164-Fræðslunefnd

Fræðslunefnd Borgarbyggðar – 164

  1. fundur Fræðslunefndar Borgarbyggðar

haldinn  í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 9. janúar 2018

og hófst hann kl. 15:00

Fundinn sátu:

Geirlaug Jóhannsdóttir formaður, Sigurður Guðmundsson aðalmaður, Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir aðalmaður, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir aðalmaður, Steinunn Fjóla Benediktsdóttir áheyrnarfulltrúi, Ólafur Pálsson varamaður og Anna Magnea Hreinsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

Fundargerð ritaði:  Anna Magnea Hreinsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Einnig sátu fundinn Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir fulltrúi skólastjórnenda grunnskóla, Þórunn Kjartansdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Steinunn Fjóla Benediktsdóttir fulltrúi foreldra og Skorradalshrepps, Kristín Gísladóttir fulltrúi leikskólastjóra og Guðbjörg Hjaltadóttir fulltrúi leikskólakennara.

Dagskrá:

 

1.   Ný persónuverndarlöggjöf 2018 – 1707022
Ný persónuverndarlöggjöf á árinu 2018 – áhrif á skólastarf.
Farið var yfir leiðbeiningar og kynningar á nýrri persónuverndarlöggjöf sem tekur gildi í maí 2018. Sérstaklega var farið yfir áhrif hennar á skólastarf.
Nefndin leggur til að skólastjórnendur vinni þessa vinnu sameiginlega. Þeir byrji á því að semja vinnsluskrá þar sem þeir gera grein fyrir heiti hverrar vinnslu, lýsi henni og tilgangi hennar, heimild og ábyrgð. Gerður verði listi yfir aðgerðir sem skólinn hyggst innleiða til að ná að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar. Einnig verði skilgreint hver ber ábyrgð á þeim atriðum sem þarf að laga og hvaða tíma það tekur. Skólastjórnendur eru hvattir til að skilgreina þá aðstoð sem þeir þurfa við þessar breytingar. Einnig leggur nefndin áherslu á að persónuverndarfulltrúi Borgarbyggðar komi að þessari vinnu með skólastjórnendum.
2.   Skýrsla með niðurstöðum úttektar á leikskólanum Andabæ í Borgarbyggð – 1503030
Skólanámskrá Andabæjar og umbótaáætlun vísað frá byggðarráði til kynningar í fræðslunefnd.
Skólanámskrá Andabæjar lögð fram ásamt umbótaáætlun. Nefndin lýsir yfir ánægju með skólanámskrána og þá umbótavinnu sem átt hefur sér stað í Andabæ. Nýráðinn leikskólastjóri Ástríður Guðmundsdóttir er boðinn velkominn til starfa.

Andabær – skólanámskrá

3.   Skólavogin 2016 – rekstur leikskóla og grunnskóla – 1712100
Niðurstöður Skólavogarinnar um rekstur leikskóla og grunnskóla Borgarbyggðar ásamt samantekt á samræmdum prófum.
Farið var yfir niðurstöður Skólavogarinnar um rekstur leikskóla og grunnskóla Borgarbyggðar ásamt samantekt á niðurstöðum samræmdra prófa. Niðurstöður sýna að nemendur í leikskólum og grunnskólum Borgarbyggðar eru færri á hvern kennara en á landsvísu. Nemendum og kennurum eru því búin góð skilyrði og býr Borgarbyggð yfir miklum mannauði í góðum kennurum og öðru starfsfólki skóla sem mikilvægt er að hlúa að. Stefna þarf að auknum árangri nemenda í góðri samvinnu foreldra og skóla.

