25. júlí, 2023
Allar fréttir
Skólastarfið hefur farið vel af stað og þegar búið er að setja í gírinn þá rennur þetta áfram og við heyrum framfarir á hverjum degi!
Tónfræðigreinar eru margar og nemendur þurfa að sinna þeim jafnhliða hljóðfæra- og söngnámi þegar þau eru búin að læra í nokkur ár. Við viljum bjóða vandaða og samfellda kennslu í tónfræði þegar nemendur ná því stigi að þurfa á henni að halda og höfum farið þá leið undanfarið að styðjast við netlægt efni á íslensku þar sem nemendur geta sjálfir ráðið hraða á eigin yfirferð.
Tónfræðinám í sérstökum kennslustundum er mikilvægur hluti tónlistarnámsins, ekki síst hjá þeim nemendum sem hafa lagt áherslu á áfangapróf og ætla sér að gera það áfram. Þegar nemendur hefja tónlistarnám þá fer tónfræðikennslan fram samhliða í einkatímunum. Nauðsynlegt er að læra meira í sérstökum tímum þegar lengra líður á námið. Best er að skipuleggja tónfræðinámið í samráði við hljóðfærakennara/söngkennara sem metur hvort nemandi er tilbúinn.
Kennsla í tónfræðigreinum hefst mánudaginn 25.september. 
Allir eru í raun velkomnir ef þeir treysta sér, en við mælum með að byrja ekki fyrr en eftir 2-3 ár í tónlistarnámi og vera orðin ca. 11-13 ára. En þetta er einstaklingsbundið og kennarar og foreldrar meta saman hvað er best. Allir tónfræðinemendur þurfa að hafa aðgang að tölvu og hafa með sér í tíma eitthvert skjátæki til að vinna verkefnin – og það þarf líka að hafa með sér heyrnartól!
Í fyrsta tíma verður tekið niður hverjir ætla að vera með og síðan verður stofnaður aðgangur að netlægu efni. Endilega látið vita ef þið komist ekki í fyrsta tímann en ætlið að vera með.
Námið fer fram með stuðningi við sjálfstæða vinnu í kennslutímum og hafa nemendur okkar sýnt það að slíkt fyrirkomulag nýtist þeim vel sem vinnutími í námsefninu og geta þau þá spurt kennara ef á þarf að halda. Einnig eru ákveðin atriði sem auðveldara er að æfa í lifandi kennslu s.s. niðurritun, klappæfingar og fleira.
Kennari í tónfræði og hljómfræði er Snorri (Jón S Snorri Bergsson). Sigfríður skólastjóri mun kenna tónlistarsögu elstu nemenda.
Tímasetningar eru eftirfarandi þetta skólaárið:
Mánudagar kl.14.30-15:30 – Grunnstig – byrjendur, kennt í Sal tónlistarskólans. (hægt að koma inn í tímann ef stendur þannig á ferðum)
Í þessum hópi eru nemendur sem eru að byrja í tónfræðanáminu eða hafa þegar hafið námið en eru ekki búnir að taka grunnstigsprófið.
Mánudagar 16:00-17:00   – Miðstig  – nemendur sem eru búnir að ljúka grunnprófi og vilja halda áfram og stefna á samræmt miðpróf.
Hér gerum við ráð fyrir að sjá nemendur sem hafa lokið grunnprófi eða eru algjörlega tilbúnir að taka grunnstigspróf á næstu vikum og vilja því halda áfram.
Miðvikudagar – 17:00-18:00  – Hljómfræði og tónheyrn – Hér er nám fyrir þá sem hafa lokið samræmdu miðprófi í tónfræði og hefja þar með nám í hljómfræði líka auk tónheyrnar og vonandi tónlistarsögu líka. (þeir sem þurfa að ná vagni fara fyrr úr tíma)
Byggt verður á bókinn Hljómfræði ! – Frumtök, eftir Guðmund Hafsteinsson og Snorra Sigfús Birgisson. Vinsamlegast kaupið þá bók sem fyrst, hún  fæst meðal annars í Tónastöðinni (Fríða getur sótt hana fyrir ykkur á föstudögum ef þið eruð búin að ganga frá greiðslu)
Tónlistarsaga verður í boði í fjarnámi á ÞRIÐJUDÖGUM kl.17:00-18:00 og hefst hún 26.sept. – og verður Teams hlekkur sendur á þá sem ætla að taka þátt. Vinsamlegast látið vita af þátttöku. Þessir tímar eru aðeins ætlaðir fullorðnum eða lengst komnu nemendum okkar.
Með þessum tilboðum um kennslu tónfræðigreina erum við að uppfylla skilyrði aðalnámskrár tónlistarskóla og skapa nemendum okkar tækifæri til að taka fullgild áfangapróf á grundvelli góðrar menntunar.

Tengdar fréttir