29. janúar, 2024
Fréttir

Tónlistarskóli Borgarfjarðar er þessa dagana að færa sig yfir í nýtt heiti sem verður Listaskóli Borgarfjarðar. Ástæðan er að skólinn fékk það verkefni að víkka út verksvið sitt og bjóða tækifæri til eins fjölbreytts listnáms í Borgarbyggð eins og kostur er. Ýmis skref hafa verið stigin undanfarin misseri og ákveðin verkefni hafa þegar náð að festast í sessi.

Tónlistin

Það er kraftur í tónlistarnáminu í Borgarbyggð og það er að sjálfsögðu kjarninn í starfi Listaskólans og viðamest. Kennt er á fjórum stöðum og við erum stöðugt að endurnýja og byggja upp enn frekari aðstöðu á öllum þessum stöðum.

Alls stunda um 200 nemendur nám við skólann, sumir í fullu námi (60 mín á viku í einkatíma) og aðrir að læra á meira en eitt hljóðfæri. Nemendur eru á öllum aldri og er það vel þó að börn séu auðvitað í miklum meirihluta. Tónlistarkennarar við skólann sem eru 13 og þar býr mikill mannauður í formi langrar reynslu auk góðrar menntunar og mikillar virkni á tónlistarsviðinu.

Forskólanám býðst börnum í elstu árgöngum leikskólanna. Í skoðun er að bæta við hóptímatilboði fyrir yngsta árgang grunnskólans sem væri hugsað sem markviss undirbúningur undir hljóðfæranám.

Fjölbreytt hljóðfæranám býðst frá 6 ára aldri auk söngnáms (byrja aðeins eldri). Mikið er kennt á píanó og gítar en einnig er í boði nám á nokkrar tegundir blásturshljóðfæra og svo er kennt á bæði fiðlu og selló. Trommuleikur (hluti af slagverki) er líka kenndur við skólann.

Söngleikjadeild skólans er vinsæl fyrir þau sem áhuga hafa á tónlist og leiklist. Sýningar eru tvisvar á ári, núna síðast „Litla stúlkan með eldspýturnar“. Æfingar eru hafnar fyrir nýtt vorverkefni og nýir nemendur hafa verið að bætast í hópinn.

Tilboðið um námið „Stúdíóið sem hljóðfæri“ hefur hlotið góðar undirtektir og nokkrir nemendur sem stunda það af kappi. Byrjendum er kennt 2-3 saman og í framhaldi er hægt að velja hvort viðkomandi lærir með öðrum eða sækir einkatíma. Allir nemendur vinna skapandi verkefni.

Við reynum alltaf að gera tilraunir öðru hvoru. Vorið 2024 er í boði fyrir fullorðna, eldri en 18 ára, að skrá sig í veflægt nám á bæði píanó og ukulele og læra 10 lög á jafn mörgum vikum. Til viðbótar við veflæga efnið sem nemendur fá aðgang að þá fá þeir sem skráðir eru í námið saman þrjár kennslustundir í hóptímaformi til að styðja þá í verkefninu og skemmta sér við tónlistaræfingar.

Við kennum líka hliðargreinar, bæði tónfræði og hljómfræði og tónlistarsögu fyrir þau sem lengst eru komin í sínu námi. Hliðargreinar eru skylda fyrir þau sem taka stigspróf á sín hljóðfæri og mikilvægt að skólinn uppfylli skyldur sínar gagnvart þeim nemendum. Nokkrir nemendur tónlistarskólans eru komnir á efri stig tónlistarnámsins og eru þau dýrmætar fyrirmyndir. Þau koma oft fram fyrir hönd skólans og hafa líka leikið fyrir yngstu nemendurna.

Leiklistin

Listaskólinn og MB eru nú þriðja árið í röð í samstarfi um leiklistarkennslu og leiksýningu á vegum leiklistarfélags skólans. Leynileikhúsið sá um námið fyrstu tvö árin. Þeim nemendum í 10.bekk í Borgarbyggð sem áhuga hafa hefur síðan haustið 2022 verið boðið að vera með í bæði námskeiðinu og uppfærslunni og hafa nokkrir nemendur nýtt sér það tækifæri. Reynt hefur verið að bjóða upp á leiklistarnámskeið fyrir yngri aldurshópa í Borgarbyggð, en það hefur ekki tekist ennþá að fá nógu  marga með í það. Við gefumst samt ekki upp.

Listdansinn

Samstarf Listaskólans við Dansgarðinn/Klassíska listdansskólann í Reykjavík hófst síðastliðið haust. Námið er ætlað aldurshópnum 4.-7.bekk. Fjórar stúlkur hafa æft listdans tvisvar í viku í MB og æfðu svo með sambærilegum hópi hjá Dansgarðinum fyrir þátttöku sína í jólasýningunni um Hnotubrjótinn í Borgarleikhúsinu. Dansæfingar fara fram á mánudögum og miðvikudögum kl.14:30-16:00 og enn er hægt fyrir áhugasama að bætast í hópinn. Æft verður með hópnum í bænum fyrir vorsýningu Dansgarðsins í Borgarleikhúsinu.

