70-Velferðarnefnd

Velferðarnefnd Borgarbyggðar -. fundur Velferðarnefndar Borgarbyggðar

haldinn  í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 2. mars 2017

og hófst hann kl. 16:00

Fundinn sátu:

Hulda Hrönn Sigurðardóttir formaður, Kristín Erla Guðmundsdóttir aðalmaður, Friðrik Aspelund aðalmaður, Unnsteinn Elíasson varaformaður, Sóley Sigurþórsdóttir varamaður og Hjördís Heiðrún Hjartardóttir félagsmálastjóri.

Fundargerð ritaði:  Hjördís Hjartardóttir, félagsmálastjóri

Dagskrá:

 

1.   Trúnaðarbók – 1610014
Afgreiddar 3 umsóknir um fjárhagsaðstoð. Niðurstaða nefndarinnar var skráð í trúnaðarbók. Lagðar voru fram afgreiðslur starfsmanna undanfarinn mánuð, einnig skráð í trúnaðarbók. Óheimilt er að birta afgreiðslu nefndarinnar og starfsmanna opinberlega og því eru afgreiðslur skráðar með formlegum hætti í trúnaðarbók. Það er ákveðinn reglurammi sem nefndin og starfsmenn félagsþjónustunnar starfa eftir. þar má nefna Reglur Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð, Reglur Borgarbyggðar um félagslega heimaþjónustu, Reglur um stuðningsfjölskyldur, Reglur um liðveislu, Reglur um ferðaþjónustu og Reglur um leigurétt og úthlutun á félagslegum leiguíbúðum Sé sótt um aðstoð sem fellur utan rammans sem þessar reglur mynda, þá er málinu vísað til umfjöllunar og afgreiðslu í velferðarnefnd. Allar þessar reglur eru endurskoðaðar reglulega. Reglurnar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins www.borgarbyggd.is. Valinn er flipinn Stjórnsýsla => stjórnkerfi => samþykktir og reglur. Reglur er varða félagsþjónustuna eru skráðar undir Fjölskyldusvið.
2.   Upphæð fjárhagsaðstoðar – 1302001
Lögð fram samantekt frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um upphæðir fjárhagsaðstoðar í nokkrum sveitarfélögum í feb. 2017.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman upplýsingar um grunnupphæð fjárhagsaðstoðar ( það sem einstaklingur þarf að lágmarki til að lifa af á mánuði) í nokkrum sveitarfélögum. Samantektin er frá febrúar 2017. Í samantektinni má sjá að upphæð fjárhagsaðstoðar í Borgarbyggð er sú sjöunda hæsta af þeim 34 sveitarfélögum sem samantektin nær til, bæði hvað varðar einstaklinga og hjón/sambýlisfólk. Ekki kemur fram í samantektinni hvernig reiknireglan er, þ.e. hvort hærri fjárhagsaðstoð sé greidd til barnafjölskyldna, m.t.t. fjölda barna. Upphæð fjárhagsaðstoðar er hæst í Reykjavík. Sú reikniregla gildir í Borgarbyggð að litið er til þess hve margir einstaklingar halda heimili saman, þar með talin börn. Upplýsingar um þetta er að finna í Reglum Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð, III. kafli, 7. grein. Reglurnar, sem voru endurskoðaðar árið 2015, byggja á 21. grein laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.
3.   Þjónusta við einstaklinga með fötlun – 1607128
Rædd félagsleg liðveisla við fólk með fötlun.
Samkvæmt reglum Borgarbyggðar um liðveislu, sem voru endurskoðaðar og samþykktar í apríl 2015, eiga þeir rétt á liðveislu sem teljast vera með fötlun í skilgreiningu 2. greinar, laga nr. 59/1992, eru íbúar í Borgarbyggð og hafa náð 6 ára aldri.
Liðveisla er annars vegar félagsleg liðveisla og hins vegar frekari liðveisla. Félagsleg liðveisla er aðstoð til að rjúfa/koma í veg fyrir félagslega einangrun, njóta menningar og félagslífs. Þjónustan er bæði fyrir börn og fullorðna.
Frekari liðveisla er sú aðstoð sem veitt er umfram heimilishjálp og félagslega liðveislu. Frekari liðveisla getur verið allt sem til þarf, til að einstaklingur geti lifað sem eðlilegustu lífi á eigin heimili.
Undanfarin ár hefur þörf fyrir félagslega liðveislu heldur aukist. En jafnframt hefur gengið erfiðlega að ráða einstaklinga til starfa við liðveislu. Í sveitarfélaginu er gott atvinnuástand, lítið atvinnuleysi og það hugsanlega skýringin á að lítil eftirsókn er eftir hlutastarfi.
Ljóst er að með einhverjum ráðum þarf að gera liðveislu eftirsóttari starfsvettvang.
Ýmsar leiðir ræddar, starfsmönnum falið að vinna áfram að málinu.
4.   Jafnréttisáætlun – 1409192
