148-Fræðslunefnd Borgarbyggðar

Fræðslunefnd Borgarbyggðar – 148148. fundur Fræðslunefndar Borgarbyggðar

haldinn  í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, 14. nóvember 2016 og hófst hann kl. 13:30

Fundinn sátu:

Magnús Smári Snorrason formaður, Lilja Björg Ágústsdóttir varaformaður, Sigurður Guðmundsson aðalmaður, Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir aðalmaður og Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir aðalmaður.

Fundargerð ritaði:  Anna Magnea Hreinsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Einnig sátu fundinn Steinunn Fjóla Benediktsdóttir fulltrúi kennara og Skorradalshrepps, Júlía Guðjónsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Ingibjörg Þorsteinsdóttir fulltrúi foreldra grunnskólanemenda, Sjöfn Vilhjálmsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Margrét Halldóra Gísladóttir fulltrúi leikskólakennara, Aldís Arna Tryggvadóttir fulltrúi leikskólabarna, Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar, Dóra E. Ásbjörnsdóttir fulltrúi kennara Tónlistarskólans, Hrafnhildur Tryggvadóttir fulltrúi foreldra Tónlistarskólanemenda, Pálmi Blængsson framkvæmdastjóri UMSB og Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir tómstundafulltrúi UMSB.

Dagskrá:

 

1.   Fjárhagsáætlun 2017 – 1606055
Gjaldskrár og framkvæmdaráætlun
Rætt um gjaldskrár sem áætlað er að hækki um 3,9% en hækkunin gæti þó orðið minni vegna nýrrar hagspár. Einnig var rætt um að hækka stakan miða í sund.
Hugmynd er um að gefa börnum undir 10 ára aldri frían aðgang að sundlauginni. Einnig rætt um hvort endurskoða ætti gjald fyrir 11 – 18 ára börn. Rætt um leikskólagjöld sem eru há í samanburði við önnur sveitarfélög.
Farið yfir framkvæmdaráætlun fyrir 2017. Ábending kemur frá leikskólastjóra Klettaborgar um að hönnun á lóð og viðbyggingu fari fram á árinu 2017 en ekki 2018 eins og fram kemur í framkvæmdaráætlun. Áætlað er að 80 milljónum verði varið í framkvæmdir á Kleppjárnsreykjum en sala eigna mun að hluta til dekka þann kostnað og sýnir framkvæmdaráætlunin því 40 milljónir.
 
2.   Starfshópur um framtíðarskipan skólamála á Hvanneyri – 1603089
Stöðumat lagt fram til kynningar
Formaður fer yfir stöðumat sem unnið var af starfshópi um framtíðarskipan skólamála á Hvanneyri. Gert er ráð fyrir viðbyggingu við Andabæ til að rúma samrekinn leik- og grunnskóla í stöðumatinu. Ekki er gert ráð fyrir viðbyggingu í framkvæmdaráætlun fyrir árið 2017. Búið er að sameina mötuneyti skólanna á Hvanneyri. Fulltrúi foreldra leikskólabarna leggur áherslu á að vandað verði til verka í breytingum á skólastarfi á Hvanneyri og að samráð verði haft við íbúa á Hvanneyri. Fulltrúi foreldra leikskólabarna leggur fram eftirfarandi bókun:
Ábendingar og/eða athugasemdir við skýrsluna
Kveða þarf skýrar á um hve mörgum bekkjarstigum er ætlað að geta sótt nám á Hvanneyri og við hvað skuli miðað í þeim efnum.

Í skýrslunni er tiltekið að börnum á Hvanneyri verði tryggð skólavist á svæðinu a.m.k. fyrstu fjóra bekkina. Það er eindregin ósk foreldra að fleiri bekkjarstigum verði bætt við grunnskólann á Hvanneyri. Fyrir liggur að bekkjarstig var upp í allt að 7. bekk fyrr á tímum en auknum íbúafjölda á Hvanneyri og plássleysi í grunnskólanum hefur verið svarað með því að flytja nemendur fyrr af svæðinu og upp að Kleppjárnsreykjum. Foreldrar leggja á það áherslu að börn á grunnskólaaldri fái að sækja skóla eins lengi og kostur er á staðnum, a.m.k. meðan pláss leyfir enda erfitt að færa rök fyrir því að senda þau fyrr af svæðinu að ástæðulausu með tilheyrandi lengingu á skóladegi barnanna. Við hönnun lóðar og húss Andabæjar er brýnt að ekki verði skrúfað fyrir möguleikann á enn frekari stækkun ef íbúafjöldi eykst, breytingar verða gerðar á skólastigum eða bekkjardeildum fjölgað.

Fjalla þyrfti einnig um það hvert börn úr Lundarreykjadal og Bæjarsveit fara í 1.bekk. Núverandi fyrirkomulag g.r.f. að þau sæki leikskóla á Hvanneyri en stundi grunnskóla á Kleppjárnsreykjum. Mun þetta fyrirkomulag breytast með samreknum leik- og grunnskóla á Hvanneyri? Réttast væri að endurskoða skólahverfin um leið og verið er að endurskoða skólamál á Hvanneyri/í sveitarfélaginu.

