
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti í gær breytingu á skipuriti skipulags- og umhverfissviðs Borgarbyggðar. Stofnað hefur verið nýtt embætti umhverfisfulltrúa sem heyra mun beint undir sviðsstjóra, til hliðar við byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa. Þá mun starfsemi áhaldahúss færast beint undir sviðsstjóra líkt og umsjón eigna.
Starf deildarstjóra umhverfis- og landbúnaðarmála hefur verið lagt niður og verkefni færð undir embætti umhverfisfulltrúa, til áhaldahúss og víðar.
Markmið með breytingunni er að styrkja þjónustu sveitarfélagsins á sviði umhverfis- og landbúnaðarmála með frekari sérhæfingu og efla og samræma fyrirkomulag við eignaumsjón og viðhald, innandyra sem utan.
Gengið hefur verið frá tímabundinni ráðningu Loga Sigurðssonar í starf umhverfisfulltrúa. Logi er búfræðingur og að ljúka búvísindaprófi frá LBHÍ og hefur síðustu ár starfað sem bústjóri við tilrauna- og kennslubú LBHÍ að Hesti. Hann er hann bóndi í Steinahlíð í Lundarreykjadal og hefur verið varafulltrúi í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Logi hefur víðtæka menntun og þekkingu í umhverfismálum og starfsemi sveitarfélagsins.
Í liðinni viku var tilkynnt að Sóley Birna Baldursdóttur muni taka yfir umsjón áhaldahúss Borgarbyggðar. Sóley, sem er með BA-gráðu í mannfræði og meistaragráðu í lýðheilsuvísindum, hefur síðustu tvö ár gegnt starfi deildarstjóra umhverfis- og landbúnaðarmála í Borgarbyggð.
Ámundi Sigurðsson, sem hefur gengt starfi verkstjóri áhaldahúss frá árinu 2014, lætur brátt af störfum fyrir aldurs sakir og eru honum færðar bestu þakkir fyrir afar gott starf í þágu sveitarfélagsins og íbúa Borgarbyggðar.
Ráðgert er að breytingarnar verði að fullu um garð gengnar 1. júní næst komandi.
Skipurit Borgarbyggðar samþykkt á fundi sveitarstjórnar 19. maí 2025
Tengdar fréttir

Drög að íþróttastefnu Borgarbyggðar – Samráð við íbúa
Drög að nýrri íþróttastefnu Borgarbyggðar liggja nú fyrir. Markmiðið með stefnunni er að skapa sameiginlega sýn á þróun íþróttastarfs í sveitarfélaginu og tryggja að hún endurspegli þarfir og væntingar íbúa. Stefnudrögin eru nú lögð fram til samráðs við íbúa og eru allir hvattir til að kynna sér efnið og koma með ábendingar eða athugasemdir. Samráðstímabilið stendur til og með 23. …