Jafnréttismál
Jafnrétti er hugtak sem nær til margra þátta eins og aldurs, búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða, tungumáls, ætternis og þjóðernis. Í Borgarbyggð eru sköpuð tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda umburðarlyndis og jafnréttis.
Jafnréttismenntun felur meðal annars í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina kringumstæður og fordóma sem geta leitt til mismununar og forréttinda. Í skólastarfi þurfa allir að eiga hlut að málum og taka höndum saman um að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Leggja ber áherslu á að allir aðilar óháð kyni eigi sem jafnasta og víðtækasta möguleika. Hvergi í skólastarfi, hvorki í inntaki né starfsháttum, mega vera hindranir í vegi einstaklinga.
Jafnréttisáætlun Borgarbyggðar byggir á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Í áætluninni er kveðið á um að konur, karlar og fólk með hlutlausa skráning kyns í þjóðskrá sem starfa hjá Borgarbyggð skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir alla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Borgarbyggð hefur gert samkomulag um endurvottun að undangenginni árlegri úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85 og verður vottunin endurnýjuð á þriggja ára fresti. Auk launajafnréttis er fjallað um laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og hvernig stjórnsýsla og stjórnendur eiga að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni í stofnunum Borgarbyggðar. Í áætluninni eru sett fram markmið og unnið að aðgerðum sem samræmast lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og tekur hún til stjórnerfis sveitarfélagsins, stofnana og starfsmanna þess. Jafnréttisáætlun Borgarbyggðar byggir einnig á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna og aukinn jöfnuð og á launastefnu, jafnlaunastefnu og starfsmannastefnu Borgarbyggðar.