8. janúar, 2024
Fréttir

Síðustu daga hafa starfsmenn áhaldahúss Borgarbyggðar unnið að hálkuvörnum í þéttbýli. Fyrst og fremst er notast við salt. Það hefur gert yfirborð stamt og flýtir nú fyrir bráðnun. Bröttustu brekkur í þéttbýli voru saltaðar enn frekar í gær, sunnudag.

Hálkuvörnum í dreifbýli er sinnt af Vegagerðinni. Samstarf er við Borgarbyggð þannig að sveitarfélagið kemur ábendingum og beiðnum á framfæri við Vegagerðina. Vegagerðin bregst við þeim beiðnum eftir því sem frekast er unnt, í samræmi við mannafla, búnað og aðstæður. Það samstarf hefur gengið vel. Borgarbyggð og verktakar á vegum sveitarfélagsins hafa við aðstæður síðustu daga jafnframt komið að hálkuvörnum í dreifbýli á stöku stað.

Það hefur verið óvenju mikil langvarandi hálka á öllum vegum og gangstígum innan sveitarfélagsins sem hefur leitt til þess að vegir hafa verið hættulegir og jafnvel ófærir sumum ökutækjum. Á stöku stað hafa aðstæður m.a.s. verið þannig að sá búnaður sem sveitarfélagið ræður yfir hefur ekki dugað til við að sinna hálkuvörnum eins vel og við hefðum kosið.

Viðbragð þjónustuaðila í Borgarbyggð hefur hvorki verið betri né verri heldur en í öðrum sveitarfélögum sem glímt hafa við hálkuna. Alltaf er tilefni til að skoða hvar gera megi betur. Það kallar á fjárfestingu og hugsanlega breytingar á skipulagi. Ljóst er að kostnaður vegna snjómoksturs og hálkuvarna var vel yfir áætlun í desember og árið 2024 byrjar á svipuðum nótum.

Borgarbyggð er fimmta stærsta sveitarfélag landsins að landrými og stærsta sveitarfélagið á Suðvesturlandi. Vegir á vegaskrá í dreifbýli í sveitarfélaginu eru samtals 835 kílómetrar að lengd og til viðbótar götur og stígar í þéttbýli. Skóla- og frístundaakstursleiðir í Borgarbyggð eru 18 talsins og öryggi þeirra er í forgangi umfram flest annað. Auk um 4.300 íbúa í sveitarfélaginu eru sumarhús um 1.500 talsins en sveitarfélagið sinnir ekki hálkuvörnum eða snjómokstri í sumarhúsabyggðum.

Borgarbyggð sér um snjómokstur í dreifbýli en nýtt fyrirkomulag var innleitt fyrir síðasta vetur. Í því felst að íbúar hafa milliliðalaust samband við snjómokstursverktaka á sínu svæði. Það fyrirkomulag er alla jafna dýrara en hefur undantekningarlítið bætt þjónustu við snjómokstur.

Tengdar fréttir

6. júní, 2023
Fréttir

241. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Fundarboð

6. júní, 2023
Fréttir

Umhverfisviðurkenningar – tilnefningar

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd veitir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar og fallegar lóðir og hvetur íbúa til að taka þátt í að gera ásýnd sveitarfélagsins sem besta.