151-Fræðslunefnd Borgarbyggðar

Fræðslunefnd Borgarbyggðar – 151

  1. fundur Fræðslunefndar Borgarbyggðar

haldinn  í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 7. febrúar 2017

og hófst hann kl. 13:30

Fundinn sátu:

Lilja Björg Ágústsdóttir varaformaður, Sigurður Guðmundsson aðalmaður, Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir aðalmaður, Steinunn Fjóla Benediktsdóttir áheyrnarfulltrúi og Anna Magnea Hreinsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

Fundargerð ritaði:  Anna Magnea Hreinsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Sjöfn Vilhjálmsdóttir fulltrúi leikskólastjóra og Margrét Halldóra Gísladóttir fulltrúi leikskólakennara sátu fundinn undir fyrsta og öðrum lið. Auk þess sátu fundinn Júlía Guðjónsdóttir fulltrúi skólastjórnenda, Steinunn Fjóla Benediktsdóttir fulltrúi kennara og Ingibjörg Þorsteinsdóttir fulltrúi foreldra grunnskólanemenda.

Dagskrá:

 

1.   Dagur leikskólans 2017 – 1701309
Kynning á degi leikskólans.
Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur um land allt þann 6. febrúar. Vakin var athygli á starfi leikskólakennara og annars starfsfólks í Borgarbyggð, m.a. með grein í Skessuhorni og með ýmsum viðburðum í leikskólunum, svo sem ömmu og afakaffi. Foreldrar heimsóttu leikskóla og fengu kynningu á starfi þeirra frá börnunum. Margir starfsmenn leikskóla í Borgarbyggð eru í námi, bæði grunnnámi og framhaldsnámi við HI og HA og skiptir stuðningur sveitarfélagsins sköpum. Það eru nokkrir karlmenn í störfum í leikskólunum, en engin með leikskólakennaramenntun. Leikskólum er óskað til hamingju með daginn.
 
2.   Skóladagatal 2016-2017 – 1603093
Ósk um breytingu á skóladagatali 2016-2017
Erindi barst nefndinni með ósk um breytingu á skóladagatali 2016-2017 í leikskólum Borgarbyggðar vegna námsferðar til New York í vor. Þar verða heimsóttir leikskólar sem starfa eftir leiðtogaverkefninu og leikskóli sem nýtir einingakubba í starfi. Flogið verður frá Íslandi 18 apríl og komið aftur 23 apríl. Leikskólarnir hafa fimm starfsdaga og lýtur beiðnin að því að nýta þrjá þeirra í ferðina. Slíkar námsferðir erlendis eru farnar á fjögurra ára fresti. Fræðslunefnd telur ferðir sem þessar mikilvægar og samþykkir erindið. Nefndin leggur áherslu á að foreldrum séu kynntar breytingarnar sem fyrst.
 
3.   Afsláttarkort fyrir íþróttamenn – 1701292
Drög að reglum lögð fram til umsagnar.
 
Gestir
Ingunn Jóhannesdóttir – 00:00
Pálmi Blængsson – 00:00
Framlagðar reglur um afsláttarkort fyrir íþróttamenn ræddar og samþykktar.
 
4.   Gæðaviðmið í frístundastarfi nemenda í grunnskólum – 1701313
Gæðaviðmið í frístundastarfi nemenda.
 
Gestir
Pálmi Blængsson – 00:00
Starfshópur hefur verið settur á laggirnar á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að vinna viðmið um gæði frístundastarfs.
Verkefnastjóri starfshópsins heimsótti Borgarbyggð og ræddi við sviðsstjóra fjölskyldusviðs og tómstundafulltrúa um viðmiðin sem unnin verða í samstarfi við fagfólk. Pálmi Blængsson frá UMSB sem sér um frístundastarf fyrir Borgarbyggð tók undir gagnsemi gæðaviðmiða. Nefndin tekur undir það. Gera má ráð fyrir að vinnan gagnist sveitarfélögum um land allt við að móta nánar starfsemi frístundaheimila sem hluta af grunnþjónustu. Þá standa vonir til að viðmiðin geri starfið markvissara og stuðli að auknu jafnræði nemenda um land allt og að frístundaheimili taki í auknum mæli mið af þörfum, þroska og áhuga allra barna og að börn með sérþarfir og nemendur af erlendum uppruna fái viðeigandi stuðning í samræmi við áherslur almennt í frítímaþjónustu. Einnig nýtast viðmiðin við mat og eftirlit með starfseminni.
 
