10. október, 2025
Allar Fréttir

Nú er runnin af stað sameiginleg barnamenningarhátíð á öllu Vesturlandi og það verður því nóg um að vera fyrir börn í fjórðungnum næstu vikurnar.

Við í Safnahúsi Borgarfjarðar látum ekki okkar eftir liggja enda umhugað um barnamenningu og líf og fjör á söfnunum okkar.

Á sunnudaginn 12. október verður listasmiðja með listakonunni Jurgita Motiejunaite hér í Safnahúsinu kl. 13:00 – 14:30 undir yfirskriftinni Landslag tilfinninganna. Þar leiðbeinir Jurgita þátttakendum í sköpun sinni þar sem efniviðurinn er endurunnin efni

Laugardaginn 18. október ætlum við að keyra upp fjörið og blása til tónlistarbingós. Kolbrún Anna Björnsdóttir, starfsmaður hjá Safnahúsinu, hefur útbúið tónlistarbingó, þar sem hlusta þarf eftir þekktum lögum en ekki tölum. Virkilega skemmtilegur viðburður og upplagður fyrir fjölskyldur að koma saman og sprella svolítið saman. Lítið um flotta vinninga en nóg af fjöri.

Fimmtudaginn 23. október er síðan fyrirhugað að opna myndlistasýningu barna í tengslum við sýninguna sem nú er í gangi hjá okkur Breytingar á Norðurslóðum. Umsjón með verkefninu hefur Anna Sigríður Guðbrandsdóttir myndlistarkennari í Grunnskólanum í Borgarnesi og verkin á sýningunni eru eftir nemendur úr skólanum.

Við sláum svo botninn í hátíðina með Spilastund með Spilavinum þriðjudaginn 11. nóvember, kl. 17:00, viðburður sem heldur betur hefur fest sig í sessi hjá okkur og eru Spilavinir orðnir árlegir gestir hjá okkur. Hér er í boði virkilega góð samverustund fyrir bæði börn og fullorðna á öllum aldri og alltaf jafn gaman að læra nýtt spil eða tvö.

 

Komið og njótið með okkur í Safnahúsinu og eigum góða stund í skapandi umhverfi.

 

Það er líka fullt um að vera annars staðar, hér er hægt að kynna sér heildardagskrána og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi

Tengdar fréttir