Einkunnir

Einkunnir er sérkennilegur og fallegur staður vestast í Hamarslandi við Borgarnes.

Árið 1951 samþykkti hreppsnefnd Borgarneshrepps að girða af nokkuð stóran reit til skógræktar. Skógræktarfélagið Ösp var stofnað sem deild í Skógræktarfélagi Borgarfjarðar til að sinna þessu verkefni. Undir merkjum þess var stunduð skógrækt í rúm tuttugu ár.
Á síðari árum hefur sveitarfélagið séð um rekstur og framkvæmdir í Einkunnum og hefur þar verið talsvert unnið til að gera svæðið að ákjósanlegu útivistarsvæði.

Einkunnir er fallegur og skjólgóður áningarstaður fyrir alla en þar eru borð, bekkir og kolagrill ásamt bílastæðum fyrir gesti. Nafnið hefur fornar rætur og kemur fyrir í Egilssögu. Á Syðri-Einkunn eru tvær vörður, landnámsvarða og útsýnisskífa, þar sem útsýnið er stórkostlegt. Þaðan má sjá fimm jökla, Borgarfjarðardali, Mýrar, Borgarfjörðinn og Snæfellsnesið.