Afhent prentað eintak Jafnréttisáætlunar.
Jafnréttisáætlun Borgarbyggðar er byggð á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Áætlunin var staðfest árið 2015, en Jafnréttisstofa gerði athugasemdir við að aðgerðaáætlun og ábyrgð á framkvæmd vantaði. Við því var brugðist og jafnréttisáætlunin er því bæði stefna og tímasett áætlun um hvernig ná skal settum markmiðum.
Eitt af því sem nefndin skal kanna eftir kosningar og á miðju kjörtímabili er kynjaskipting í nefndum, ráðum og starfshópum sveitarfélagsins. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum má meðal annars sjá að í sveitarstjórn Borgarbyggðar eru karlar einum fleiri, en í hópi varamanna eru konur þremur fleiri. Í velferðarnefnd eru þrjár konur og tveir karlar, en bæði í fræðslunefnd og umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd eru konur í meirihluta. Í öðrum nefndum, ráðum, húsnefndum og fjallskilanefndum eru karlar í meirihluta, nema í Menningarsjóði, í fulltrúaráði Fjölbrautaskóla Vesturland og í stjórn Menntaskóla Borgarfjarðar. Það er neikvætt fyrir jafnréttið sem ríkja á í sveitarfélaginu að allir fulltrúar þess á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi eru karlkyns, en varamenn allir kvenkyns.
5.   Sveitarfélagakönnun Gallup – 1702115
Farið yfir niðurstöður könnunar.
Gallup gerði þjónustukönnun til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins. Tilgangur er að sveitarfélögin fái úttekt á sinni þjónustu, auk þess að fá samanburð við önnur sveitarfélög. Könnunin var gerð í nóvember og desember 2016 og nær til 19 sveitarfélaga.
Samkvæmt niðurstöðum voru 44% svarenda ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins við eldri borgara, en 12 % óánægðir. 43% svarenda voru ánægðir með þjónustu við einstaklinga með fötlun í sveitarfélaginu en 17% óánægðir. Sé niðurstaðan borin saman við niðurstöðu annarra sveitarfélaga kemur í ljós að ánægja/óánægja er á pari við það sem kemur fram í hinum sveitarfélögunum. Helsta breytingin milli ára er að þeim fjölgar sem eru mjög ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins við einstaklinga með fötlun, fer úr 9 % í 14% en þeim fækkar sem eru mjög ánægðir með þjónustu við aldraða, fer úr 14 % í 8%. Mjög óánægðum með þjónustuna fækkar reyndar einnig.
Ljóst er, miðað við þessa niðurstöðu, að velferðarnefnd þarf að kynna sér hvað betur má fara í þjónustu við aldraða.
6.   Ársskýrsla félagsþjónustu fyrir 2016 – 1702151
Lögð fram ársskýrsla félagsþjónustu fyrir árið 2016.
Að vanda er unnin vönduð ársskýrsla yfir þau verkefni sem félagsþjónustan sinnir. Í ársskýrslunni er að finna tölulegar upplýsingar, skilgreiningar á þjónustu og fleira sem um ræðir í þessum málaflokki. Velferðarnefnd þakkar félagsmálastjóra fyrir vel unna og ítarlega ársskýrslu. Það er dulin en afar mikilvæg vinna að halda þessum upplýsingum til haga og miðla á upplýsandi hátt til þeirra er vilja kynna sér málið.
Í ársskýrslunni má meðal annars sjá að málafjöldinn hefur aukist milli ára, fer úr 299 málum í 342. Barnaverndarmálum hefur fjölgað og álag á starfsmenn aukist.
Ferðum hjá ferðaþjónustu fatlaðra og eldri borgara fjölgar ár frá ári. Ferðafjöldinn árið 2016 voru 5.884 ferðir og hafði þá fjölgað úr 5709 árið áður. Notendur að staðaldri eru um það bil 30 og rétt er að geta þess að ferðirnar eru mismunandi langar, allt frá nokkrum kílómetrum innanbæjar í Borgarnesi upp í ferðir sem ná á áttunda tug kílómetra.
Ársskýrsluna er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins. Valinn er flipinn Þjónusta. Því næst flipinn “Félagsþjónusta?. Þá birtist til hægri renningur þar sem sjá má slóð á ársskýrslur félagsþjónustunnar. Á síðunni eru ársskýrslur frá árinu 2006 til ársins 2016.
7.   Fundartími nefndar – 1508014
Rætt um fundartíma nefndar. Var einnig á dagskrá á síðasta fundi, en þá frestað þ.e. einn nefndarmanna var ekki til staðar.
Ákveðið að fundir velferðarnefndar verði haldnir 1. föstudag í mánuði. Fundir hefjist kl 8:30.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:05