439-Byggðarráð Borgarbyggðar

  1. fundur Byggðarráðs Borgarbyggðar

haldinn  í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 18. janúar 2018 og hófst hann kl. 08:15

 

Fundinn sátu:

Geirlaug Jóhannsdóttir formaður, Björn Bjarki Þorsteinsson varaformaður, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir áheyrnarfulltrúi, Finnbogi Leifsson varamaður og Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri .

Fundargerð ritaði:  Kristján Gíslason

 

Dagskrá:Byggðarráð Borgarbyggðar – 439

 

1.   Borgarbraut 9-13 – forkaupsréttur, beiðni – 1801043
Framlögð beiðni Sigurðar A. Þóroddssonar hrl. f.h. EIH ehf um að Borgarbyggð falli frá forkaupsrétti að húseigninni Borgarbraut 9-13, Borgarnesi. Vegna skamms tímafrests hefur erindinu þegar verið svarað með bréfi sveitarstjóra þann 9. janúar sl. með fyrirvara um staðfestingu Byggðarráðs. Byggðarráð staðfestir afstöðu sveitarstjóra um að Borgarbyggð falli frá forkaupsrétti að umræddri húseign.
2.   Opið net og eigendastefna vegna Gagnaveitu Reykjavíkur – 1801047
Framlagt bréf Símans ohf, dags. 5. janúar 2018, þar sem farið er yfir samskipti Símans ohf og Gagnaveitu Reykjavíkur vegna óska Símans um aðgang að fjarskiptaneti Gagnaveitunnar. Byggðarráð frestaði afgreiðslu málsins en fól sveitarstjóra að afla frekari gagna.
3.   Úrbætur í vetrarþjónustu í uppsveitum Borgarfjarðar – tilkynning – 1801060
Framlagt bréf Samgöngu – og sveitarstjórnarráðuneytis dags. 9.1.2018 varðandi úrbætur í vetrarþjónustu leiðinni á milli Borgarness og Hvanneyrar svo og á Hálsasveitarvegi í uppsveitum Borgarfjarðar. Byggðarráð fagnar þessum áfanga en leggur þó áherslu á að mikið vantar enn á að vetrarþjónusta sé komin í ásættanlegt horf á þjóðvegum innan sveitarfélagsins. Má þar sérstaklega nefna hálkuvarnir. Ekki þarf að fjölyrða um hve brýnt það sé að vetrarþjónusta á vegum taki mið af þeim breyttu aðstæðum í samfélaginu sem aukning á umferð ferðafólks hefur leitt af sér. Gríðarleg fjölgun ferðafólks sem er alls óvant að keyra við íslenskar vetraraðstæður hlýtur að kalla á viðbrögð til viðbótar því að eðlileg krafa er að íbúum sveitarfélagsins séu tryggðar öruggar samgöngur allt árið eftir því sem frekast er unnt. Byggðarráð óskar eftir þvi að fá fulltrúa Vegagerðarinnar á fund ráðsins.
4.   Evrópsk persónuverndarlöggjöf – innleiðing – 1801071
Innleiðing evrópskar persónuverndarlöggjafar. Sveitarstjóri kynnti það sem unnið hefur verið við innleiðingu evrópskrar persónuverndarlöggjafar. Fyrstu fundir hafa verið haldnir með forstöðumönnum skólastofnana. Í undirbúningi eru frekari fræðslufundir um verkefnið. Byggðarráð samþykkti að skipa Kristján Gíslason verkefnastjóra og skjalavörð sem persónuverndarfulltrúa vegna þessa verkefnis. Einnig fól byggðarráð sviðsstjóra fræðslusviðs, sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og félagsmálastjóra að mynda starfshóp sem hafi umsjón með framvindu verkefnisins. Sveitarstjóri starfi með hópnum eftir því sem tök eru á.
5.   Gallup 2017 – 1801026
Framlagðar niðurstöður úr þjónustukönnun Gallup frá árinu 2017. Niðurstöður könnunarinnar gefa á ýmsan hátt góðar ábendingar um viðhorf íbúa sveitarfélagsins um ýmsa þætti í starfsemi þess. Þær eru mikilvæg ábending um hvar sé brýnast að standa fyrir úrbótum í stjórnsýslu þess. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar bráðlega fyrir forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins svo og fyrir starfsfólki ráðhússins. Niðurstaðan er á átta sviðum betri en í síðustu könnun, á þremur sviðum stendur hún í stað en lækkar á tveimur. Heilt yfir eru íbúar Borgarbyggðar ánægðari með þjónustuna 2017 en var á árinu 2016. NIðurstöður verða kynntar forstöðumönnum stofnana og nefndum á næstunni.