Myndlistin

Listakonan Michelle Bird hefur ítrekað boðið upp á myndlistarnámskeið í samvinnu við Listaskólann. Listaskólinn  hefur í samstarfi við Myndlistaskólann í Reykjavík auk þess boðið upp á myndlistanámskeið fyrir ýmsa aldurshópa en ekki hefur tekist að fá nægilega þátttöku í þau námskeið. Formlegt nám í myndlist er möguleiki í gegnum fyrirhugað samstarf við Myndlistaskólann. Það er þó ekki síst skortur á aðstöðu til myndlistarkennslu sem hamlar slíku. Ekki er nóg að geta aðeins boðið teikninámskeið og slíkt.

Kvikmyndalistin

Listaskólinn hefur verið í samstarfi um kvikmyndafræðslu á vegum Bíó Paradís. Það samstarf er enn í mótun en þegar hafa verið bíósýningar fyrir börn í Borgarbyggð sem byggja á þessu samstarfi, bæði síðastliðið vor og aftur í haust. Vonir standa til að kveikja áhuga á kvikmyndum og kvikmyndalist og að tækifæri skapist í samvinnu við grunnskólana til að efla kvikmyndagerð meðal barna og unglinga.


Önnur tækifæri – samstarfsverkefni

Smiðjudagar grunnskólanna

Listaskólinn hefur stutt við smiðjutilboð fyrir unglingana okkar á smiðjuhelgum og kennd hafa verið grunnatriði í vinnslu í stúdíói, listdans og DJ vinna svo eitthvað sé nefnt. Tilvalið er að nota slíkar smiðjur til að kanna áhuga nemenda eða vekja hann og geta svo boðið námskeið eða lengra nám í kjölfarið. Stúdíóaðstaða er nú bæði í Borgarnesi og á Kleppjárnsreykjum og nokkrir nemenda okkar orðnir sjálfstæðir í vinnu sinni og geta þá nýtt aðstöðuna utan kennslu.

Barnamenningarhátíð í Borgarbyggð – OK

Listaskólinn hélt utan um skipulag barnamenningarhátíðarinnar OK vorið 2023 í samvinnu við stjórnendur skólastofnana. Hátíðin var haldin með stuðningi SSV og fæst sá stuðningur á þriggja ára fresti. Allir lögðust á eitt og útkoman var fjölbreytt hátíð með mikilli þátttöku. Ákveðið var í kjölfarið, af stjórnendum skóla- og menningarstofnana, að halda áfram að hafa hátíð á hverju vori þó hún verði auðvitað minni í sniðum.  Vorið 2024 verða opin hús, viðburðir og sýningar og er þetta allt í mótun þessa dagana.

Óperudagar

Tvö ár í röð hefur Borgarbyggð, gegnum Listaskólann, tekið þátt í Óperudögum sem haldnir eru að hausti. Hér hafa verið fluttar sérsamdar óperusýningar fyrir börn á leikskólaaldri. Flutningur hefur farið fram í Óðali í bæði skiptin en börnin komið frá öllum leikskólunum. Ánægja hefur verið með þessa fallegu viðburði fyrir aldurshópinn.

Upptakturinn

Borgarbyggð tekur nú þriðja árið í röð þátt í Upptaktinum sem eru tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna á vegum Hörpu. Þar gefst öllum í aldurshópnum 5.-10.bekkur tækifæri til að senda inn fjölbreytt tónverk og verði verkið fyrir valinu þá gefst tækifæri til að vinna markvisst úr hugmyndum sínum með listnemum og listamönnum. Fyrsta árið sem Borgarbyggð tók þátt komst nemandi héðan í úrtakið og verk hans rataði á Upptaktstónleikana 2022 þar sem atvinnumenn flytja verk nemendanna. RÚV hefur verið dyggur samstarfsaðili og viðtöl og verk ratað á dagskrá þar.

Hér er engan veginn allt upp talið sem hefur verið gert eða er í pípunum. Mikill samstarfsvilji er meðal allra stofnana sveitarfélagsins þegar kemur að verkefnum sem tengjast börnum og ungmennum og listtengdum tækifærum fyrir alla aldurshópa. Allt getur gerst í slíku samfélagi.

Að lokum má taka fram að ábendingar um starfsemi og tækifæri fyrir starfsemi og samstarf á vegum Listaskóla Borgarfjarðar eru mjög vel þegnar.

 

Tengdar fréttir

6. júní, 2023
Fréttir

241. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Fundarboð

6. júní, 2023
Fréttir

Umhverfisviðurkenningar – tilnefningar

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd veitir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar og fallegar lóðir og hvetur íbúa til að taka þátt í að gera ásýnd sveitarfélagsins sem besta.