8. janúar, 2024
Fréttir

Síðustu daga hafa starfsmenn áhaldahúss Borgarbyggðar unnið að hálkuvörnum í þéttbýli. Fyrst og fremst er notast við salt. Það hefur gert yfirborð stamt og flýtir nú fyrir bráðnun. Bröttustu brekkur í þéttbýli voru saltaðar enn frekar í gær, sunnudag.

Hálkuvörnum í dreifbýli er sinnt af Vegagerðinni. Samstarf er við Borgarbyggð þannig að sveitarfélagið kemur ábendingum og beiðnum á framfæri við Vegagerðina. Vegagerðin bregst við þeim beiðnum eftir því sem frekast er unnt, í samræmi við mannafla, búnað og aðstæður. Það samstarf hefur gengið vel. Borgarbyggð og verktakar á vegum sveitarfélagsins hafa við aðstæður síðustu daga jafnframt komið að hálkuvörnum í dreifbýli á stöku stað.

Það hefur verið óvenju mikil langvarandi hálka á öllum vegum og gangstígum innan sveitarfélagsins sem hefur leitt til þess að vegir hafa verið hættulegir og jafnvel ófærir sumum ökutækjum. Á stöku stað hafa aðstæður m.a.s. verið þannig að sá búnaður sem sveitarfélagið ræður yfir hefur ekki dugað til við að sinna hálkuvörnum eins vel og við hefðum kosið.

Viðbragð þjónustuaðila í Borgarbyggð hefur hvorki verið betri né verri heldur en í öðrum sveitarfélögum sem glímt hafa við hálkuna. Alltaf er tilefni til að skoða hvar gera megi betur. Það kallar á fjárfestingu og hugsanlega breytingar á skipulagi. Ljóst er að kostnaður vegna snjómoksturs og hálkuvarna var vel yfir áætlun í desember og árið 2024 byrjar á svipuðum nótum.

Borgarbyggð er fimmta stærsta sveitarfélag landsins að landrými og stærsta sveitarfélagið á Suðvesturlandi. Vegir á vegaskrá í dreifbýli í sveitarfélaginu eru samtals 835 kílómetrar að lengd og til viðbótar götur og stígar í þéttbýli. Skóla- og frístundaakstursleiðir í Borgarbyggð eru 18 talsins og öryggi þeirra er í forgangi umfram flest annað. Auk um 4.300 íbúa í sveitarfélaginu eru sumarhús um 1.500 talsins en sveitarfélagið sinnir ekki hálkuvörnum eða snjómokstri í sumarhúsabyggðum.

Borgarbyggð sér um snjómokstur í dreifbýli en nýtt fyrirkomulag var innleitt fyrir síðasta vetur. Í því felst að íbúar hafa milliliðalaust samband við snjómokstursverktaka á sínu svæði. Það fyrirkomulag er alla jafna dýrara en hefur undantekningarlítið bætt þjónustu við snjómokstur.

Tengdar fréttir

10. júlí, 2025
Fréttir

Reykholtshátíð 25.-27. Júlí nk.

Reykholtshátíð er alþjóðleg tónlistarhátíð sem haldin er ár hvert í Reykholti í Borgarfirði síðustu helgina í júlí. Reykholtshátíð er eftirsóknarverður vettvangur fyrir tónlistarmenn og tónlistarunnendur auk þess að vera mikilvægur hlekkur í menningarstarfsemi á Vesturlandi. Listrænir stjórnendur hátíðarinnar eru þau Þórunn Ósk Marínósdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarsson.  Þau hafa bæði starfað um árabil við hljóðfæraleik og komið fram með fjölmörgum …

10. júlí, 2025
Fréttir

Slökkvistöð rís í iðngörðum á Hvanneyri

Við Melabraut á Hvanneyri er nú að rísa tæplega 1.700 fermetra límtréshús úr yleiningum frá Límtré Vírnet í eigu Melabrautar byggingarfélags ehf. Í húsinu verða iðngarðar auk þess sem að október næst komandi mun Slökkvilið Borgarbyggðar flytja starfsstöð sína á Hvanneyri í hluta hússins. Í liðinni viku var samningur þar að lútandi undirritaður á byggingarsvæðinu á Hvanneyri. Sá hluti sem …