Gallup 2017

6.   Samanburður ASÍ á leikskólagjöldum – 1801072
Framlagðar niðurstöður úr nýlegri könnun ASÍ á kostnaði við leikskólagjöld innan 16 fjölmennustu sveitarfélaganna. Könnunina er að finna á vef ASÍ (asi.is). Byggðarráð lýsir ánægju sinni með að hafa aðgengi að slíkum samanburði en gerir hins vegar athugasemdir við að ekki sé tekið tillit til ákveðinna grunnforsendna í rekstri leikskóla eins og á hvaða aldri börn eru tekin inn í leikskólana. Borgarbyggð tekur t.d. inn börn á leikskóla allt frá 9 mánaða aldri sem er með því yngsta sem gerist á landinu.
7.   Heimasíða og kynningarmál – 1801073
Rædd staða heimasíðu og kynningarmála. Lagður fram listi yfir niðurstöður á úttekt á vefjum sveitarfélaga og fleiri opinberra stofnana frá fyrra ári. Sveitarstjóra falið að kanna verð á heimasíðukerfum hjá 3 – 4 fyrirtækjum.
8.   Björgunarsveitir í Borgarbyggð – 1801076
Gestir
Einar Einarsson – 09:35
Þór Þorsteinsson – 09:35
Þorvaldur Kristbergsson – 09:35
Staða björgunarsveita í Borgarbyggð. Til fundarins mættu formenn björgunarsveitanna Brákar og Heiðars ásamt Þór Þorsteinssyni, varaformanni Landsbjargar. Þeir kynntu stöðu björgunarsveitanna, þá þróun sem hefur átt sér stað í verkefnum þeirra, hvernig aflað er fjár til starfseminnar ásamt fleiru sem starf þeirra varðaði. Byggðarráð lýsir vilja til þess að taka upp viðræður um samning við björgunarsveitir í sveitarfélaginu. Byggðarráð hvetur ennfremur Almannaverndarnefnd Mýra – og Borgarfjarðarsýslu til þess að efnt verði til hópslysaæfingar í sveitarfélaginu.
9.   Brú lífeyrissj. – Samkomulag um uppgjör – 1801019
Framlagt samkomulag um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum Borgarbyggðar vegna halla á A-deild Lífeyrissjóðsins Brú sem kynnt var fyrir sveitarfélaginu þann 4. Janúar sl. Hlutur Borgarbyggðar í samkomulaginu er 73.538.101 kr. vegna jafnvægissjóðs, 154.222.122 kr. vegna lífeyrisaukasjóðs og 16.591.678 kr. vegna varúðarsjóðs. Byggðarráð samþykkti samkomulagið og fól sveitarstjóra að undirrita það.
10.   Kárastaðaland 210317 – stofnun lóðar v. Borgarverk, umsókn – 1801084
Framlögð umsókn um stofnun lóðar úr landi Kárastaðalands lnr. 210317 vegna stækkunar athafnasvæðis Borgarverks ehf.
Byggðarráð samþykkir stofnun lóðarinnar.

Sólbakki 19a

11.   Íþrótta- og tómstundastefna Borgarbyggðar – 1711075
Framlagt erindi vegna skipunar í vinnuhóp sem skal endurskoða íþrótta- og tómstundastefnu Borgarbyggðar en erindinu var vísað til byggðarráðs frá fundi sveitarstjórnar þann 11. jan. sl. Byggðarráð samþykkti að skipa Lilju Björg Ágústdóttur fulltrúa í vinnuhópinn til viðbótar þeim sem fyrir eru.
12.   Umferðaröryggi á Vesturlandsvegi – 1801075
Framlagt bréf bæjarstjóra Akranesskaupstaðar frá 16. janúar sl. þar sem kynnt er ályktun bæjarstjórnar Akranesskaupstaðar frá 9. janúar 2018 þar sem fjallað er um ástand vegamála á Kjalarnesi. Byggðarráð ræddi málið og samþykkti eftirfarandi bókun:
„Byggðarráð Borgarbyggðar tekur undir málflutning þeirra aðila sem hafa vakið athygli á ástandi Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og nauðsyn þess að veita nægilegum fjármunum til að vinna að tvöföldun vegarins. Það er deginum ljósara að við núverandi ástand verður ekki unað enda hafa aðilar, sem hafa þekkingu á viðfangsefninu og bera ábyrgð á úrlausn þess eins og vegamálastjóri, lýst vegkaflann hættulegan. Þar til viðbótar vill byggðarráð Borgarbyggðar skora á yfirvöld samgöngumála að hefja samtímis undirbúning að úrbótum Vesturlandsvegar frá Hvalfjarðargöngum upp í Borgarnes. Gríðarleg aukning hefur orðið á umferðarálagi á þessum vegi á liðnum árum, bæði hvað varðar almenna umferð, umferð ferðafólks svo og umferð flutningabifreiða sem þjónusta atvinnulífið víða um land. Slíkri þróun verður að mæta með markvissum aðgerðum, bæði hvað varðar almenna þjónustu svo og úrbætur á veginum sjálfum“
13.   Til umsagnar 26. mál frá nefndasviði Alþingis – 1712063
Framlagðar umsagnir Borgarbyggðar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna máls nr. 26 frá nefndasviði Alþingis.
14.   Til umsagnar 27. mál frá nefndasviði Alþingis – 1712062
Framlagðar umsagnir Borgarbyggðar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna máls nr. 27. frá nefndasviði Alþingis.
Byggðarráð tók undir umsagnirnar.
15.   Upplýsinga – og lýðræðisnefnd – fundargerðir 2018 – 1801057
Framlögð 7. fundargerð upplýsinga – og lýðræðisnefndar frá 8. jan. 2018

Fundargerð 7

16.   Stýrihópur um endurskoðun stefnu í málefnum aldraðra. – 1801016
Fundargerð 1. fundar stýrihóps um endurskoðun málefna aldraðra lögð fram.

1. fundur stýrihóps

17.   179. fundur í Safnahúsi – 1801021
Framlögð fundargerð 179. fundar starfsmanna Safnahúss Borgarfjarðar frá 2. jan. 2018
18.   Ráðninganefnd Borgarbyggðar – fundargerðir 2018 – 1801044
Framlögð fundargerð ráðninganefndar Borgarbyggðar frá 8.1.2018

Fundur 8 janúar 2018

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:55