165-Fræðslunefnd Borgarbyggðar

Fræðslunefnd Borgarbyggðar – 165

  1. fundur Fræðslunefndar Borgarbyggðar

haldinn  í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 30. janúar 2018

og hófst hann kl. 15:00

 

Fundinn sátu:

Geirlaug Jóhannsdóttir formaður, Lilja Björg Ágústsdóttir varaformaður, Sigurður Guðmundsson aðalmaður, Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir aðalmaður, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir aðalmaður, Steinunn Fjóla Benediktsdóttir áheyrnarfulltrúi og Anna Magnea Hreinsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

Fundargerð ritaði:  Anna Magnea Hreinsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs

 

Einnig sátu fundinn Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir fulltrúi skólastjórnenda grunnskóla, Þórunn Kjartansdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Steinunn Fjóla Benediktsdóttir fulltrúi foreldra og Skorradalshrepps, Kristín Gísladóttir fulltrúi leikskólastjóra og Guðbjörg Hjaltadóttir fulltrúi leikskólakennara.

Dagskrá:

 

1.   Tillögur Velferðarvaktarinnar gegn brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum – 1712037
Framhald umræðu á síðasta fundi nefndarinnar. Gestur fundarins er Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar.
Gestir
Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar – 15:00
Rætt var um aðgerðir gegn brotthvarfi nemenda í framhaldsskólum. Skimunarpróf eru lögð fyrir nemendur í MB á hverju skólaári af námsráðgjafa til að finna þá einstaklinga sem eru í hættu á brotthvarfi úr námi. Allir kennarar eru vel meðvitaðir um stöðu og líðan nemenda og er gripið til aðgerða ef með þarf. Andleg líðan nemenda virðist fremur orsök brotthvarfs en námserfiðleikar. Skólinn fylgist vel með brotthvarfi sem er að meðaltali um 6%. Það er töluvert minna en á landsvísu. Skólinn er í sögulegu lágmarki varðandi nemendafjölda en nemendur eru 112 veturinn 2017-2018. Næsta skólaár gæti nemendafjöldi farið undir 100 þar sem næsti útskrifaárgangur er fámennur. Um 15-20% nemenda koma annars staðar frá en úr Borgarbyggð. Gott samstarf er milli grunnskóla Borgarbyggðar og Menntaskólans og eru stjórnendur og kennarar að hittast til að auka samfellu í námi ungmenna. Nemendum í 10. bekk býðst að taka einingar í Menntaskólanum og nýtir einn nemandi sér það í vetur. Heimavistarrými eru fullnýtt í vetur. Rætt var um félagsstarf í skólanum, en það mætti efla. Einnig var rætt um kynningu á skólanum fyrir grunnskólanemendur oog hvort ekki ætti að kynna skólann fyrir unglingastiginu þ.e. 8-10 bekk. Einnig eru kynningar fyrir foreldra nemenda í 10. bekk.

Tillögur velferðarvaktarinnar

2.   Upplýsinga- og lýðræðisstefna – 1705198
Kynning á mótun stefnu í upplýsinga- og lýðræðismálum Borgarbyggðar.
Gestir
Magnús Smári Snorrason – 16:00
Magnús Smári Snorrason var gestur fundarins undir þessum lið og kynnti vinnu við stefnumótun í upplýsinga- og lýðræðismálum í Borgarbyggð. Ræddi hann um að opna á samtal við skóla Borgarbyggðar og fræðslunefnd um stefnumótun í þessum málaflokki og hvernig standa skuli að samráði við íbúa. Rætt um upplýsingagjöf til og frá íbúum og lýðræðismenntun í samræmi við Aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla. Nefndin fær drög að lýðræðisstefnunni til umsagnar þegar þau liggja fyrir. Hvatti Magnús Smári nefndarmenn til að mæta á íbúafund um upplýsinga og lýðræðismál sem haldinn verður í Hjálmakletti.
3.   Grunnskólinn í Borgarnesi – útboð – 1711088
Staða útboðs í viðbyggingu og endurbætar Grunnskólans í Borgarnesi.
Viðbygging og endurbætur á Grunnskólanum í Borgarnesi var auglýst til útboðs um helgina og er hægt að nálgast útboðsgögn á vef Ríkiskaupa. Búið að er skipta verkinu í þrjá áfanga sem dreifast á þrjú ár en verkið er boðið út í heild sinni. Áætlað er að opna tilboð í verkið 6. mars nk. Nefndin fagnar þessum áfanga.
4.   Byggingarnefnd Hnoðrabóls á Kleppjárnsreykjum – 1705010
Staða nýbyggingar leikskólans Hnoðrabóls á Kleppjárnsreykjum.
Bygginganefnd Hnoðrabóls hefur fundað þrisvar sinnum, farið yfir það sem þegar hefur verið gert í málinu og skoðað þær teikningar sem lágu fyrir. Meiri fjármunum hefur verið úthlutað í verkið í þriggja ára framkvæmdaráætlun, en veittar eru 100 miljónir á þessu ári, 60 miljónir árið 2019, 50 miljónir árið 2020 og 50 miljónir 2021. Gert er ráð fyrir góðu rými fyrir leikskólann og grunnskólann á Kleppjárnsreykjum í þeirri teikningu sem nú liggur fyrir. Reiknað er með að samnýta öll þau rými sem hægt er. Bygginganefndin fundaði með hönnuði og kom á framfæri þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið hjá skólastjórnendum. Lagt var til að fara í 535 fermetra viðbyggingu og taka endurbætur á skólanum á lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir. Hópurinn hefur séð fyrir sér að áfangaskipta verkinu á þrjú til fjögur ár. Beðið er eftir kostnaðarmati og tillögu að áfangaskiptingu frá hönnuði sem lögð verður sveitarstjórn.
5.   Mötuneyti skóla – 1801159
Viðmið um matseðla og uppskriftir í mötuneytum í skólum Borgarbyggðar.
Rætt um viðmið sem mötuneyti sveitarfélagsins vinna eftir. Farið yfir leiðbeiningar Embætti landlæknis fyrir leikskólaeldhús, mötuneyti skóla og varðandi síðdegishressingu fyrir frístundastarf. Rætt um mikilvægi þess að elda allan mat frá grunni. Einnig var rætt um fæðuofnæmi og hvernig hægt er að koma til móts við þarfir barna með ofnæmi. Innkaup og matarsóun voru einnig til umfjöllunar. Ákveðið að halda umræðunni áfram á næsta fundi og fara yfir hvaða viðmið eru í skólastefnu Borgarbyggðar og innkaupastefnu um mötuneyti.

Síðdegishressing

Handbók fyrir leikskólaeldhús

Mötuneyti grunnskóla – handbók

 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:00