5.   Endurmenntunarsjóður grunnskólakennara – 1701311
Opið fyrir umsóknir í endurmenntunarsjóð grunnskóla.
Vakin er athygli á að Endurmenntunarsjóður grunnskóla hefur opnað fyrir umsóknir um styrki vegna endurmenntunarverkefna sem koma til framkvæmda á skólaárinu 2017-2018. Borgarbyggð mun senda inn umsókn um kennslu og nám í les-, stærðfræði- og náttúrufræðiskilningi með áherslu á upplýsinga- og tæknimennt. Markmið verkefnisins er að bæta þekkingu kennara á fjölbreyttum kennsluaðferðum í les-, stærðfræði- og náttúrufræðiskilning á öllum aldursstigum. Einnig að kynna fyrir kennurum aðferðir til að fylgjast vel með framförum hvers nemanda og vera vakandi fyrir því þegar nemandi þarf á auknum stuðningi að halda. Telja kennarar að teymiskennsla, eins og unnið hefur verið að í vetur geti auðveldað þeim þessa kennslu, enda sýna rannsóknir að þar sem teymiskennsla er stunduð eru niðurstöður PISA og samræmdra prófa betri. Nefndin fagnar umsókninni.
 
6.   Kennsluráðgjöf í Upplýsinga- og tæknimennt – 1701310
Kennsluráðgjöf fyrir kennara í grunnskólum Borgarbyggðar
Borgarbyggð hefur samið við Hjálm Dóra Hjálmsson ráðgjafa hjá Þekkingu hf. um að veita kennurum í grunnskólum Borgarbyggðar ráðgjöf og fræðslu í upplýsinga- og tæknimennt á árinu 2017. Helstu verkefni Hjálms Dóra verða að halda Office 365 grunnnámskeið þar sem kennurum og starfsmönnum skólanna verður kynnt umhverfi Office 365, Onenote og Onenote Class Notebook. Hann mun halda kynningu á Mystery Skype og Sway og fer yfir notkunarmöguleika þeirra í skólastarfi. Einnig mun hann aðstoða kennara við skipulag og framkvæmd verkefna með nemendum sem snúa að upplýsingatækni og notkun iPad spjaldtölva í skólastarfi. Að lokum mun Hjálmur Dóri koma að markmiðasetningu og stefnumótun í upplýsingatækni með stjórnendum og kennurum fyrir grunnskóla Borgarbyggðar. Hafa kennarar og skólastjórnendur kallað eftir kennsluráðgjöf og leiðbeiningum og mun samningurinn rúmast innan fjárhagsáætlunar skólanna og fræðslusviðs. Áheyrnarfulltrúi kennara lagði fram fyrirspurn um að Borgarbyggð spjaldtölvuvæði unglingadeild grunnskólanna í samvinnu við foreldra líkt og gert hefur verið í Ársskóla á Sauðárkróki. Varaformaður lagði áherslu á að keyptar hafa verið inn margar spjaldtölvur í skólana í Borgarbyggð á sl. tveimur árum og að samningurinn styðji við kennslu í upplýsinga- og tæknimennt.
 
7.   Kjarasamningur Félags grunnskólakennara, des. 2016 – 1611375
Drög að verkáætlun Borgarbyggðar.
Kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambandis Íslands vegna Félags grunnskólakennara fylgdi bókun um greiningu á því ástandi sem kennarar og stjórnendur hafa lýst að ríki í starfsumhverfi kennara og kallað er eftir úrbótum á.
Lagt er til að stofnaður verði starfshópur sem hafi bókun 1 til hliðsjónar í störfum sínum og nýta þann vegvísi að aðgerðaráætlun sem lögð var fram af samstarfsnefnd í janúar 2017. Starfshópurinn verði skipaður trúnaðarmönnum grunnskólakennara í Borgarbyggð, amk. þremur fulltrúum kennara, skólastjórum grunnskóla, sviðsstjóra fjölskyldusviðs og sveitarstjóra.
Verkefni starfshópsins er að leggja fram tillögur sem bæti starfsumhverfi kennara við grunnskóla Borgarbyggðar. Einnig að forgangsraða verkefnum og greina álagsþætti í starfi kennara. Mikilvægt er að greina tækifæri til að gera kennarastarf eftirsóknarvert í Borgarbyggð og að styðja við starfandi kennara. Starfshópurinn haldi þjóðfund í báðum skólum þar sem til umræðu verður starfið, vinnuumhverfið, samskipti og stjórnun. Niðurstöður verði teknar saman af starfshópnum og gerð umbótaáætlun. Drög að niðurstöðum ásamt drögum að umbótaáætlun lagðar fyrir fulltrúa kennara og stjórnenda í lok mars og fræðslunefnd og byggðarráð í byrjun apríl. Skólastjórnendur og fulltrúar kennara kynni umbótaáætlun fyrir kennurum fyrir 1. maí. Skýrslu og umbótaáætlun verði skilað til samstarfsnefndar fyrir 1. júní. Nefndin samþykkir verkáætlunina og lýsir yfir ánægju með samtalið.
 
8.   Önnur mál fræðslunefndar – 1509013
Fulltrúi foreldra grunnskólanemenda lagði fram fyrirspurn um mötuneyti Grunnskólans í Borgarnesi. Mötuneyti og matsalur er hluti af nýrri viðbyggingu sem nú er verið að leggja lokahönd á að hanna. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á þessu ári.
 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:15