Rekstur grunnskóla 2016

Rekstur leikskóla

Samræmd próf

4.   Rannsókn á högum og líðan ungs fólks – 1712055
Lögð fram drög að samningi milli Rannsókna og greiningu og Borgarbyggðar um könnun um hagi og líðan ungs fólks í Borgarbyggð. Einnig minnisblað sviðsstjóra fræðslusviðs um málið dags. 18. desember 2017.
Borgarbyggð hefur samið við Rannsóknir og greiningar um fyrirlögn rannsókna og úrvinnslu þeirra á högum og líðan ungs fólks í Borgarbyggð á árunum 2018-2021. Markmið úrvinnslunnar er að vinna hagnýtar upplýsingar í hendur forvarnarhópa og sveitarstjórnar Borgarbyggðar til stefnumótunar og áætlunargerðar í málefnum ungmenna í grunnskólum sveitarfélagsins. Gerðar verða ítarlegar skýrslur um hagi og líðan ungmenna í grunnskólum meðal nemenda í 8. – 10. bekk á árunum 2018 og 2020. Vímuefnaneysla í efstu bekkjum grunnskóla verður könnuð árin 2019 og 2021 og gerðar verða rannsóknir á högum og líðan ungmenna í 5. – 7. bekk.
5.   Ytra mat á Grunnskóla Borgarfjarðar – 1711125
Bréf Menntamálastofnunar um ytra mat á Grunnskóla Borgarfjarðar lagt fram.
Menntamálastofnun sér um framkvæmd ytra mats á grunnskólum fyrir hönd menntamálaráðuneytis og sveitarfélaga og hefur Grunnskóli Borgarfjarðar verið valinn til ytra mats á vorönn 2018. Markmið með ytra matinu eru meðal annars að vera skólum hvati til frekari skólaþróunar, styðja stjórnendur og kennara í umbótum á eigin starfi og efla og styðja innra mat og gæðastjórnun skóla. Ekki er gerður samanburður á skólum heldur notaðar samræmdar matsaðferðir þannig að í öllum skólum verði skólastarfið metið með sambærilegri nálgun og á grundvelli sömu viðmiða. Fræðslunefnd fagnar ytra mati á skólanum.

Boð_Borgarfjörður

6.   Íþrótta- og tómstundastefna Borgarbyggðar – 1711075
Tillaga að erindisbréfi fyrir stýrihóp um endurskoðun íþrótta- og tómstundastefnu Borgarbyggðar.
Fræðslunefnd leggur til að stýrihópur verði myndaður um endurskoðun á íþrótta- og tómstundastefnu Borgarbyggðar. Hann verði skipaður tveimur fulltrúum frá UMSB, tveimur fulltrúum frá fræðslunefnd og einum fulltrúa frá Ungmennaráði. Með hópnum starfar sviðsstjóri fjölskyldusviðs. Hlutverk stýrihópsins er að endurskoða íþrótta- og tómstundastefnu Borgarbyggðar í nánu samráði við hagsmunaaðila. Stýrihópurinn hefji störf í janúar 2018 og skili tillögum til fræðslunefndar í mars 2018 og til sveitarstjórnar í apríl 2018. Greitt er fyrir setu í stýrihópnum samkvæmt reglum Borgarbyggðar. Hópurinn skal kalla til sín á fundi aðila sem koma að íþrótta- og tómstundamálum, halda íbúaþing um verkefni hópsins og styðjast við núgildandi stefnu Borgarbyggðar í íþrótta og tómstundamálum og samninga þá sem Borgarbyggð hefur gert við UMSB. Einnig skal hópurinn taka mið í starfi sínu af „Stefnumótun í æskulýðsmálum“ sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út árið 2014 og skýrslunni „Ábyrgð aðila sem standa fyrir félags- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga“ frá árinu 2016. Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn starfi fram í apríl á þessu ári.
Fræðslunefnd tilnefnir Sigríði Bjarnadóttir og Sölva Gylfason sem fulltrúa nefndarinnar í stýrihópinn.

Erindisbréf stýrihóps

7.   Tillögur Velferðarvaktarinnar gegn brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum – 1712037
Tillögur Velferðarvaktarinnar vegna brottfalls úr framhaldsskóla vísað til nefndarinnar úr byggðarráði.
Farið var yfir tillögur Velferðarvaktarinnar gegn brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum en nokkrar þeirra snúa að grunnskólastiginu. Má þar helst nefna áhersla á að styrkja forvarnir og heilsueflingu og bregðast strax við með heildrænum hætti ef vart verður við vanda nemanda í grunnskóla. Einnig að skima í grunnskóla fyrir einstaklingum í áhættu á brotthvarfi. Lögð er áhersla á að efla náms- og starfsfræðslu í grunn- og framhaldsskólum til að stuðla að markvissu námsvali ungmenna og gefa nemendum kost á að ljúka námi á sínum forsendum. Að lokum að tryggja öllum nemendum í elstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla stuðning við nám og heimanám s.s. með námsverum. Nefndin leggur til að skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar verði boðaður á næsta fund til samtals og samráðs.

Tillögur velferðarvaktarinnar

 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:00