Kveða þarf skýrar á um hvert börnin fara þegar námi þeirra á Hvanneyri lýkur. Með samreknum leik- og grunnskóla yrði til ný stofnun sem ekki yrði lengur hluti af GBF og þar með er tengingin við þá stofnun rofin og ekki sjálfgefið að börnin sæki nám á Kleppjárnsreykjum í framhaldi af grunnskólanámi á Hvanneyri. Vaxandi fjöldi foreldra hefur áhuga á að börnin fari frekar í Grunnskólann í Borgarnesi og því er rökrétt að skoða þann valmöguleika um leið og skólamál á Hvanneyri eru skoðuð svo sátt geti myndast um niðurstöðuna.

„Samrekinn leik- og grunnskóli í Andabæ þarf 695 fermetra fyrir 70 börn, þar af 45 börn á leikskólaaldri og 38 börn á grunnskólaaldri“. Athuga þarf þessa fullyrðingu frekar þar sem 45 38=83 en ekki 70.

Spurningar:
1. Hvar er gert ráð fyrir að grunnskólabörn snæði matinn sinn? Gera þarf ráð fyrir n.k. matsal.
2. Hvernig á að flytja börnin í leikfimi og hvað mun það kosta?
3. Stendur til að hafa grunnskólabörnin á afgirtri skólalóð leikskólans eða verður önnur lóð útbúin fyrir þau?
4. Er fyrirhugað að flytja sparkvöllinn sem er núna á lóð núverandi skólahúsnæðis GBF-Hvanneyrardeildar? Ef svo er hver er kostnaðurinn við þann flutning?
5. Er gert ráð fyrir sér inngangi fyrir grunnskólabörn til aðgreiningar frá inngangi leikskólabarna? Ef svo er, er búið að g.r.f. þeim kostnaði í kostnaðaráætlun?
6. Er g.r.f. kostnaði við salerni í kostnaði að fjárhæð kr. 3.000.000 við útikennslustofu?
7. Er ekki gert ráð fyrir fjölgun íbúa eins og aðalskipulag sveitarfélagsins gerir ráð fyrir á svæðinu?
8. Hver er kostnaðurinn við breytingar á aðalskipulagi vegna sölu eða leigu á núverandi húsnæði grunnskólans? Með vísan í lóðasamninga Borgarbyggðar við LBHÍ, er þetta mögulegt?
9. Hvernig hefur gengið að samreka mötuneyti leikskólans og grunnskólans í haust? Hver er fjárhagslegur ávinningur af samrekstrinum? Er raunhæft að spara 2,5 milljón á ári með samrekstri í sama húsi miðað við núverandi fyrirkomulag?
10. Hálft stöðugildi kennara sparar 6 milljónir á ári samkvæmt samantektinni í skýrslunni, hvernig þá?
11. Með samrekinni stofnun þar að taka tillit til aðstöðu starfsmanna og kennara og bæta til muna. Er g.r.f. þeim kostnaði í samantektinni
12. Hver er kostnaður við gatnagerð, fjölgun bílastæða, ljósastaura, skýli sfyrir skólarútu og annað slíkt?
13. Hverjir eru ókostir þess að samreka leik- og grunnskóla á Hvanneyri?

F.h. foreldra leikskólabarna í Borgarbyggð,
Aldís Arna Tryggvadóttir, áheyrnarfulltrúi.

Formaður áréttar að ekki er búið að ákveða næstu skref varðandi framtíðarskólastarf á Hvanneyri.

 
3.   Tómstundaakstur – útboð 2017 – 1609020
Könnun send til foreldra nemenda í GBF um tómstundaakstur
Niðurstöður könnunar meðal foreldra nemenda í GBF um fyrirkomulag tómstundaaksturs sem fram fór dagana 7-10 nóvember sl. sýna að áhugi er fyrir því að keyra unglinga í 8.-10. bekk einu sinni í viku í félagsmiðstöðina Óðal. Nefndin leggur til að tilraun verði gerð um eina ferð í félagsmiðstöðina í viku eftir áramót og að krafist verði skráningar í aksturinn svo að hægt sé að gera ráð fyrir bíl og kostnaði. Aksturinn verði metinn vorið 2017 og skoðað hvort grundvöllur sé fyrir akstrinum. Ferðirnar verði vel kynntar. Gert verði ráð fyrir kostnaði við gerð fjárhagsáætlunar á árinu 2017. Einnig þarf að skoða stað fyrir börn og ungmenni sem bíða eftir tómstundaakstri.
 
5.   Frístundakort – 1608125
Drög að reglum um frístundakort og framkvæmd
Tillaga að reglum um frístundakort lögð fram. Verið er að vinna að því að afgreiðslan á frístundastyrnum verði rafræn. Nefndin leggur áherslu á að styrkurinn verði vel kynntur fyrir íbúum Borgarbyggðar.
 
4.   Sauna við sundlaugina í Borgarnesi – 1610083
Máli vísað frá byggðarráði til umsagnar fræðslunefndar
Tillaga lögð fram um Saunaklefa við sundlaugina í Borgarnesi. Hugmyndin er góð en nefndin telur Saunaklefa ekki vera forgangsatriði. Ef að styrktaraðilar fást að verkefninu þá tekur nefndin jákvætt í málið og vísar því til byggðarráðs til afgreiðslu.
 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:00