Náttúru- og hreyfibingó í Einkunnum
Náttúru- og hreyfibingó í Einkunnum
Markmið þessara bingóspjalda er að hvetja fólk á öllum aldri til að nýta skóginn, njóta náttúrunnar og útiverunnar auk þess að gera hreyfingu skemmtilega.
Þetta er hluti af stefnu Borgarbyggðar að auka lýðheilsueflandi afþreyingu í Einkunnum.
Hreyfum okkur og njótum útiverunnar saman!
Bingóin er að sjálfsögðu hægt að yfirfæra á annað umhverfi.
Náttúrubingó
Markmið náttúrubingósins er að njóta náttúrunnar, taka eftir umhverfinu og jafnvel læra eitthvað nýtt í leiðinni, t.d. finna nýtt blóm eða læra heiti á nýjum fugli. Það er hægt að framkvæma bingóið hvar sem er úti í náttúrunni.
Hægt er að aðlaga bingóið eftir aldri, áhuga og árstíðum. Það er t.d. hægt að:
· bæta við fjölda efniviðar sem á að finna.
· velja ákveðna liti á laufblöð, ákveðna stærð af steinum o.s.frv.
· taka tíma eða skipta í lið og fara í keppni.
Hreyfibingó
Markmið hreyfibingósins er að gera hreyfingu skemmtilega. Bingóið er fyrir alla fjölskylduna. Bingóið er hægt að aðlaga eftir aldri, getu og aðstæðum. Hægt er að breyta bingóinu í keppni – reyna að framkvæma hverja æfingu eins hratt og hægt er og keppast um hver er fyrstur, hver stekkur lengst o.s.frv.
Hafið í huga:
· veljið fjölda endurtekninga/lengd æfinga eftir aldri/getu.
· hugið alltaf að öruggum aðstæðum, m.a. við að klifra, hanga og taka sprettinn.
Útskýringar á æfingum
Froskur
Froskahopp: Fara djúpt niður í hnébeygju og hoppa hátt. Endurtaka eftir getu.
Björn
Bjarnaganga – ganga á höndum og fótum með beina útlimi.
Blettatígur
Taka sprettinn. Hlaupa eins hratt og hver og einn getur. Athugið undirlag ef verið er inni í skógi eða þar sem undirlag getur verið óstöðugt/breytilegt.
Flamingó
Standa á öðrum fæti eins lengi og hægt er. Endurtaka hinu megin.
Api
Hanga í tré eða á öðrum stað eins lengi og hægt er. Athugið að vera á öruggum stað, s.s. grein sem er alveg föst við tré. Athugið að undirlag sé öruggt, svo auðvelt sé að koma sér niður og ekkert sé fyrir ef einstaklingur dettur.
Önd
Ganga eins og önd. Beygja sig alveg niður í hnjám og mjöðmum (rass eins nálægt jörðu og hægt er) og ganga.
Kóalabjörn
Klifra upp í tré eða upp á eitthvað sem er á svæðinu. ATHUGIÐ!
– Ekki klifra hærra en að hægt sé að komast niður.
– Tré/klifurstaður sé öruggur.
Hæna
Hænuskref. Ganga eftir línu (getur verið ímynduð), með hæl beint fram fyrir tá.
Kengúra
Kengúruhopp – hoppa jafnfætis.
Könguló
Köngulóarganga: Setjast á jörðu, setja hendur og fætur í jörðu, lyfta rassi upp og ganga. Hægt er að ganga aftur á bak og áfram.
Hestur
Valhoppa ákveðna vegalengd.
Ugla
Markmið þessarar æfingar er að horfa í kringum sig og taka eftir umhverfinu. Standa kyrr og snúa bara höfðinu – horfa og hlusta. Um leið er þetta liðkun. Vel er hægt að bæta við frekari liðkandi æfingum hér, s.s. að snúa upp á allan hrygginn, teygja sig niður í jörðu, upp í loft o.s.frv.
Góða skemmtun!