31. júlí, 2024
Fréttir

Unglingalandsmót UMFÍ 2024 hefst í Borgarnesi á morgun og mun standa yfir verslunarmannahelgina. Mótaskráin er komin út en þar má finna dagskrá mótsins og yfirlit yfir viðburði sem fram fara. Starfsfólk Borgarbyggðar hefur síðustu dagana unnið að undirbúningi, ásamt UMFÍ, UMSB og fjölda sjálfboðaliða. Um 900 ungmenni eru skráð til leiks þannig að von er á þúsundum gesta í Borgarnes.

Tjaldsvæði mótsins verður við Kárastaði. Eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur svæðið ekki farið varhluta af votviðri sumarsins. Síðustu daga hefur verið unnið að því að drena svæðið og bæta aðkomu. Þá hafa verið gerðar ráðstafanir þannig að hægt verði að taka á móti stærri ferðatækjum t.d. á öryggissvæði flugbrautarinnar ef þarf, svo sem ef rignir verulega næstu daga. Á meðan á mótinu stendur gengur strætó milli Skallagrímsgarðs og tjaldsvæðisins.

Á mánudag lauk malbikun á Þorsteinsgötu og lagningu gangstéttar við Borgarbraut lýkur á næstu dögum. Möl og annar jarðvegur sem hefur fylgt þeirri vinnu verður að sögn verktaka fjarlægður á morgun áður en bærinn fyllist af gestum. Þá hafa framkvæmdir staðið yfir í Íþróttahúsinu og opnað hefur verið fyrir hluta nýrrar búningsaðstöðu nú fyrir landsmót en frekari vinna er framundan.

Ljóst er að Borgarnes mun iða af lífi um helgina og Borgarbyggð hvetur íbúa til að taka þátt og fylgjast með þeim fjölda viðburða sem framundan eru.

Mynd sem fylgir þessum texta var tekin af Theodór Kr. Þórðarsyni þegar Unglingalandsmót UMFÍ fór fram í Borgarnesi 2016.

Tengdar fréttir

14. janúar, 2025
Fréttir

Heilsueflandi samfélag í Borgarbyggð

Heilsueflandi samfélag í Borgarbyggð hefur ákveðið að styrkja börn og ungmenni um heilsukort sem gildir út árið 2025. Heilsukortið veitir aðgang að sundlaugum sveitarfélagsins og börn í 7.bekk -18 ára fá frítt í sund og þreksalinn. Þessa vikuna eru Sigga Dóra, íþrótta og tómstundafulltrúi og Íris Grönfeldt, íþróttafræðingur að fara í heimsókn í grunnskólana og afhenda börnum Heilsukortið og ræða …

8. janúar, 2025
Fréttir

Íris Inga Grönfeldt sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu

Íris Inga Grönfeldt, íþróttafræðingur og starfsmaður Borgarbyggðar, var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag. Hún hlaut þessa virðingarverðu viðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag sitt til íþrótta og heilsueflingar barna, unglinga og fullorðinna í heimabyggð. Við sendum henni innilegar hamingjuóskir!