1. júlí, 2025
Fréttir

Samstarfsnefnd um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps hefur skilað af sér áliti til sveitarstjórna sveitarfélaganna, sem hafa tekið þær til umræðu skv. 119. grein sveitarstjórnarlaga. Niðurstaða samstarfsnefndar er að sameining muni hafa fleiri kosti í för með sér en ókosti fyrir íbúa og að henni fylgi tækifæri sem annars stæðu sveitarfélögunum ekki til boða. Í skilabréfi nefndarinnar til sveitarstjórna segir eftirfarandi:

„Sveitarfélögin tvö hafa átt í farsælu samstarfi til áratuga og getur sameining þeirra skapað tækifæri til skilvirkari og markvissari stjórnsýslu og þjónustu, auk þess sem aðgengi íbúa að þjónustu verði jafnara. Þá eru jafnframt tækifæri til frekari atvinnuþróunar og nýsköpunar. Vísbendingar eru um að fjárhagur sameinaðs sveitarfélags verði sterkur og fjárfestingargeta þess betri en hjá sveitarfélögunum hvoru um sig. Sérstök sameiningarframlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu árum myndu auka svigrúm til fjárfestinga í sameinuðu sveitarfélagi en nokkur óvissa er um áhrif sameiningar á tekju- og útgjaldajöfnunarframlög vegna fyrirhugaðra breytinga á úthlutunarreglum. Ef sameining leiðir til lækkunar munu sveitarfélögin þó halda óskertum framlögum í fjögur ár. Að mati samstarfsnefndar lúta áskoranir sameinaðs sveitarfélags fyrst og fremst að mismunandi skatthlutföllum sveitarfélaganna og áhyggjum hluta íbúa Skorradalshrepps af því að missa áhrif á ákvarðanir í nærumhverfi sínu. Tækifæri liggja helst í að bæta þjónustu við íbúa beggja sveitarfélaga, auka fjárfestingagetu og auka slagkraft í hagsmunagæslu fyrir svæðið, s.s. í samskiptum við ríkið um innviðauppbyggingu og þjónustu hins opinbera. Það er samdóma álit samstarfsnefndar um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps að fram skuli fara atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélaganna um sameiningu þeirra. Samstarfsnefnd telur að sameining muni hafa fleiri kosti í för með sér en ókosti fyrir íbúa og að henni fylgi tækifæri sem annars stæðu sveitarfélögunum ekki til boða“.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar og hreppsnefnd Skorradalshrepps hafa jafnframt samþykkt tillögu samstarfsnefndar um að kosningar skuli fara fram dagana 5. september til 20. september næstkomandi og að kosningaaldur miðist við 16 ár. Íbúar sveitarfélaganna tveggja sem náð hafa 16 ára aldri þann 20 september fá því að kjósa um sameiningartillöguna (sjá nánar um kosningarétt á https://borgfirdingar.is).

Á heimasíðu samstarfsnefndar https://borgfirdingar.is má nálgast fréttir  og efni um sameiningarviðræður sveitarfélaganna.

Formleg kynning á áliti samstarfsnefndar og forsendum þess mun hefjast í ágúst. Þá er meðal annars fyrirhugað að halda íbúafund og dreifa upplýsingaefni í sveitarfélögunum tveimur.

Tengdar fréttir

18. júní, 2025
Fréttir

Aníta Björk Ontiveros er fjallkona Borgarnes 2025

Löng hefð er fyrir því í Borgarnesi að Kvenfélag Borgarness sjái um val á Fjallkonu úr hópi nýstúdenta ár hvert. Í ár 2025 var Aníta Björk Ontiveros fyrir valinu. Aníta Björk steig á svið og flutti ljóðið flutti ljóðið „Vorvísur“ eftir Sigríði Helgadóttur, frá Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum. Auk þess að flytja ljóð í Skallagrímsgarði heimsótti Aníta Brákarhlíð, þar sem hún …