173-Fræðslunefnd Borgarbyggðar

Fræðslunefnd Borgarbyggðar – 173

  1. fundur Fræðslunefndar Borgarbyggðar

haldinn  í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 18. október 2018 og hófst hann kl. 15:00

 

Fundinn sátu:

Magnús Smári Snorrason, Lilja Björg Ágústsdóttir, Guðmundur Freyr Kristbergsson, Sigurbjörg Kristmundsdóttir, Steinunn Fjóla Benediktsdóttir og Anna Magnea Hreinsdóttir.

 

Fundargerð ritaði:  Anna Magnea Hreinsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs

 

Að auki sat fundinn áheyrnarfulltrúi Tónlistarskóla Borgarfjarðar Theódóra Þorsteinsdóttir skólastjóri. Einnig áheyrnarfulltrúi grunnskóla Júlía V. Guðjónsdóttir skólastjóri og áheyrnarfulltrúar leikskóla, þau Ástríður Guðmundsdóttir leikskólastjóri, Dagný Vilhjálmsdóttir fulltrúi kennara og Sigursteinn Sigurðsson fulltrúi foreldra.

 

Dagskrá:

 

1. Fjárhagsáætlun 2019 – 1806099
Yfirferð yfir fjárhagsáætlun skóla og íþrótta og tómstundamála.
Forstöðumenn hafa skilað inn fyrstu tillögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 2019. Farið var yfir heildarniðurstöðu hverrar stofnunar.
2. Starfsáætlanir skóla veturinn 2018-2019 – 1810066
Starfsáætlanir skóla ásamt umsögnum foreldraráða/skólaráða fyrir veturinn 2018-2019 lagðar fram.
Starfsáætlanir skóla ásamt umsögnum foreldraráða/skóla fyrir veturinn 2018-2019 lagðar fram og ræddar. Nefndin lýsir ánægju sinni með metnaðarfullar starfsáætlanir sem endurspegla vel það faglega og fjölbreytta starf sem unnið er í skólum Borgarbyggðar.

Grunnskóli Borgarfjarðar – starfsáætlun

Grunnskólinn í Borgarnesi – starfsáætlun

Leikskólinn Andabær – starfsáætlun

Leikskólinn Hnoðraból – starfsáætlun

Leikskólinn Ugluklettur – starfsáætlun

Tónlistarskóli Borgarfjarðar – starfsáætlun

3. Bætt starfsumhverfi leikskóla – 1810068
Tillögur um bætt starfsumhverfi leikskóla.
Greinargerð með tillögum um aðgerðir til að bæta starfsumhverfi leikskóla Borgarbyggðar lögð fram. Greinargerðin var unnin í nánu samstarfi við starfsfólk og stjórnendur leikskólanna. Lagt er til að:
Frá og með hausti 2019 verði reiknað með 9 fermetrum á barn í leikskólum Borgarbyggðar.
Breytingar verði gerðar á barngildisviðmiðum um áramót 2018-2019.
Hafið verði samtal sveitarfélagsins og þeirra háskóla sem mennta leikskólakennara um skipulag og fyrirkomulag námsins svo að álagi á leikskólann verði haldið í lágmarki.
Lágmarksundirbúningur á hverja deild verði skilgreindur 15 klukkustundir á viku.
Tveggja klukkustunda starfsmannafundi verði bætt við hvern leikskóla á árinu 2019 til starfsþróunar.
Leikskólar Borgarbyggðar verði lokaðir milli jóla og nýárs frá og með vetrinum 2019-2020.
Kostnaðarmat tillagna er um tíu milljónir á ári.
Fræðslunefnd telur brýnt að bæta starfsumhverfi leikskóla og tekur jákvætt í tillögur leikskólanna en leggur til að tillagan um að leikskólar loki milli jóla og nýárs verði tekin til frekari umræðu og að gerð verði viðhorfskönnun meðal foreldra um hana. Tillögunum er vísað til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019.
4. Rannsókn á högum og líðan ungs fólks – 1712055
Kynningarfundir um niðurstöður rannsóknarinnar Ungt folk.
Kynning á niðurstöðum rannsóknarinnar Ungt fólk meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk árið 2018 var haldin í Borgarnesi og á Kleppjárnsreykjum í vikunni. Rannsóknin er framkvæmd meðal allra barna í grunnskólum landsins á nokkurra ára fresti og hafa nýst við stefnumótun í forvarnastarfi á meðal fólks sem starfar á vettvangi með börnum og unglingum í fjölda ára. Rannsóknin hefur meðal annars kannað þætti í lífi barna og unglinga á borð við andlega og líkamlega heilsu og líðan, fjölskylduaðstæður, frístundaiðkun, áfengis- og vímuefnaneyslu, árangur í námi, líkamsrækt og þátttöku í íþróttastarfi, trúarskoðanir, mataræði og sjálfsvíg. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið nýttar með staðbundnum hætti, innan sveitarfélaga, hverfa og skóla til að auka skilning á högum ungs fólks og bæta aðstæður þeirra, heilsu og líðan. Sú vinna sem fram hefur farið á á vettvangi á Íslandi frá árinu 1997 hefur skilað sér í umtalsverðri minnkun á neyslu áfengis og vímuefna meðal ungs fólks. Þetta sýnir rannsóknin glögglega. Fræðslunefnd leggur áherslu á að unnið verði með niðurstöður rannsóknarinnar meðal allra sem að börnum og unglingum koma. Jákvætt er hve líðan ungmenna er almennt góð, en huga þarf að svefnvenjum þeirra og notkun samfélagsmiðla og setja reglur þar um.

