13. desember, 2024
Fréttir

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2025 var afgreidd eftir seinni umræðu á fundi sveitarstjórnar í gær. Áætlun gerir ráð fyrir 152 m.kr. afgangi af rekstri A-hluta samanborið við útkomuspá upp á 301 m.kr. afgang á yfirstandandi ári. Áætlun um minni hagnað milli ára skýrist að mestu á varfærnum væntingum um þróun tekna.

Áætlunin felur í sér að tekjur sveitarfélagsins aukist 3,8% milli ára og verði um 6,7 ma.kr. en að rekstrarkostnaður án afskrifta hækki um 5,9%. Miðað er við óbreytt álagningarhlutfall útsvars og fasteignaskatta og að hækkun gjaldskráa verði í flestum tilfellum 3,9%. Gjaldskrár verða áfram til skoðunar inn í nýtt ár, sérstaklega í þeim málaflokkum þar sem útgjöld hafa aukist undanfarin ár langt umfram hækkun gjaldskrár.

Hækkun útgjalda skýrist að stærstum hluta af hreinum útgjöldum til félagsþjónustu sem hækka um liðlega 20% annað árið í röð. Stuðningsnet sveitarfélagsins hefur verið styrkt og greitt inn á innviðaskuld í málaflokknum. Þá er í fjárhagsáætlun tekið tillit til óvissu um greiðsluþátttöku ríkisins í málaflokkum sem tilheyra félagsþjónustu.

Gert er ráð fyrir auknum útgjöldum til íþrótta- og æskulýðsmála og framlög aukin til umhirðu opinna svæða og leiksvæða. Hækkun framlags til viðhalds gatna og gangstétta árið 2024 heldur sér milli ára. Árið 2025 verður lögð áhersla á uppbyggingu og viðhald mannvirkja til íþrótta, leikja og útivistar í sveitarfélaginu.

Á árinu 2024 er útlit fyrir að nýframkvæmdir á vegum sveitarfélagsins nemi um 1,1 ma.kr. Þrátt fyrir sögulega miklar framkvæmdir voru ekki tekin ný lán á árinu 2024 heldur byggt á sterkri lausafjárstöðu og sjóðstreymi.

Endurbygging Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum er stærsta fjárfesting yfirstandandi árs en áætlað er að verkhluta ljúki fyrir haustið 2025. Hluti húss Varmalandsskóla hefur verið endurnýjaður og starfsemi leikskólans Hraunborgar flutt í húsnæðið. Framkvæmdir við endurnýjun miðálmu Grunnskólans í Borgarnesi standa yfir og þeim lýkur á fyrsta ársfjórðungi 2025. Nú stendur yfir endurnýjun á Sæunnargötu, gatnagerð við Vallarás er í gangi og nýbygging á göngustíg við Dílatanga.

Snemma á árinu 2025 ráðgerir Borgarbyggð að auglýsa fjölda nýrra lóða fyrir íbúðabyggð til úthlutunar við Kveldúlfshöfða í Bjargslandi. Það bætist við gott framboð lóða á Hvanneyri og fjölda lóða fyrir atvinnustarfsemi efst í Borgarnesi og á Hvanneyri.

Á árinu 2025 áætlar Borgarbyggð að fjárfesta fyrir um 2,5 ma.kr.. Stærstu framkvæmdir eru  verklok við endurnýjun GBF á Kleppjárnsreykjum, bygging á knatthúsi í Borgarnesi, áframhaldandi endurnýjun á íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi, uppbygging stíga, niðurrif húsnæðis í Brákarey, lýsing á leið að fólkvanginum í Einkunnum, gatnagerð við Kveldúlfshöfða, Sæunnargötu og Bröttugötu og stækkun leikskólans Uglukletts. Forgangsröðun helstu framkvæmda hefur ekki tekið breytingum milli ára.

Á árinu 2024 er áætlað að handbært fé frá rekstri Borgarbyggðar verði 625 m.kr. og 508 m.kr. á árinu 2025. Hrein lántaka A-hluta Borgarbyggðar verði um 2,1 ma.kr. á árinu 2025. Heildarskuldir og skuldbindingar Borgarbyggðar eru áætlaðar 3,8 ma.kr. í lok árs 2024 en að frátöldum lífeyrisskuldbindingum eru vaxtaberandi skuldir 1,7 ma.kr.. Heildareignir i árslok eru bókfærðar á 10,0 ma. og eigið 6,3 ma.kr.

Í framkvæmdaáætlun er rammi fyrir aðkomu Borgarbyggðar í uppbyggingu í Brákarey. Framundan er að hefja niðurrif gamla sláturhússins og gerð deiliskipulags fyrir eynna á grundvelli rammaskipulags sem kynnt var íbúum fyrr á þessu ári.

Uppbygging sameiginlegrar miðstöðvar viðbragðsaðila, lögreglu og slökkviliðs er í farvatninu og frumhönnun liggur fyrir. Borgarbyggð hefur tekið frá lóð fyrir húsnæðið á framtíðar krossgötum þjóðvegarins og væntir þess að sem fyrst liggi fyrir ákvörðun hjá FSRE þannig að ráðast megi í fullnaðarhönnun.

Rekstur Borgarbyggðar á yfirstandandi ári og áætlun fyrir árið 2025 endurspeglar að lögð er áhersla á að þétta félagslegt net sveitarfélagsins. Þá hefur verið bætt í viðhald húsnæðis og gatna. Í fjárfestingaráætlun er lögð áhersla á uppbygginu íþróttamannvirkja og skóla og uppbyggingu á nýjum hverfum fyrir íbúa og atvinnulíf.

Tengdar fréttir

10. desember, 2024
Fréttir

Forvarnardeginum fagnað á Bessastöðum

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, afhenti verðlaun Forvarnardagsins við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á laugardag. Keppnin fólst í gerð kynningarefnis sem tengist þema Forvarnardagsins, sem í ár voru leikir sem stuðla að samveru fjölskyldu og vina. Í flokki grunnskólanema hlutu verðlaun þær Valdís Björk Samúelsdóttir, Kristný Halla Bragadóttir, Agla Dís Adolfsdóttir, Emelía Ýr Gísladóttir og Emma Mist Andradóttir, nemendur við Grunnskólann …