
Tónlistarskóla Borgarfjarðar / Listaskóla Borgarfjarðar er ætlað að stuðla að öflugu tónlistar- og listalífi jafnframt því að vinna að aukinni hæfni, þekkingu og þroska einstaklinga. Á tónlistarbraut og listabraut er tekið mið af margvíslegum áhugasviðum nemenda, getu þeirra og þroska. Kennsluaðferðir og viðfangsefni eru fjölbreytt og sveigjanleg og hentar börnum, ungmennum og fullorðnum.
Innritun í Tónlistarskóla Borgarfjarðar / Listaskóla Borgarfjarðar fer alla jafna fram að sumri, en hægt er að sækja um um tónlistarnám hvenær ársins sem er þar sem það fer fram í einkatímum að mestu. Skólaárið skiptist í tvær annir, haust‑ og vorönn. Nemendur sem eru í tónlistarnámi eru færðir milli anna og ára í sama tónlistarnám nema tilkynnt sé um annað. Mikilvægt er að þeir nemendur sem hætta tilkynni það sérstaklega þannig að aðrir komist að. Nemendur í listnámi eru ekki færðir sjálfkrafa milli anna. Á umsóknarsíðu er hægt að sjá hvaða tónlistar- og listnám er í boði. Reynt er að mæta óskum um staðsetningu tónlistarnáms, en það er ekki hægt í öllum tilfellum. Listnámið fer að mestu fram í Borgarnesi.
Tónlistarnámið er fjölbreytt og fyrir alla aldurshópa. Elstu tveimur árgöngum í leikskóla býðst að taka þátt í forskóla tónlistarskólans. Hljóðfæranám er fjölbreytt og einnig er boðið upp á söng og stúdíónám. Söngleikjadeildin er ætluð nemendum frá 7 ára aldri og þar er unnið með söng og leiklist og sýningar í lok annar. Bæði forskólinn og söngleikjadeildin koma ítrekað fram á vegum sveitarfélagsins.
Á listnámsbrautinni er hægt að velja um þátttöku í leiklistarstarfi, dansþjálfun eða myndlist í mismunandi aldurshópum. Mikilvægt er að áhugasamir sæki um til að hægt verði að meta áhugann og sjá hvort lágmarksþátttaka næst á einstakar námsleiðir.
Leiklist verður kennd í samstarfi við MB og geta allir nemendur MB tekið þátt á forsendum skólans auk þess sem nemendur í 10.bekk sótt um að þátt. Um er að ræða undanfaranámskeið og svo sýningarvinnu og sýningar í MB á vorönn. Þeir nemendur í 10.bekk í grunnskólum Borgarbyggðar sem taka þátt í öllu verkefninu og skapa sér þannig matseiningar við nám í MB geta stundað leiklistarnámið án skólagjalda vegna samninga MB og Listaskólans. Þeir sem kjósa að taka aðeins undanfaranámskeiðið í leiklist greiða hóptímagjald í eina önn samkvæmt gjaldskrá Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Leiklistarkennslan fer fram í MB seinnipartinn á miðvikudögum.
Boðið verður upp á danslistarnám fyrir 10-12 ára nemendur af öllum kynjum í samstarfi við Dansgarðinn. Kenndir verða hóptímar í Borgarnesi og undir lok annar verður æft og sýnt með hópum í Dansgarðinum í Reykjavík. Um er að ræða stórar jóla- og vorsýningar í Borgarleikhúsinu. Danslistarnámið felst í grunnkennslu í ballet og skapandi hreyfingu/nútímadans.
Boðið verður upp á myndlistarnámskeið í samvinnu við Myndlistaskólann í Reykjavík. Námið er með sama sniði og þar og þeir nemendur sem taka námskeið teljast hafa lokið þeim kjósi þeir að fara í Myndlistaskólann í Reykjavík. Haustið 2023 verður boðið upp á námskeið í MANGA teikningu fyrir 13-16 ára nemendur í Borgarnesi. Á námskeiðinu læra nemendur að þróa persónu, frá hugmynd í klárað verk. Nemendur þjálfast í að teikna persónu frá mismunandi sjónarhornum og í mismunandi stöðum og að túlka svipbrigði þeirra. Lögð verður áhersla á „Manga“ teiknistílinn, mismunandi einkenni hans og mikilvægi persónusköpunar.
Tímasetningar í listnámsáföngum liggja ekki fyrir en mikilvægt er að áhugasamir sæki um þannig að hægt sé að meta áhugann og sjá hvort lágmarksþátttaka næst. Miðað er við minnst 5-8 í hverjum hópi.
Gjaldskrá listnámshópa er sú sama og fyrir hóptíma í tónlistarskólanum. Sjá gjaldskrá undir Skólaþjónusta á vef Borgarbyggðar, sjá hér.
Nemendur greiða skólagjöld í samræmi við námshlutfall. Veittur er 25% afsláttur hjá öðru barni og 50% afsláttur hjá þriðja barni í fjölskyldu, dýrasta nám án afsláttar en síðan koll af kolli.
Hægt er að nýta frístundastyrk í frístundanám og lengri námskeið.
Vinsamlegast fyllið út umsókn um tónlistarnám eða annað listnám HÉR.
Allar frekari upplýsingar veitir skólastjóri gegnum netfangið tonlistarskoli@borgarbyggd.is eða í síma 433-7190/864-2539
Tengdar fréttir

Kvennaverkfall 2025
Föstudaginn 24. október 2025, eru konur og kvár hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn eins og konur gerðu fyrst á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Það var sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið. Í sveitarfélaginu er stór hluti …

Vegur inn í Einkunnir lokaður að hluta
23. og 24. október nk. mun vegurinn að Einkunnum vera lokaður að hluta. Um er að ræða kafla frá salernishúsi að Einkunnum. Lokað er vegna vinnu við rafstreng og ljósastaura. Vinna heldur svo áfram næstu daga og vegurinn opinn, nema annað verði tekið fram. Vegfarendur eru því beðnir um að sýna aðgát og þolinmæði.