Grunnskólinn í Borgarnesi – skýrsla

Grunnskóli Borgarfjarðar – skýrsla

5. Frístundastyrkur – 1810076
Frístundastyrkur – reglur og upphæð styrks árið 2019.

Frístundastyrkur – reglur

Gestir
Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri UMSB – 15:45
Farið yfir reglur um frístundastyrk og notkun þeirra. Fræðslunefnd telur mikilvægt að auka notkun styrksins og leggur áherslu á að hann sé vel kynntur foreldrum.
6. Stýrihópur um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarbyggð – 1810067
Framtíðaruppbygging íþróttamannvirkja í Borgarbyggð.
Gestir
Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri UMSB – 16:00
Sigurður Guðmundsson framkvæmdarstjóri UMSB kynnti þá vinnu sem fram fór á árunum 2005-2006 um stækkun íþróttahússins. Einnnig kynnti Sigurður greinargerð vinnuhóps UMSB um fjölnota íþróttahús en samþykkt var á sambandsþingi UMSB 2017 að skipa starfshóp til að greina byggingu fjölnota íþróttahúss í Borgarnesi. Fræðslunefnd leggur til að byggðarráð skipi stýrihóp um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarbyggð sem verði falið það hlutverk að þarfa- og kostnaðargreina uppbygginguna, framkvæma staðarvals- og umferðagreiningu og taka tillit til fjárfestingagetu sveitarfélagsins. Hópurinn taki mið af nýsamþykktri stefnu Borgarbyggðar í íþrótta- og tómstundamálum.
7. Ungmennaþing Vesturlands – 1810015
Ungmennaþing Vesturlands á Laugum í Sælingsdal í nóvember.
Gestir
Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri UMSB – 16:30
Dagana annan og þriðja nóvember næstkomandi fer fyrsta ungmennaþing Vesturlands fram á
Laugum í Sælingsdal. Fulltrúum sveitastjórna á Vesturlandi er boðið að taka þátt síðari daginn. Um er að ræða samstarfsverkefni sveitafélaga á Vesturlandi, ungmennaráða og Samtaka sveitafélaga á Vesturlandi. Verkefnið er áhersluverkefni í Sóknaráætlun Vesturlands. Þátttakendur munu ræða stöðu ungmenna á Vesturlandi frá ýmsum hliðum auk þess sem boðið verður upp á fyrirlestra sem tengjast málefnum ungs fólks og ungmennaráða. Fræðslunefnd hvetur sveitarstjórnafulltrúa og ungmennaráð að fjölmenna á þingið.
Formaður leggur til að Ungmennaráð Borgarbyggðar verði boðið á næsta fund fræðslunefndar.

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:00