69-Velferðarnefnd

Velferðarnefnd Borgarbyggðar – 69

  1. fundur Velferðarnefndar Borgarbyggðar

haldinn  í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 2. febrúar 2017

og hófst hann kl. 16:00

Fundinn sátu:

Hulda Hrönn Sigurðardóttir formaður, Kristín Erla Guðmundsdóttir aðalmaður, Friðrik Aspelund aðalmaður, Hjördís Heiðrún Hjartardóttir félagsmálastjóri og Unnsteinn Elíasson varaformaður.

Fundargerð ritaði:  Hjördís Hjartardóttir, félagsmálastjóri

Dagskrá:

Freyja Smáradóttir og Inga Vildís Bjarnadóttir félagsráðgjafar sátu fundinn undir þessum lið.
1.   Trúnaðarbók – 1610014
Afgreiddar voru 3 umsóknir um fjárhagsaðstoð. Niðurstaða nefndarinnar var skráð í trúnaðarbók. Lagðar voru fram afgreiðslur starfsmanna undanfarinn mánuð. Óheimilt er að birta afgreiðslu nefndarinnar og starfsmanna á erindum einstaklinga opinberlega og því eru afgreiðslur skráðar með formlegum hætti í trúnaðarbók.

Fjárhagsaðstoð er veitt í samræmi við Reglur Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð. Reglurnar byggja á 21. grein laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Sé sótt um aðstoð sem fellur utan rammans sem þessar reglur mynda, þá er málinu vísað til umfjöllunar og afgreiðslu í velferðarnefnd.
Afgreiðslur nefndarinnar og starfsmanna eru einnig í samræmi við Reglur Borgarbyggðar um félagslega heimaþjónustu, Reglur um stuðningsfjölskyldur, Reglur um liðveislu, Reglur um ferðaþjónustu og Reglum um leigurétt og úthlutun á félagslegum leiguíbúðum.

 
2.   Atvinnumál fatlaðra – 1701296
Guðrún Kristinsdóttir, þroskaþjálfi og forstöðumaður Öldunnar, kom á fund nefndarinnar og kynnti þau verkefni sem eru í gangi í Öldunni og þau sem væntanleg eru á næstu mánuðum. Einnig fór hún yfir þá AMS samninga sem eru í gangi í sveitarfélaginu. Skammstöfunin AMS stendur fyrir verkefnið Atvinna með stuðningi. Atvinnuúrræði í því verkefni miða að því að útvega einstaklingum með skerta starfsgetu atvinnu,stundum tímabundið, en stundum til lengri tíma. Mjög jákvætt er að vinnustöðum sem taka þátt í þessu verkefni hefur fjölgað.
Vinnumálastofnun sér um atvinnumál almennt, í samræmi við lög nr. 55/2006. Í þessum til teknu lögum er kveðið á um að Vinnumálastofnun sjái um atvinnumál allra atvinnuleitenda og aðstoði þá við að finna starf við hæfi.

Í kafla III. í þessum tilteknu lögum er farið yfir hvernig samstarfi skuli háttað. Vinnumálastofnun á Vesturlandi stendur sig vel í að sinna atvinnumálum fatlaðra. Mánaðarlega eru samráðsfundir með fulltrúum félagsþjónustunnar á svæðinu. Þetta samstarf hefur virkað vel og er góður vettvangur til að upplýsa um stöðuna á vinnumarkaði, ræða um ný verkefni, til að miðla reynslu og til að tengja saman það sem verið er að gera á hverju svæði fyrir sig.

 
3.   Stuðningur í húsnæðismálum – 1607130
Fara yfir eignamörk vegna sérstakra húsaleigubóta, en engin slík eru í reglum um stuðning í húsnæðismálum.
Í lögum um húsnæðisbætur er kveðið á um að við ákveðin eignamörk byrji húsnæðisbætur að skerðast. Tekið er tillit til fleiri þátta en eignamarka, svo sem tekna og fjölda heimilismanna.
Í reglum Borgarbyggðar um stuðning í húsnæðismálum er ekki kveðið á um eignamörk.
Nefnin leggur til að við 8. gr. reglnanna bætist “ Samanlagðar eignir heimilismanna nemi ekki hærri fjárhæð en 5.126.000 í lok næstliðins árs.“
 
4.   Breyting á skipan barnaverndarnefndar – 1701297
Skv. erindisbréfi Barnaverndarnefndar Borgarfjarðar og Dala skal skipa fulltrúa í nefndina úr hópi fulltrúa í velferðarnefnd eða varamanna þeirra.
Þær breytingar hafa orðið á skipan velferðarnefndar að Unnsteinn Elíasson hefur tekið sæti í nefndinni í stað Bjarkar Jóhannsdóttur. Nefndin þakkar Björk fyrir góð störf og býður Unnstein velkominn til starfa. Nefndin leggur jafnframt til að Unnsteinn taki sæti í barnaverndarnefnd Borgarfjarðar og Dala í stað Erlu Stefánsdóttur sem er flutt úr sveitarfélaginu. Nefndin þakkar Erlu góð störf.
 
5.   Fundartími nefndar – 1508014
Fundartími velferðarnefndar hefur verið fyrsta fimmtudag í mánuði kl. 16. Þar sem oft eru lögð fyrir nefndina mál frá allt að fjórum starfsmönnum og nefndin kallar stundum til skrafs og ráðagerða ýmsa sem koma að starfi með þeim sem njóta þjónustu velferðarsviðs þá leggur nefndin til að fundartími nefndarinnar verði hér eftir á hefðbundnum dagvinnutíma. Ákvörðun frestað til næsta fundar.
 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:00