
Föstudaginn 24. október 2025, eru konur og kvár hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn eins og konur gerðu fyrst á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Það var sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið.
Í sveitarfélaginu er stór hluti starfsfólks konur og kvár og án vinnuframlags þeirra skerðist eða í einhverjum tilfellum, stöðvast stór hluti starfsemi sveitarfélagsins. Fyrirsjáanlegt er að þátttaka í verkfallinu verður mikil. Undantekning er þó starfsemi sem viðkemur heilsu og öryggi þjónustuþega Borgarbyggðar.
Borgarbyggð tekur heilshugar undir þá kröfu að kynbundu ofbeldi og kynbundinni mismunun sé útrýmt.
Reikna má með röskun í starfsemi stofnana, í leik- og grunnskóla og frístundastarfi. Foreldrar eru því hvattir til að fylgjast með tilkynningum frá skólum og/eða frístundaheimilum barna sinna hvað þetta varðar. Fjarvistir kvenna og kvára vegna þátttöku í kvennaverkfallinu verða ekki taldar óréttmætar né verður dregið af launum vegna þeirra.
Stéttarfélag Vesturlands býður öllum konum og kvár upp á rútuferðir frá Borgarnesi til að taka þátt í dagskrá og kröfufundi í miðbæ Reykjavíkur. Brottför verður frá Menntaskóla Borgarfjarðar – Hjálmakletti klukkan 12:00 og til baka frá Hörpunni klukkan 16:30.
Til að vera örugg um sæti er mikilvægt að skrá sig hér í rútuna.
Tengdar fréttir

Vegur inn í Einkunnir lokaður að hluta
23. og 24. október nk. mun vegurinn að Einkunnum vera lokaður að hluta. Um er að ræða kafla frá salernishúsi að Einkunnum. Lokað er vegna vinnu við rafstreng og ljósastaura. Vinna heldur svo áfram næstu daga og vegurinn opinn, nema annað verði tekið fram. Vegfarendur eru því beðnir um að sýna aðgát og þolinmæði.