Í júnímánuði heimsóttu Safnahúsið ríflega 1100 gestir og er mikil ánægja með þann uppgang sem á sér stað í safninu um þessar mundir. Ýmislegt hefur verið um að vera það sem af er sumri; má þar nefna rappnámskeið fyrir börn haldið af meðlimum úr Reykjavíkurdætrum, bókamarkaður og skiptimarkaður með plöntur og fræ, myndasýningar og fánasmiðja og fleira. Í júní kláraðist listasýning Sigthoru Odins, Hóflegar játningar og í lok mánaðarins opnaði sýningin Íslenski búningurinn – Spor eftir spor í samstarfi við Margréti Skúladóttur og Annríki – Þjóðbúningar og skart. Sýningin stendur til 10. september n.k.
Mikil ánægja er með fjölda sem hefur sótt safnið heim sem af er árinu og því er viðeigandi að opna myndasýningu með heitinu Heimsókn núna í júlí. En myndirnar eru úr safni Júlíusar Axelssonar og eru frá heimsóknum hans til annarra og þegar hann og faðir hans voru sóttir heim að Þorsteinsgötu 21 í Borgarnesi.
Sumarlestur fyrir krakka er í fullum gangi á bókasafninu og fullt af nýjum spilum að detta í hús. Ævintýri fuglana sem um þessar mundir fagnar 10 ára sýningarafmæli hefur verið ágætlega sótt af ferðafólki sem af er sumri. Á miðvikudögum eru foreldramorgnar 10.00- 12.00 og bjóðum við foreldra með ung börn og í fæðingarorlofi sérstaklega velkomna á þeim tíma.
Það er því góð ástæða fyrir fjölskyldur að koma og kíkja í heimsókn í Safnahúsið í sumar.
Safnið er opið alla virka daga 10.00- 17.00 og 11.00 – 14.00 á laugadögum, frítt er inn fyrir alla.