68-Velferðarnefnd

Velferðarnefnd Borgarbyggðar – 68

  1. fundur Velferðarnefndar Borgarbyggðar haldinn í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 5. janúar 2017 og hófst hann kl. 15:15

Fundinn sátu:

Hulda Hrönn Sigurðardóttir formaður, Björk Jóhannsdóttir varaformaður, Jón Arnar Sigurþórsson aðalmaður, Kristín Erla Guðmundsdóttir aðalmaður, Friðrik Aspelund aðalmaður, Hjördís Heiðrún Hjartardóttir félagsmálastjóri og Anna Magnea Hreinsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

Fundargerð ritaði:  Hjördís Hjartardóttir, félagsmálastjóri

Dagskrá:

 

1.   Heimsókn í Ölduna – 1701018
Velferðarnefnd fór í heimsókn í Ölduna. Starfsfólk og leiðbeinendur í Öldunni tóku vel á móti hópnum. Skoðuð var sú ágæta aðstaða sem búið er að koma upp, auk þess sem nefndin fékk fræðslu um það starf sem unnið er í Öldunni. Óhætt er að segja að aðstaðan sé hin glæsilegasta. Vinnurýmið er bjart og vistlegt og nægilegt rými fyrir starfsemina. Að sögn leiðbeinenda hefur verkefnum fjölgað eftir að Aldan var flutt í nýrra húsnæði og vinnuaðstaða starfsfólks batnaði til mikilla muna. Nefndin þakkar hlýjar móttökur og lýsir yfir ánægju með hve vel tókst til með flutning Öldunnar í nýtt húsnæði.
2.   Trúnaðarbók – 1610014
Afgreiddar voru 2 umsóknir um fjárhagsaðstoð. Niðurstaða nefndarinnar skráð í trúnaðarbók. Lagðar voru fram afgreiðslur starfsmanna undanfarinn mánuð. Skráð í trúnaðarbók.
Fjárhagsaðstoð er veitt í samræmi við Reglur Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð, sem staðfestar voru í sveitarstjórn í apríl 2015. Reglurnar byggja á 21. grein laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Sé sótt um aðstoð sem fellur utan rammans sem þessar reglur mynda, þá er málinu vísað til umfjöllunar og afgreiðslu í velferðarnefnd.
Afgreiðslur nefndarinnar og starfsmanna eru einnig í samræmi við Reglur Borgarbyggðar um félagslega heimaþjónustu, frá nóvember 2015; Reglur um stuðningsfjölskyldur, frá mars 2012; Reglur um liðveislu, frá apríl 2015; Reglur um ferðaþjónustu, frá apríl 2015 og Reglum um leigurétt og úthlutun á félagslegum leiguíbúðum, frá desember 2016.
Óheimilt er að birta afgreiðslu nefndarinnar og starfsmanna opinberlega og því eru afgreiðslur skráðar með formlegum hætti í trúnaðarbók.
3.   Húsnæðisáætlanir, stofnframlög og skyldur sveitarfélaga – 1612263
Lagt var fram erindi frá Landssamtökunum Þroskahjálp, um húsnæðisáætlanir, stofnframlög og skyldur sveitarfélaga gagnvart fötluðu fólki. Erindinu var vísað til velferðarnefndar frá byggðarráði 30. desember sl. Landssamtökin Þroskahjálp vísa í lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, en lögin kveða á um að til staðar skuli vera húsnæði sem gerir einstaklingum með fötlun kleift að vera í sjálfstæðri búsetu á eigin heimili, í samræmi við óskir og þarfir hvers og eins. Landssamtökin benda jafnframt á að vegna skorts á hentugu húsnæði geti fatlað fólk ekki alls staðar vænst þess að þeirra mannréttindi um búsetu á eigin heimili, séu virt.
Velferðarnefnd þakkar þroskahjálp fyrir erindið. Það er alltaf mikilvægt að minna á að nægt framboð sé af hentugu húsnæði fyrir einstaklinga með fötlun, sem og aðra sem á slíku þurfa að halda.
Í Borgarbyggð er bæði blokk og íbúðakjarni þar sem er þjónusta allan sólarhringinn fyrir íbúana. Hver íbúi býr í sinni íbúð og heldur sjálfstætt heimili, en fær þá þjónustu sem hann þarf á að halda.
Húsnæðisstefna Borgarbyggðar var staðfest í apríl 2015. Áætlun Borgarbyggðar í húsnæðismálum, fyrir árin 2016 og 2017 liggur fyrir. Áætlunin er byggð á húsnæðisstefnunni og miðar t.a.m að því að stærra húsnæði og óhentugra húsnæði verði smám saman selt úr eignasafninu, en í staðinn komi minni og hentugri íbúðir til að mynda með tilliti til aðgengis.
 
4.   Upphæð fjárhagsaðstoðar – 1302001
Velferðarnefnd leggur til að grunnframfærsla verði hækkuð um 5%, þ.e. úr 152.438 í kr. 160.060.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:45