6. maí, 2024
Fréttir

Vorið að hellast yfir okkur þessa dagana. Í lok maí stefni ég til Skotlands með góðum vinum til að ganga á Ben Nevis. Smá kvíði í gangi, enda ég litlu standi eftir veturinn. Slatti af kílóum bæst við og ég hef aldrei verið mýkri. Það mun reyna á viljastyrkinn. En jæja, við Þurý og Týra tókum tvær léttar fjallgöngur um þessa og síðustu helgi. Það er einhver seigla þarna undir niðri, treysti á það en annars á máttinn úr eimuðu skosku fjallavatni.

Nokkrir punktar um það sem ég hef sýslað síðustu tvær vikur:

 • Mikið fundastúss sem fylgir starfi og dagarnir fljúga hjá við að undirbúa fundi, taka þátt í fundum eða ganga frá afgreiðslum funda.
 • Sumarmessa með skátaívafi í Borgarneskirkju á Sumardaginn fyrsta. Skátasöngvar…“Kveikjum eld“ osfrv. Mikið stuð.
 • Þversnið íbúa mætt í kirkju, á ýmsum aldri og þjóðernum. Hvort sem fólk skilur hið mælta og sungna mál þá finnur kærleikurinn og gleðin leiðina að hjartanu.
 • Ég flutti hugvekju og fór um víðan völl. Minningar af sumri, æðruleysið og hamingjan. Leitaði stuðnings í Mugison, Epiktet, Helga Björns, Rolling Stones, Ðe lonelí blú bojs, Magnúsi Eiríkssyni og Brodda afa mínum þannig að það var úr góðu efni að moða. Mjög heilandi að undirbúa, flytja og deila svona hugvekju.
 • Það verður ánægjulegt að verða vitni að formlegri friðlýsingu Borgarneskirkju á fimmtudag. Saga, staðsetning og auðvitað arkitektúr og arkitektinn sjálfur afar merkileg. Athöfnin sjálf verður vafalítið skemmtileg og fræðandi. Vonandi sjáumst við þar sem flest.
 • Á sunnudeginum fyrir viku plokkaði ég ásamt félögum úr Rotarý og fleiri landsmönnum. Ég fór um Hvanneyri með Týru, sérlegum aðstoðar-“manni“. Eins og Hvanneyri er nú snyrtilegur staður tókst mér samt að fylla stóran ruslapoka á tveimur tímum bara af smárusli. Leynist víða, inni trjálundum, í þykku grasi osfrv. Tókst að kynnast grasrótinni í Hvanneyri bísna vel 😊
 • Fór á frábæra tónleika með Jónasi Sig ofl. í Landnámssetrinu á Sumardaginn fyrsta. Smekkfullt og frábær skemmtun. Landnámssetrið þvílíkt að stimpla sig inn sem hörkutónleikastaður.
 • Fór í stutt viðtal á RUV á föstudag fyrir viku, að gefnu tilefni, um dýravelferð og aðbúnað sauðfjár. Mikilvægt að koma skýrt á framfæri að í okkar stóra landbúnaðarhéraði er aðbúnaður undantekningarlítið til fyrirmyndar og metnaður mikill.
 • Spjótum stundum beint að sveitarfélaginu. Þarf að halda til haga að dýravelferð er ekki verkahring sveitarfélaga og þau grípa ekki fram fyrir hendur á öðru stjórnvaldi. Frá mínum bæjardyrum finnst mér þó með ólíkindum að m.v. upplýsingar sem liggja fyrir séum við enn eitt árið stödd á þessum stað. Varðandi kröfur um smölun þá eru lög afar misvísandi um skyldur sveitarfélaga og sveitarfélög á landinu ekki að bregðast við.
 • Hópur stjórnenda bókasafna víða um land heimsótti Borgarbyggð á mánudag og þriðjudag – mjög áhugasamur og skemmtilegur hópur. Þórunn og Sævar í safnahúsinu tóku á móti þeim og ég sagði nokkur orð um Borgarbyggð og okkar áherslur í safnamálum.
 • Það er að færast í aukana að sveitarfélög, stjórnendur og stofnanir sæki okkur heim – ekkert nema gott um það að segja og gaman að kynna Borgarbyggð og það sem við erum að gera í ólíkum málaflokkum. Nokkrar slíkar heimsóknir á dagskrá síðar í mánuðinum.
 • Gerði víðreist austur á land á miðvikudag og fundaði á fimmtudag og föstudag með sveitarstjórum víðsvegar að af landinu á Hallormsstað. Fengum um leið góða kynningu á starfsemi Múlaþings. Sams konar viðfangsefni sveitarstjóra um land allt, deilum úr reynslubanka hvers annars og sköpum tengsl. Gerir okkur betri í að sinna störfum okkar.
 • Ákvað að keyra austur og kláraði hringinn. Er kominn á rafbíl og þetta var fín leið til að jarðtengja hleðslukvíðann, tókst vel.
 • Þegar ég var nýlagður af stað þann 1. maí mætti ég öllum flota Slökkviliðs Borgarbyggðar að koma niður Norðurárdalinn. Liðið á leið úr björgunarstarfi við bústaði í Munaðarnesi. Náði að kasta kveðju á Heiðar slökkviliðsstjóra. Einu sinni sem oftar var stóð okkar fólk þar i eldlínunni við að bjarga verðmætum. Verðskuldað hrós sem þau hafa fengið síðustu daga.
 • Vaxandi hluti starfsins er að fylgja eftir verkefnum – og mikilvægt fyrir mig að vera duglegur að ýta verkefnum áfram eins og hægt er.
 • Það er léttir að lokahnykkur framkvæmda við Borgarbraut sé handan við hornið – og vinna að hefjast.
 • Þá eru framkvæmdir hafnar við að lagfæra miðrými Grunnskólans í Borgarnesi og endurbygging á Kleppjárnsreykjum hafin.
 • Byggðarráð samþykkti á fimmtudag tilboð í endurnýjun Sæunnargötu sem fer brátt á fullt.
 • Við fengum við frummat á kostnaði við sameiginlega björgunarmiðstöð fyrir lögreglu og slökkvilið í hendurnar í síðustu viku. Þetta verður heilmikill pakki sem þarf að útfæra frekar í samstarfi við ríkið og svo fjármagna. Það er næsta mál á dagskrá.
 • Sömuleiðis þokast mál áfram er varðar skipulag í Brákarey. Ég vænti þess að kynning á hugmyndum fari fram í júní.
 • Þá átti ég síðustu viku fundi með fulltrúum Menningar- og viðskiptaráðuneytisins um mögulegan flutning á varaeintakasafni Landsbókasafnsins innan sveitarfélagisns. Það er núna í Reykholti og stendur þróun Reykholtsstofu fyrir þrifum. Tilhlýðilegt að halda safninu í sveitarfélaginu – enda á það hvergi betur heima.
 • Á þriðjudag sat ég aðalfund Þróunarfélags Grundartanga. Borgarbyggð meðeigandi ásamt nærliggjandi sveitarfélögum og Faxaflóahöfnum. Verið að huga að frekari þróun félagsins. Grundartangasvæðið skiptir okkur í Borgarbyggð og mikilvægt að vera við borðið í hugmyndum um þróun þess

Læt þetta gott heita í bili.

 

Tengdar fréttir

6. júní, 2023
Fréttir

241. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Fundarboð

6. júní, 2023
Fréttir

Umhverfisviðurkenningar – tilnefningar

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd veitir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar og fallegar lóðir og hvetur íbúa til að taka þátt í að gera ásýnd sveitarfélagsins sem besta.