstjórnar Borgarbyggðar
270. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar verður haldinn í fundarsal að Digranesgötu 2, þriðjudaginn 14. október 2025 og hefst kl. 17:00. Hér má sjá dagskrá fundarins: 270. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar Streymi frá fundinum má finna hér.