6. september, 2024
Fréttir

Mikið framkvæmdatímabil stendur yfir hjá Borgarbyggð. Á áætlun komandi ára er endurnýjun grunnskóla, leikskóla, íþróttamannvirkja og gatnaframkvæmdir. Hér verður stiklað á stóru í framgangi stærstu verkefna.

Jarðvinna og niðurrif vegna endurbyggingar á húsnæði Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum fór fram í sumar og stóð yfir í um sex vikur. Við niðurrif kom bersýnilega í ljós að mikil rakamyndun hefur lengi átt sér stað í húsinu. Í framhaldinu tók við vinna við sökkla, járnabindingu og lagnir. Verkið, sem er unnið af Sjamma ehf., er í dag lítillega á eftir áætlun vegna umfangs jarðvinnu. Áætlun verktaka miðast við að verkinu verði skilað í ágústlok 2025 og hefur ekki breyst.

Forval vegna alútboðs á fjölnota íþróttahúsi, knatthúsi fór fram í júlí og ágúst. Samþykkt hefur verið að fimm stórum og reyndum aðilum verði boðið að taka þátt í alútboðinu en þeir eru Alverk ehf., Eykt ehf., E. Sigurðsson ehf., Ístak hf. og Sjammi ehf. Útboðsgögn verði afhent 17. september með fyrirvara um staðfestingu á deiliskipulagi en það er nú í auglýsingu. Kostnaðaráætlun vegna hússins verður birt að útboði loknu en sérstakt mat á áhrifum hennar á fjárhag sveitarfélagsins var kynnt í byggðarráði í lok ágúst og gefur til kynna að fjárfestingin verði viðráðanleg fyrir Borgarbyggð.

Aðaluppdrættir og gróf  kostnaðaráætlun vegna stækkunar Uglukletts liggja fyrir og framundan er hönnun á séruppdráttum og lóð. Þá er fyrirsjáanlegt að fergja þurfi lóðirnar Ugluklett 2 og 4, sem verða nýttar undir bílastæði.  Í núgildandi fjárhagsramma er gert ráð fyrir að bygging hússins muni eiga sér stað árið 2026.

Framkvæmdir við skólann á Varmalandi standa yfir en starfsemi leikskólans á Hraunborg mun flytja frá Bifröst að Varmalandi að framkvæmdum loknum. Ríkur vilji var til að verkinu yrði lokið í sumar. Það tókst því miður ekki m.a. þar sem vinna við einangrun og klæðningu á lofti bættist við og undirbúningur tók lengri tíma en vonast var til. Áætlað er að verkinu verði lokið 20. október n.k. en það er unnið af Múrþjónustu og lausnum ehf..

Framkvæmdir við miðrými Grunnskólans í Borgarnesi hefjast brátt en tilboð voru opnuð 20. ágúst og rann kærufrestur út 2. september. Samþykkt hefur verið að ganga til samninga við EJI ehf. sem átti hagstæðasta tilboðið. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið 28. febrúar.

Þarfagreining, frumhönnun og fyrsta kostnaðarmat á sameiginlegu húsnæði fyrir viðbragðsaðila, Slökkvilið Borgarbyggðar og Lögregluna á Vesturlandi, fór fram í vor. Miðað er við að húsið verði í eigu þriðja aðila en Borgarbyggð og ríkið geri langtímasamning um leigu á húsnæðinu fyrir en endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir. Samtal er í gangi við Framkvæmdasýsluna – Ríkiseignir og verður vonandi hægt að hefja útboðsvinnu á þessum grundvelli.

Í gær lauk útboði á gatnagerð vegna fyrri hluta á botnlöngum nr.12, 14 og 16 við Vallarás en þar eru til úthlutunar nýjar lóðir fyrir atvinnuhúsnæði. Áætlað er að vinna hefjist og klárist nú í haust en hlutdeild Borgarbyggðar í verkefninu er 65%.

Framkvæmdir við endurbætur og stækkun á búningsklefum í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi standa yfir. Þær hófust því miður síðar en til stóð og eru ívið umfangsmeiri að áætlað var. Miðað er þeim ljúki í fyrri hluta nóvember. Vilji stendur til að halda framkvæmdinni áfram og vinna að endurbótum á karlaklefum í framhaldinu og munu þau áform rata inn í fjárhagsáætlunarvinnu haustsins.

Gatnahönnun við nýja íbúabyggð við Kveldúlfshöfða í Bjargslandi er að ljúka. Legið hefur fyrir að hönnun Veitna myndi ekki hefjast fyrr en í haust. Áætlað er að hægt verði að bjóða framkvæmdir við verkið út nú fyrir áramót og framkvæmdir gætu þá hafist þegar aðstæður leyfa á nýju ári.

Fyrsti áfangi við endurbyggingu Sæunnargötu er á lokametrunum en verkið er unnið af Borgarverki. Hlutdeild Borgarbyggðar í verkinu er 70%. Í kjölfarið verður hafist handa við annan verkhluta sem er efri hluti Sæunnargötu og hjáleið um Kveldúlfsvöll og Berugötu verður lokað.

Í sumar var efni lagt í strandstíg meðfram voginum milli Kveldúlfsgötu og Þórðargötu, við kirkjugarðinn í Borgarnesi. Efnið mun síga í vetur en í vor er ráðgert að ganga frá yfirborði. Framundan er að reisa göngubrú meðfram klettum yst við Dílatanga sem tengjast mun stígnum við Kveldúlfsgötu. Framkvæmdir eru háðar skilyrðum Umhverfisstofnunar um að þær fari ekki fram á viðkvæmasta tíma fyrir fuglalíf sem er eftir miðjan apríl og til loka september. Framkvæmdir taka mið af því og hefjast því ekki fyrr en liðið er á haustið.

Hér er engan veginn um tæmandi upptalningu að ræða á þeim framkvæmdum sem sveitarfélagið á aðild að. Þá eru ótalin fjölmörg framkvæmdaverkefni á vegum einstaklinga, fyrirtækja og annarra opinberra aðila.

Unnið hefur verið að viðhaldi eigna í sumar og verður framhaldið. Framkvæmdir geta valdið röskun á aðgengi og þjónustu og þeim fylgir rask. Við hjá Borgarbyggð þökkum þann skilning og þolinmæði sem íbúar hafa sýnt.

Tengdar fréttir

6. júní, 2023
Fréttir

241. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Fundarboð

6. júní, 2023
Fréttir

Umhverfisviðurkenningar – tilnefningar

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd veitir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar og fallegar lóðir og hvetur íbúa til að taka þátt í að gera ásýnd sveitarfélagsins sem besta.