Náttúruvernd

Í  Borgarbyggð er fjölbreytt landslag og náttúruperlur leynast við hvert fótmál. Það er mikilvægt að umgengni núverandi kynslóða um náttúruna, skerði ekki möguleika komandi kynslóða til að njóta hennar á sama hátt.  Í sveitarfélaginu eru átta svæði sem eru friðlýst í mismunandi friðlýsingarflokkum; Andakíll, Einkunnir, Eldborg, Geitland, Grábrókargígar, Hraunfossar, Húsafellsskógur og Kalmanshellir.

Náttúruminjaskrá

Samkvæmt lögum um náttúruvernd skal umhverfis-og auðlindaráðherra gefa út náttúruminjaskrá eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Náttúruminjaskrá skiptist í þrjá hluta (A,B og C) þar sem A hluti er skrá yfir náttúruminjar og ssvæði sem þegar hafa verið friðlýst eða friðuð, B- hluti er framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár, sem eru þær minjar sem Alþingi hefur ákveðið að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum, og C- hluti er skrá yfir náttúruminjar sem ástæða þykir að friða eða friðlýsa.  Nokkur svæði í Borgarbyggð er að finna í B- hluta Náttúruminjaskrár í tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Þá eru nokkur svæði til viðbótar undir hverfisvernd í aðalskipulagi en um þau gilda sérstök ákvæði í skipulagsáætlunum sem sveitarstjórnir hafa sett og kveða á um verndun, án þess að um lögformlega friðun sé að ræða.

Fólkvangurinn Einkunnir

Fólkvangurinn Einkunnir, skammt ofan við Borgarnes, var stofnaður 19. maí 2006.   Að fólkvanginum liggur malarvegur, frá Hringvegi við hesthúsahverfi ofan við Borgarnes (gegnt golfvellinum að Hamri). Einkunnir draga nafn sitt af þremur klettaborgum sem rísa upp af mýrlendi og sjást þær víða að. Af Syðri- Einkunn er víðsýnt um Borgarfjörð og Mýrar. Landslagið í fólkvanginum er fjölbreytt, jökulsorfnar klettaborgir, vöxtulegur skógur, lífvænlegar mýrar og all fjölbreytt dýra- og plöntulíf. Orðið Einkunn er fornt í málinu og var notað um auðkenni í landslagi. Einkunnir koma fyrir í Egilssögu og í fólkvanginum hafa minjar verið skráðar.

Reitir í ræktun

Einstaklingar eða hópar sem hafa áhuga á að sinna skógrækt geta sótt um ákveðna reiti til ræktunar í Einkunnum. Hver aðili fær úthlutað ákveðnu svæði innan fólkvangsins, þar sem hann ber ábyrgð á og sinnir gróðursetningu, uppgræðslu og grisjun eftir því sem þörf er á skv. samþykktri ræktunaráætlun fólkvangsins. Verkefnin eru unnin í samstarfi við umsjónarnefnd fólkvangsins og Skógræktarfélag Borgarfjarðar.

Umsóknir og frekari upplýsingar sendist á thjonustuver@borgarbyggd.is