Forvarnir

Leiðarljós forvarna í Borgarbyggð er að skapa öllum börnum og ungmennum uppeldisaðstæður og umhverfi sem eflir sjálfstraust þeirra og sjálfsmynd, einkennist af samkennd og býr yfir viðeigandi stuðningsúrræðum þegar þörf krefur.

Fjölskyldusvið ber ábyrgð á forvörnum, þar með talið þróunar- og átaksverkefnum og er þátttakandi í fjölmörgum samstarfsverkefnum sem lúta að forvörnum og endurhæfingu fyrir unga jafnt sem aldna. Fjölskyldusvið hefur átt frumkvæði að mörgum þeirra, stýrir sumum og er þátttakandi í öðrum.

Forvarnarhópur er starfandi í Borgarbyggð en í honum sitja fulltrúar frá fjölskyldusviði, UMSB, grunnskólum, Menntaskóla Borgarfjarðar, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og frá lögreglu.

Borgarbyggð tekur þátt í starfi SAMAN hópsins, en hann hefur að markmiði:

  • Að auka samstarf fólks sem vinnur að forvörnum. Þeir sem standa að hópnum eiga það sammerkt að vinna á einhvern hátt með og fyrir börn og unglinga. Tengist sú vinna einkum forvörnum, uppeldi, menntun, meðferð og ráðgjöf.
  • Hópurinn vinnur að því að vekja athygli á þeirri ógn sem börnum og unglingum stafar af vegna útbreiðslu áfengis og vímuefna í samfélaginu, beina athygli foreldra að ábyrgð þeirra á uppeldi barna sinna og hvetja til jákvæðra samskipta fjölskyldunnar.
  • Starf hópsins miðar að því að styrkja og styðja foreldra í sínu uppeldishlutverki. Skilaboðin eru um mikilvægi ábyrgðarinnar á umönnun og uppeldi barna sinna og þar er lögð áhersla á að foreldrar verji sem mestum tíma með börnum sínum. Því er beint til foreldra, með skýrum hætti, að þeir kaupi ekki eða veiti börnum áfengi – og bent á að þar setja landslög mörkin við 20 ára aldur – að virtar séu reglur um útivistartíma og bent á þær hættur sem eftirlitslaus partý, útihátíðir og neysla áfengis og annarra vímuefna setur börn þeirra í.