Sumarnámskeið 2025


BMX BRÓS NÁMSKEIÐ

BMX BRÓS ætla að vera með virkilega skemmtilegt hjólanámskeið fyrir krakka sem eru að ljúka 5-7. bekk. Upphafsstaðsetningin er hjá römpunum við Íþróttamiðstöðina. Námskeiðið verður haldið dagana 11.-12. júní frá 13:00-16:00.

Muna að taka með hjól, hjálm og nesti. Strákarnir mæta með nokkur auka BMX-hjól svo að allir fá að spreyta sig.

Farið verður yfir grunnatriði þess að læra stökkva, jafnvægisæfingar og sett verður upp skemmtileg þrautabraut. Hjólatúr um Borgarnes er einnig á dagskrá.

Einnig verður farið yfir mikilvægi þess að nota hjálm, hreyfa sig, teygja og borða hollt. Námskeiðið kostar 10.000 kr. og skráning fer fram hér.

 

Sumarnámskeið fyrir börn með aukna stuðningsþörf

Sumarnámskeið fyrir börn með aukna stuðningsþörf verður haldið vikuna 9.-13. júní. Áhersla er lögð á það að minnka kröfur og leyfa börnum að njóta sín í flæði og leik í öruggu umhverfi. Dagskráin er flæðandi og verður aðlöguð að hverju barni svo að allir geti notið sín. Námskeiðið er fyrir börn fædd árin 2012-2015.

Námskeiðið sjálft er 2 tímar á dag (4 tímar á föstudeginum). Námskeiðið er haldið í Borgarfirði og áhersla lögð á útiveru á meðan veður leyfir (Borgarnesi, Varmalandi og endað á Hreðavatni (veiði og á bát) en nákvæmar staðsetningar og dagskrá verða auglýst síðar. Dagbjört Birgisdóttir iðjuþjálfi leiðir námskeiðið. Námskeiðið kostar 10.000 kr. og skráning fer fram hér.

Meðmæli:

Sonur minn samþykkti með semingi að leyfa mér að skrá sig á námskeiðið hjá Birtu iðjuþjálfun, sem er skiljanlegt þegar maður veit ekki út í hvað maður er að fara. En hver dagur var öðrum skemmtilegri, hann kom alltaf kátur heim og alltaf til í að fara. Þetta námskeið sýnir svo glöggt hvernig hægt er að mæta þessum hópi þegar til staðar er fólk með rétt viðhorf, þekkingu og aðstæður. Takk Dagbjört og Atli fyrir minn mann, það er

ómetanlegt að hafa fólk eins og ykkur í okkar liði og við hlökkum til næsta námskeiðs. Móðir 12 ára einhverfs drengs.

Við eigum 12 ára dreng sem fór á námskeið hjá Dagbjörtu síðasta sumar. Hann skemmti sér vel og fékk að njóta sín á sínum eigin forsendum. Dagarnir voru fjölbreyttir en líka var passað upp á að hafa ekki of stífa dagskrá sem hentaði okkar dreng mjög vel.

Klifur og ævintýranámskeið

Klifur og ævintýranámskeið fyrir krakka sem eru að ljúka 5-7. bekk. Á námskeiðinu kynnast krakkarnir klettaklifri og öllu því sem því fylgir, að klifra í klettum, á klifurvegg og jafnvel í trjám. Þá verður farið á kajak og fleiri útivistartengd ævintýri.

Námskeiðið er 8 dagar og verður haldið dagana 10.-13. júní og 16.- 20. júní.

Tvö námskeið eru í boði, fyrir og eftir hádegi.

Námskeiðið kostar 12.000 kr.
Hægt er að skrá sig hér:
Skráning fyrir hádegi
Skráning eftir hádegi

Stelpur í stuði

Sérsniðið þriggja daga sumarnámskeið fyrir stelpur sem eru að ljúka 5-7. bekk. Lögð er áhersla á að valdefla stelpur, byggja upp sjálfstraust, stuðla að heilbrigði og efla jákvæða líkamsvirðingu. Lagt er upp með að dagskráin mótist af áhugasviði og áherslum stelpnanna.

Dagný Pétursdóttir leiðir námskeiðið og verður það haldið dagana 19., 20. og 23. júní frá 13:00 – 15:00.

Námskeiðið inniheldur:

· Hreyfing: Skemmtileg hreyfing til að auka hreysti og orku.

· Umhirða: Ráð og rútínur fyrir húð- og hárumhirðu.

· Tónlist: Kynning á mismunandi tónlistarstefnum og áhrifum tónlistar.

· Söngur, dans og tónlist: Tjáning í gegnum söng og dans.

· Myndataka: Stelpurnar taka model-myndir af hver annarri.

Námskeiðið kostar 10.000 kr. og skráning fer fram hér.

Krakkar náttúrunnar

Þriggja daga útivistar- og náttúrunámskeið fyrir káta krakka sem eru að ljúka 5-7. bekk. Á námskeiðinu verður leikið í náttúrunni með fjölbreyttum hætti. Dagskráin fer nokkuð eftir veðri en meðal þess sem lagt er upp með er útivera, skógarbras, hjól, fjallganga og bátasiglingar.

Dagný Pétursdóttir leiðir námskeiðið og verður það haldið dagana 26., 27. og 30. júní frá 13:00 – 15:00 Námskeiðið kostar 10.000 kr. og skráning fer fram hér.

Leik og sprell í júlí

Leik og Sprell verður í Borgarnesi og á Kleppjárnsreykjum 21.-25. júlí. Leik og Sprell er söng- og leiklistarnámskeið sem ferðast vítt og breitt um landið og er opið fyrir börn á aldrinum 6-13 ára. Allir fá tækifæri til að syngja, leika og sprella. Kenndur er grunnur í söngtækni og túlkun og farið í leiki sem ýtir undir sköpun og tjáningu. Út frá lögunum sem börnin hafa valið sér, spuna og leik búum við til sýningu sem er opin fyrir aðstandendur.

5 daga námskeið, kennt 3 klukkustundir í senn, verð: 28.000 krónur. Hægt er að nýta frístundastyrk á námskeiðið.

Kennari er Bára Lind Þórarinsdóttir, stofnandi Leik og Sprell, útskrifuð leikkona frá listaskólanum LIPA. Bára hefur unnið í mörg ár sem leiklistarkennari og leikstjóri með börnum og unglingum. Hún er einnig með jógakennararéttindi og lauk söngnámi við Complete Vocal Institute. Nánari upplýsingar um námskeið og kennara má finna á leikogsprell.is

Hægt er að velja að skrá á námskeið á Kleppjarnarnesi eða í Borgarnesi og fer skráning fram hér

Sumarfjör 2025

Skráning í sumarfjörið hófst fimmtudaginn 27.mars kl. 17:00. Skráning fer fram hér, á skráningavef Völu. Boðið verður upp á vikunámskeið frá kl. 9:00-16:00. Við stefnum á að bjóða upp á viðbótartíma milli 8:00 og 9:00 sem skrá þarf sérstaklega í. Sumarfjör er leikjanámskeið fyrir börn í 1.-4.bekk í Borgarbyggð. Nánari upplýsingar má finna hér