157-Fræðslunefnd Borgarbyggðar

Fræðslunefnd Borgarbyggðar – 157

  1. fundur Fræðslunefndar Borgarbyggðar haldinn í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 13. júní 2017 og hófst hann kl. 16:00

Fundinn sátu:

Lilja Björg Ágústsdóttir varaformaður, Sigurður Guðmundsson aðalmaður, Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir aðalmaður, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir aðalmaður, Jón Arnar Sigurþórsson varamaður og Anna Magnea Hreinsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

Fundargerð ritaði:  Lilja Björg Ágústsdóttir, varaformaður

Einnig sátu fundinn Steinunn Baldursdóttir varafulltrúi leikskólastjóra, Margrét Halldóra Gísladóttir fulltrúi leikskólakennara og Júlía Guðjónsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla. Steinunn Fjóla Benediktsdóttir fulltrúi Skorradalshrepps boðaði forföll.

 

Dagskrá:

 

1.   Leikskóladvöl frá því að fæðingarorlofi lýkur – 1705094
Leikskóli frá því að fæðingarorlofi lýkur.
Fræðslunefnd tekur jákvætt í tilraunaverkefni um dvöl yngri barna í þeim leikskólum sem það geta og að verkefnið verði metið að ári liðnu.
Lagt er til að komið verði á fót starfshópi til að vinna að málinu. Starfshópurinn skoði framtíðarfyrirkomulag varðandi yngri börnin og hvernig bilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar verði best brúað. Nefndin leggur áherslu á að málið verði vel kynnt fyrir foreldrum.
2.   Teymiskennsla – Þróunarverkefni – 1706019
Þróunarverkefni um teymiskennslu í grunnskólum Borgarbyggðar.
Skýrsla um innleiðingu teymiskennslu í grunnskóla Borgarbyggðar lögð fram og rædd. Það er margt sem mælir með teymiskennslu og auknu samstarfi kennara, meðal annars sýna rannsóknir betri árangur nemenda þeirra kennara sem vinna saman í teymum. Innleiðingin hefur gengið vel undir leiðsögn Dr. Ingvars Sigurgeirssonar og eru margir kennarar í báðum skólum farnir að vinna saman í teymum. Haldið verður áfram að vinna að innleiðingunni næsta vetur. Fræðslunefnd lýsir ánægju sinni með verkefnið og störf skólanna í þágu þess.
3.   Gjaldfrjálst skyldunám – 1706018
Tillaga um gjaldfrjálst skyldunám í grunnskólum.
Fræðslunefnd Borgarbyggðar leggur til að öllum börnum í grunnskólum Borgarbyggðar verði veitt nauðsynleg námsgögn frá og með næsta hausti. Er það skref í gjaldfrjálsu skyldunámi sem stuðlar að jafnræði í námi og vinnur gegn mismunun barna.

Öll börn eiga rétt á grunnmenntun án endurgjalds samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland hefur lögfest. Þar er jafnframt kveðið á um að ekki megi mismuna börnum sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra, svo sem vegna efnahags.

Í lögum um grunnskóla frá 2008 (nr. 91, 31. gr) kemur fram að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja þá eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu.

Reiknað er með að námsgögn nemenda kosti að jafnaði um 4.000 krónur á nemanda á ári. Í Borgarbyggð stunda 500 nemendur nám í grunnskólum og má því ætla að Borgarbyggð þurfi að leggja skólunum til 2.000.000 krónur fyrir næsta vetur.

4.   Framkvæmd evrópska samstarfsverkefnisins „Vatnið í kringum okkur“ – 1706017
Framkvæmd evrópska samstarfsverkefnisins „Vatnið í kringum okkur“.
Erindi foreldra varðandi framkvæmd evrópska samstarfsverkefnis sem unnið var í Grunnskólanum í Borgarnesi lagt fram. Sviðsstjóra fjölskyldusviðs falið að svara erindinu.
5.   Íþróttamiðstöðvar í Borgarbyggð – viðhald og starfsmannahald – 1706036
Upplýsingar um stöðu viðhaldsmála og sumarráðninga íþróttamannvirkja í Borgarbyggð.
Gestir
Ingunn Jóhannesdóttir – 17:30
Kristján Finnur Kristjánsson – 17:30
Kristján Finnur Kristjánsson verkefnastjóri framkvæmdarsviðs fór yfir viðhald íþróttamannvirkja í Borgarbyggð. Stærsta viðhaldsverkefnið er í sundlauginni á Varmalandi sem hefur verið dúklögð og öryggismyndavélar settar upp. Einnig gerði Kristján Finnur grein fyrir helstu viðhaldsverkefnum í íþróttamannvirkjum í Borgarnesi og á Kleppjárnsreykjum.
Ingunn Jóhannesdóttir forstöðumaður íþróttamannvirkja fór yfir starfsmannahald í sumar. Enn vantar sumarstarfsmenn á Kleppjárnsreykjum og í Borgarnesi.
Nefndin leggur til að opnunartími á Kleppjárnsreykjum verði rýmkaður til samræmis við opnunartímann á Varmalandi og að auglýst verði aftur eftir sumarstarfsmönnum.
Einnig var rætt um Brún. Ástand sundlaugarinnar er óviðunandi og leggur nefndin til að henni verði lokað.

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:00