Barnavernd
Tilkynning til barnaverndar
Ef þú telur að barn búi við óæskilegar aðstæður sem hafa neikvæð áhrif heilsu þess, líðan eða þroska skalt þú senda inn tilkynningu til barnaverndar.
Tilkynnt er til starfsmanna barnaverndar í síma 4337100 eða með tölvupósti á netfangið barnavernd@borgarbyggd.is
Neyðartilvik
Teljir þú að barn sé í hættu og málið þoli ekki bið skal alltaf tilkynna strax í 112.
Neyðarverðir 112 kalla út barnavernd og aðra aðila sem þeir telja þurfa t.d. lögreglu.
Nafnleynd tilkynnanda
Einstaklingar geta tilkynnt undir nafnleynd óski þeir þess. Nafnleynd tilkynnanda þýðir að foreldrar sem tilkynntir eru til barnaverndar fá ekki upplýsingar um hver tilkynnti en gefa þarf upp nafn og símanúmer tilkynnanda þegar tilkynnt er. Tilkynnandi gefur góða lýsingu á aðstæðum barns og í hverju áhyggjur felast.
Starfsmenn barnaverndar og Neyðarlínu 112 eru bundnir trúnaðarskyldu.
Breytingar vegna breyttra barnaverndarlaga.
Um áramótin 2022-2023 urðu þær breytingar á barnaverndarlögum að pólitískar barnaverndarnefndir voru lagðar af og við tóku Umdæmisráð barnaverndar, skipuð fagaðilum og þurfa að vera lágmark 6000 íbúar að baki hvers ráðs. Borgarbyggð er aðili að Umdæmisráði landsbyggðanna ásamt flestum sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins. Samfara þessari breytingu færðust ýmis verkefni sem áður tilheyrðu barnaverndarnefndum á hendur starfsmanna barnaverndar, kallast nú ,,barnaverndarþjónustustan”.
Tilkynningaskylda:
Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndar um óviðunandi aðstæður barna. Sérstök tilkynningaskylda er lögð á fólk sem starfar með börnum, t.d. starfsmenn leikskóla og skóla, heilsugæslu og lögreglu.
Tilkynning en ekki kæra: Tilkynning til barnaverndar er ekki kæra heldur fremur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn eða fjölskyldu sem tilkynnandi telur að sé hjálparþurfi.
Starfsmenn barnaverndar kanna aðstæður barna sem talin eru búa við óviðunandi aðstæður og beitir tiltækum úrræðum til úrbóta ef könnun leiðir þörf á því í ljós.
Hvað er barnavernd?
Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður, börn sem verða fyrir ofbeldi eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Þetta er einkum gert með því að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu. Ef nauðsyn þykir er unnt að bjóða upp á ýmis stuðningsúrræði. Heimildir barnaverndar eru skilgreindar í lögum og tilteknar skyldur lagðar á starfsmenn barnavernar, sveitarfélög og ríki um stuðningsúrræði. Alltaf er leitast við að tryggja réttaröryggi fjölskyldna og áhersla lögð á góða samvinnu foreldra og starfsfólks.