Umhverfis- og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar veitti í morgun árleg verðlaun til einstaklinga og fyrirtækja sem skara fram úr í umhirðu og fegrun umhverfis í sveitarfélaginu. Einnig voru afhentar samfélagsviðurkenningar og sérstök ný viðurkenning.
Sigrún Ólafsdóttir, formaður nefndarinnar, veitti viðurkenningar fyrir hönd nefnarinnar.
Verðlaunin endurspegla mikla samfélagsvitund og virðingu fyrir umhverfinu í Borgarbyggð og eru hvatning til íbúa og fyrirtækja til áframhaldandi góðra verka.
Eins og áður var kallað var eftir tilnefningum frá íbúum og fór nefndin í kjölfarið á vettvang til að meta tilnefndar eignir.
Verðlaun fyrir snyrtilegt umhverfi:
Snyrtilegasta íbúðarhúsalóð í þéttbýli:
Kjartansgata 6 í Borgarnesi hlaut viðurkenninguna. Þar búa hjónin Jón Finnsson og Sólrún Rafnsdóttir, sem hafa ávallt lagt mikinn metnað í snyrtimennsku og umhirðu lóðar sinnar.

Snyrtilegasta bændabýlið:
Katrín Ólafsdóttir tók við verðlaunum fyrir hönd ábúenda og fjölskyldu á Hvítárvöllum.

Snyrtilegasta atvinnulóðin:
Hótel Hamar hlaut viðurkenningu og tók Bryndís Eva Sigurðardóttir, hótelstjóri, við verðlaununum.

Samfélagsviðurkenning Borgarbyggðar 2025:
Jóhannes Ellertsson og Margrét Guðmundsdóttir, Þórðargötu 30 í Borgarnesi, hlutu samfélagsviðurkenningu fyrir árið 2025.
Viðurkenningin er veitt fyrir fyrirmyndarviðhald og umhirðu á eigin lóð, auk þess sem þau hafa lagt sérstaka áherslu á að fegra opin svæði og gönguleiðir í næsta nágrenni.

Nýr liður – sérstök viðurkenning:
Í fyrsta sinn var veitt sérstök viðurkenning til eigenda Pálstanga í Andakíl, þar sem húsnæði fyrrum Nautastöðvar Búnaðarfélags Íslands við Vatnshamravatn hefur verið endurbætt af mikilli natni og virðingu fyrir sögu og umhverfi.
Birkir Þór Guðmundsson og Gunnhildur Gunnarsdóttir tóku við viðurkenningunni.
Birkir Þór flutti þakkarræðu og þakkaði fagfólki sem kom að verkefninu, þar á meðal Leifi Welding, arkitekt frá Mið-Fossum, og Hauki Sigurðssyni, húsasmíðameistara hjá 5X sérsmíði, sem á rætur í Borgarfirði.


Tengdar fréttir

Opið hús í Varmalandi
Fimmtudaginn 30. október frá kl. 14:00–16:00 bjóða GBF Varmalandsdeild og leikskólinn Hraunborg öllum í heimsókn.Gestum gefst tækifæri til að skoða afrakstur verkefna nemenda sem unnin hafa verið í tengslum við fjölmenningu.Við hvetjum alla til að mæta og kynna sér fjölbreytt og öflugt starf skólanna.