75-Velferðarnefnd

Velferðarnefnd Borgarbyggðar – 75

  1. fundur Velferðarnefndar Borgarbyggðar

haldinn  í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 8. september 2017 og hófst hann kl. 09:00

 

Fundinn sátu:

Hulda Hrönn Sigurðardóttir formaður, Kristín Erla Guðmundsdóttir aðalmaður, Unnsteinn Elíasson aðalmaður, Ragnar Frank Kristjánsson varamaður og Inga Vildís Bjarnadóttir félagsmálastjóri.

Fundargerð ritaði:  Inga Vildís Bjarnadóttir, félagsmálastjóri

 

Dagskrá:

 

1.   Trúnaðarbók – 1610014
Afgreiddar voru 2 umsóknir um fjárhagsaðstoð. Niðurstaða nefndarinnar var skráð í trúnaðarbók.
Lagðar voru fram afgreiðslur starfsmanna undanfarinn mánuð. Einnig skráð í trúnaðarbók. Óheimilt er að birta afgreiðslu nefndarinnar og starfsmanna opinberlega og því eru afgreiðslur skráðar með formlegum hætti í trúnaðarbók. Það er skýr reglurammi sem nefndin og starfsmenn félagsþjónustunnar starfa eftir. Reglurnar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins.
2.   Húsnæðisstuðningur – 1709034
1709034 – Húsnæðisstuðningur
Almennar húsaleigubætur eru greiddar af ríkinu. Sérstakur húsnæðisstuðningur er skilgreindur í lögum sem sérstakar húsaleigubætur og stuðningur vegna 15-17 ára barna sem leigja á heimavist/námsgörðum. Borgarbyggð hefur í sínum reglum ákvæði um aðstoð vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu og/eða tryggingar.
Um húsnæðisstuðning gilda lög nr. 75/2016 sem sett voru í júní 2016. Með nýju lögunum voru ákvæði um sérstakan húsnæðisstuðning færð í 54. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Leiðbeinandi reglur um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings voru settar af Velferðarráðuneytinu. Sveitarfélög setja svo hver og eitt sínar reglur um húsnæðisstuðning, sem byggja á fyrrnefndum lögum og reglugerð.
Reglur um stuðning í húsnæðismálum í Borgarbyggð tóku gildi 1. janúar 2017. Í eldri reglum var skilyrði fyrir sérstökum húsaleigubótum er varðanði tímalengd búsetu í viðkomandi sveitarfélagi. Það skilyrði var afnumið í nýjum reglum og samkvæmt leiðbeinandi reglum frá Velferðarráðuneyti er slíkt ákvæði óheimilt.

Í lögunum er ekki tilgreindur neinn stuðningur við foreldra 15-17 ára barna sem stunda nám í framhaldsskóla og leigja húsnæði á almennum markaði. Í dreifbýlu sveitarfélagi eins og Borgarbyggð er algengt að nemendur í framhaldsskóla sæki nám fjarri heimili. Það hafa ekki allir hafa aðgang að heimavist eða námsgörðum og þurfa að leigja á almennum markaði. Nefndin leggur til að gerðar verði breytingar á reglum um stuðning í húsnæðismálum í Borgarbyggð, 2. gr. og 11. gr. Breytingin verði á þá leið að bætt verði inn stuðningi fyrir foreldra þeirra 15- 17 ára nemenda sem leigi húsnæði á almennum markaði meðan á námstíma stendur.
11. gr. hljóði svo: Sérstakur stuðningur vegna 15 – 17 ára leigjenda á heimavistum/námsgörðum/ almennum markaði.
Foreldrar/forsjáraðilar sem greiða húsaleigu vegna 15-17 ára barna sinna á heimavist, á námsgörðum eða í leiguhúsnæði á almennum markaði vegna náms hér á landi fjarri lögheimili eiga rétt á húsnæðisstuðningi sé sambærilegt nám ekki í boði í sveitarfélaginu.
Stuðningurinn er óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila og getur numið allt að 50% af leigufjárhæð. Fjárhæð styrks skal þó aldrei nema hærri upphæð en 20.000 kr. á mánuði. Lágmarksgreiðsla foreldra eða forsjáraðila skal vera 10.000 kr. á mánuði.
Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns. Umsókn skal berast fyrir 15. þess mánaðar sem greitt er fyrir, ekki er greitt aftur í tímann. Umsókn gildir fyrir hverja skólaönn.

3.   Þjónusta við einstaklinga með fötlun – 1607128
Þörf fyrir ferðaþjónustu fyrir aldraða og fatlaða hefur aukist stöðugt undanfarin ár. Mikil ánægja er með þá þjónustu eins og fram hefur komið á árlegum opnum fundi um þjónustu við einstaklinga með fötlun í Borgarbyggð og á fundum með eldriborgararáði. Ferðaþjónustan hefur verið frá árinu 2007. Á árinu 2011 voru notendur 20 og farnar voru 3452 ferðir, en fjöldi ferða hafði þá þrefaldast á þessum fjórum árum. Árið 2016 voru ferðirnar alls 5884 og alls 30 notendur. Á árinu 2018 er á fjárhagsáætlun Borgarbyggðar að endurnýja bíl akstursþjónustunnar. Nefndin telur mjög mikilvægt að það verði gert því notkunin er mikil. Á álagstímum hefur starfsfólk búsetuþjónustunnar tekið að sér akstur.
Nefndin felur félagsmálastjóra og sviðsstjóra fölskyldusviðs að taka saman minnisblað um þörf fyrir bílaskost. Einnig verði fundin lausn á akstri á álagtímum og afleysingu fyrir bílstjóra.
4.   Landsfundur sveitarfélaga um jafnréttismál – 1708098
Félagsmálastjóra og nefndarmönnum í velferðarnefnd er boðið að sækja Landsfund sveitarfélaga um jafnréttismál sem haldinn verður 15. September nk. Í Stykkishólmi.
Nefndin hvetur sveitarstjórnarfólk eindregið til að mæta.

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:00