Tillögur að nýju rammaskipulagi fyrir Brákarey í Borgarnesi voru kynntar á fjölsóttum íbúafundi í Hjálmakletti í gær. Þær fela í sér að í Brákarey verði veglegt og skjólgott miðbæjartorg. Við torgið norðanvert muni byggjast upp íbúðir, skrifstofur, verslun og þjónusta en sunnan megin muni rísa glæsilegt hótel. Við hafnarsvæðið er ætlunin að komi almenningsbaðlón. Syðst á eynni er síðan gert ráð fyrir að rísi hverfi með litlum einbýlishúsum á einni hæð.
Lögð verður áhersla á eyjan hafi grænt yfirbragð og að hönnun bygginga verði látlaus. Byggingar rísi ekki hærra en þær sem nú standa í eynni og að byggingamagn verði sambærilegt. Ætlunin er að náttúra fái að njóta sýn og að íbúar og gestir njóti útsýnis til allra átta.
Tillögurnar voru unnar af Festi í framhaldi af samkomulagi við Borgarbyggð um hugmynda- og skipulagsvinnu fyrir Brákarey sem undirritað var í ágúst 2022. Festir leiddi í framhaldinu arkítektastofurnar Studio Marco Piva, JVST, MADMA og T.Ark til samstarfsins um hönnun á svæðinu að hluta og í heild.
Markmið nýs skipulags fyrir Brákarey er að skapa nýtt kennileiti fyrir Ísland sem yrði mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og upplifun fyrir heimafólk að njóta.
Í tillögunum felst að nær öll sú byggð sem nú er í eynni færist yfir á víkjandi skipulag. Ef þessar tillögur njóta stuðnings sveitarstjórnar þá mun sveitarfélagið í framhaldinu hefja deiliskipulagsvinnu á grundvelli þeirra.
Brákarey er vestasti oddi Borgarness og er tengd bænum með brú. Í Brákarey fer fram ýmis iðnaðarstarfsemi en hún er ekki svipur hjá sjón m.v. þá miklu atvinnustarfsemi sem fram fór í eynni á síðari hluta 20. aldar. Þá var Brákarey þungamiðja atvinnulífs í Borgarnesi.

Brákarey er einn merkasti staður Íslendingasagna en eyjan er nefnd eftir Þorgerði Brák, ambátt Skallagríms. Hún var fóstra Egils og kom honum til varnar er Skallagrímur hugðist ganga í skrokk Agli. Skallagrímur þreif til Brákar sem rann undan honum. Eftirförinni lauk er Brák stakk sér til sunds í Brákarsundi en Skallagrímur kastaði steini miklum sem lenti milli herða henni, „og kom hvotki upp síðan,“ eins og segir í Egilssögu.
„Ég er afskaplega ánægður með þessar tillögur. Þær endurspegla mikinn metnað fyrir hönd bæjarins og Brákareyjar en falla um leið vel að umhverfi Borgarness. Markmið sveitarfélagsins er að Brákarey verði á ný mikið aðdráttarafl fyrir íbúa og gesti. Jafnframt að Brákarey sé eftirsóttur staður fyrir búsetu og atvinnustarfsemi. Tillögurnar fela í sér og algjöra umbreytingu á Brákarey og meiri fjárfestingu en áður hefur sést í Borgarnesi. Ég er bjartsýnn á að þær muni styrkja bæjarbraginn og auðga mannlífið svo um munar,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri Borgabyggðar.
„Fyrir hönd Festis þakka ég sveitarstjóra og sveitarstjórn fyrir gott samstarf við þessa hugmynda- og skipulagsvinnu. Við teljum mikil tækifæri felast í uppbyggingu Brákareyjar sem er einstakur staður. Við sjáum fyrir okkur að Brákarey verði sterkur áfangastaður í framtíðinni þar sem íbúar Borgarbyggðar ásamt innlendum og erlendum gestum hittast og njóta þess sem eyjan mun bjóða upp á“ segir Róbert Aron Róbertsson, framkvæmdastjóri Festis.
Tengdar fréttir

Ráð gert fyrir 234 m.kr. afgangi af rekstri Borgarbyggðar 2026 og framkvæmt samkvæmt áætlun
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar var afgreidd frá fyrri umræðu í sveitarstjórn í gær. Á árinu 2026 er gert ráð fyrir rekstrarafgangi af A-hluta að fjárhæð 234 m.kr. og að veltufé frá rekstri verði 727 m.kr. sem samsvarar 9,8% framlegð en tekjur eru áætlaðar 7.441 m.kr. Fjárfestingar Borgarbyggðar hafa verið miklar eins og gert var ráð fyrir í þeim áætlunum sem unnið hefur verið eftir síðastliðin …

Borgarbyggð eflir mál og læsi í leikskólum með nýju samstarfi
Borgarbyggð og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafa gert með sér samstarfssamning um verkefnið Mál og læsi: Snemmtæk íhlutun í leikskólum. Markmið verkefnisins er að hámarka árangur allra barna hvað varðar málþroska og grunnþætti læsis og fyrirbyggja eða draga þannig úr líkum á að þau glími við lestrarerfiðleika seinna meir. Einnig er markmiðið að auka þekkingu og hæfni alls starfsfólks leikskólanna …