145-Fræðslunefnd Borgarbyggðar

Fræðslunefnd Borgarbyggðar – 145. fundur Fræðslunefndar Borgarbyggðar
haldinn í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, þriðjudaginn 13. september 2016 og hófst hann kl. 13:30

Fundinn sátu:
Magnús Smári Snorrason formaður, Lilja Björg Ágústsdóttir varaformaður, Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir aðalmaður og Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir aðalmaður.

Einnig sátu fundinn Theodóra Þorsteinsdóttir fulltrúi tónlistarskóla, Hrafnhildur Tryggvadóttir fulltrúi foreldra tónlistarskólans, Dóra E. Ásbjörnsdóttir fulltrúi tónlistarkennara, Steinunn Fjóla Benediktsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Sjöfn G. Vilhjálmsdóttir fulltrúi stjórnenda leikskóla, Margrét H. Gísladóttir fulltrúi leikskólakennara og Aldís Arna Tryggvadóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna. Júlía Guðjónsdóttir fulltrúi grunnskólastjóra boðaði forföll.

Fundargerð ritaði: Anna Magnea Hreinsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Dagskrá:

1. 1606034 – Verklagsreglur vegna áheyrnarfulltrúa í fræðslunefnd Borgarbyggðar
Formaður bauð nýja áheyrnarfulltrúa velkomna til starfa. Nefndarmenn og áheyrnarfulltrúar kynntu sig og upplýstu um hvernig þeir hyggjast hafa samband við bakland sitt. Farið var yfir verklagsreglur Borgarbyggðar vegna áheyrnarfulltrúa í fræðslunefnd.

2. 1609017 – Ársskýrslur skóla 2015-2016
Rætt um ársskýrslur leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla Borgarbyggðar. Sýna þær glögglega hversu fjölbreytt starf er unnið í skólunum.
Þau markmið sem skólarnir setja og þær leiðir sem farnar eru koma skýrt fram. Einnig sést að stöðugt mat fer fram á starfinu og framförum nemenda og unnið er úr niðurstöðum samræmdra prófa. Mikilvægt er að allir aðilar skólastarfs hafi háar væntingar til nemenda í Borgarbyggð og að lögð sé áhersla á árangur og framfarir þeirra. Fræðslustjóra falið að fylgja eftir sjálfsmati skólanna í samráði við skólastjórnendur. Ársskýrslurnar eru aðgengilegar á heimasíðum skólanna.

3. 1609018 – Kostnaður pr. nemenda í grunnskólum á Íslandi
Farið yfir samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á kostnaði 153 grunnskóla á Íslandi á árinu 2015. Ljóst er að enn felast tækifæri í rekstri skóla í Borgarbyggð sem þarf að skoða vel. Rætt var um hvernig best sé að efla innra starf skólanna, t.d. með kennsluráðgjöf, námsráðgjöf og agastjórnun.

4. 1608125 – Frístundakort
Pálmi Blængsson framkvæmdarstjóri UMSB sat fundinn undir þessum lið. Farið var yfir tillögu að frístundastyrk sem byggðarráð vísaði til umsagnar nefndarinnar. Rætt um greiðslufyrirkomulag frístundakortsins og áherslu byggðarráðs á rafræna afgreiðslu. Fræðslustjóra falið að skoða með hvaða hætti verði hægt að hafa afgreiðslu styrksins rafræna og á hvaða árstíma best sé að greiða styrkinn. Formaður undirstrikaði að frístundastyrkurinn er ætlaður til niðurgreiðslu gjalda foreldra, en ekki til hækkunar æfingagjalda.

5. 1609020 – Tómstundaakstur – útboð 2017
Ýmsar útfærslur á tómstundaakstri ræddar. Einnig rætt um að bjóða uppá tómstundir/íþróttir á ýmsum stöðum í Borgarbyggð. Mikilvægt að leggja könnun fyrir foreldra í Grunnskóla Borgarfjarðar til að átta sig betur á þörfinni fyrir tómstundaakstur. Fræðslustjóra falið að leggja drög að könnun.

6. 1605002 – Gervigrasvellir – viðhald
Rætt um tilboð sem borist hafa í kostnað við að endurnýja gervigrasvelli í Borgarbyggð. Talið að endurnýja þurfi elsta völlinn sem fyrst. Nefndin leggur áherslu á að byrjað verði á þeim velli sem elsta kurlið er á. Rætt um aðkomu KSI að skiptunum.

7. 1609019 – Íþróttamál í Borgarbyggð
Pálmi Blængsson framkvæmdastjóri UMSB sat fundinn undir þessum lið og kynnti ársskýrslu UMSB frá árinu 2015. Þar er gerð grein fyrir starfsemi allra félaga. Pálmi fór einnig yfir atriði í samningi milli Borgarbyggðar og UMSB eins og starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar, styrkveitingar, tillögur að uppbyggingu íþróttamannvirkja, námskeið fyrir félögin, tímaúthlutun í íþróttamannvirkjunum, kjör íþróttamanns ársins, úthlutun úr afreksmannasjóði og framkvæmd hreyfiviku UMFI. Formaður þakkaði góða yfirferð yfir verkefnin. Ársskýrsla UMSB er aðgengileg á heimasíðu UMSB.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:00