11. nóvember, 2025
Fréttir

Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing milli Festis ehf. og Borgarbyggðar sem hefur það að markmiði að gera samkomulag um uppbyggingu í Brákarey. Vinna við nýtt deiliskipulag fyrir Brákarey er langt komin og áætlað að það verði auglýst eigi síðar en í mars. Það skipulag byggir á hugmynda- og skipulagsvinnu sem Festir kynnti fyrir Borgarbyggð og íbúum sumarið 2024 og hefur það að markmiði að skapa einstakt umhverfi í endurmótaðri Brákarey.

Viljayfirýsingin er eftirfarandi: „Festir ehf. og Borgarbyggð (aðilar) gerðu með sér samkomulag í ágúst 2022 um hugmynda- og skipulagsvinnu fyrir Brákarey í Borgarnesi. Á grundvelli þess samkomulags réðst Festir í umfangsmikla vinnu með það að markmiði að skapa einstakt umhverfi í endurmótaðri Brákarey.

Ráðnir voru tveir alþjóðlegir ráðgjafar vegna skipulagsvinnunar fyrir eyjuna, Studio Marco Piva og JVST. Í framhaldinu hófst ítarlegt ferli sem stóð yfir í tvö ár þar sem fjölmargar sviðsmyndir voru skoðaðar og ítraðar. T.ark arkitektar unnu tillögu að baðlóni í Brákarey og landslagshönnuður vann tillögur í samræmi við umhverfi eyjunnar.

Niðurstöðu hugmynda- og skipulagsvinnunnar kynnti Festir fyrir Borgarbyggð og íbúum sumarið 2024. Hugmyndirnar hafa fengið góðan hljómgrunn hjá sveitarfélaginu og íbúum þess. Í kjölfarið ákvað sveitarfélagið að láta vinna nýtt deiliskipulag fyrir Brákarey, og er sú vinna í höndum Landmótunar, ásamt því sem uppbyggingu í Brákarey eru gerð sérstök skil í nýju aðalskipulagi Borgarbyggðar 2025-2037.

Aðilar endurnýja nú viljayfirlýsingu um samstarf með það að markmiði að gera samkomulag um uppbyggingu svæðisins þegar nýtt deiliskipulag liggur fyrir.

Áætlað er að  nýtt deiliskipulag verði auglýst, eigi síðar en í mars 2026. Að deiliskipulagsferli loknu er reiknað með að hafist verði handa við hönnun verkefnisins. Gangi allt að óskum gætu framkvæmdir hafist 2027 en framkvæmdatími er áætlaður þrjú til fjögur ár.

Uppbygging Brákareyjar kallar á fjárfestingu í samfélagslegum innviðum. Borgarbyggð mun leggja sitt af mörkum til að nauðsynlegir innviðir sveitarfélagsins verði tilbúnir og að fjárfesting innviðafélaga styðji við verkefnið og tímalínu þess.“

Viljayfirlýsingin hefur verið undirrituð af Róberti Aron Róbertssyni framkvæmdastjóra Festis og Stefáni Brodda Guðjónssyni sveitarstjóra í Borgarbyggð og verður lögð fyrir sveitarstjórn Borgarbyggðar á fimmtudag til staðfestingar.

Samstarf við Festi um hugmynda- og skipulagsvinnu í Brákarey kom í framhaldi af ákvörðun sveitarfélagsins vorið 2022 að auglýsa eftir áhugasömum samstarfsaðilum um skipulagsmál og uppbyggingu í Brákarey.

Sumarið 2023 voru fyrstu tillögur að rammaskipulagi kynntar fyrir byggðarráði Borgarbyggðar. Í framhaldinu voru haldir fundir með fasteignaeigendum og rekstraraðilum í Brákarey og hafa sumir þeirra í framhaldinu tryggt sér lóðir við nýtt atvinnusvæði sem brátt rís við Vallarás.

Uppfært aðalskipulag sem samþykkt var til staðfestingar í sveitarstjórn 9. október sl. og nýtt deiliskipulag sem nú er í vinnslu eru mikilvægar vörður á leiðinni til endurbyggingar á Brákarey

Tengdar fréttir

11. nóvember, 2025
Fréttir

271. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar

271. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar verður haldinn í Hjálmakletti, fimmtudaginn, 13. nóvember 2025 og hefst kl. 16:00. Hér má sjá dagskrá fundarins: 271. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar   Streymi frá fundinum má finna hér.