144-Fræðslunefnd Borgarbyggðar

Fræðslunefnd Borgarbyggðar – 144. fundur Fræðslunefndar Borgarbyggðar

haldinn  í fundarsal í ráðhúsi að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, þriðjudaginn 23. ágúst 2016 og hófst hann kl. 13:30

Fundinn sátu:

Magnús Smári Snorrason formaður, Lilja Björg Ágústsdóttir varaformaður, Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir aðalmaður og Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir aðalmaður.

Auk nefndarmanna sátu fundinn Sjöfn G. Vilhjálmsdóttir fulltrúi leikskólastjóra og Margrét Skúladóttir fulltrúi grunnskólakennara. Fulltrúi foreldra leikskólabarna boðaði forföll. Einnig boðaði Sigurður Guðmundsson forföll.

Fundargerð ritaði:  Anna Magnea Hreinsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Dagskrá:

 

1. 1505019 – Skólastefna Borgarbyggðar
Rætt um eftirfylgd nýsamþykktrar Skólastefnu Borgarbyggðar 2016-2020. Hugmyndir ræddar um að halda opið íbúaþing í haust til að kynna helstu atriði skólastefnunar og innleiðingu hennar. Á þinginu verði kynning á stefnunni og stuttir fyrirlestrar um skólastarf og mikilvægi stuðnings foreldra við skólastarf. Fræðslustjóra falið að vinna að þinginu. Einnig rætt um aðgerðaráætlun sem skólar geri um innleiðingu skólastefnunnar. Skólunum verður gefinn tími til 1. nóvember til að skila inn aðgerðaráætlun til þriggja ára.
2. 1608053 – Umsóknir um styrk til réttindanáms veturinn 2016-2017
Tíu kennarar og starfsmenn leikskóla sækja um styrk til réttindanáms, fjórir í grunnnám en sex í meistaranám. Sex umsóknir bárust frá grunnskólum, fimm í meistaranám og einn til stúdentsprófs. Fræðslunefnd fagnar fjölda umsókna og áhuga starfsfólks á að sækja sér menntun.
3. 1606064 – Skólaakstur, útboð 2017
Leitað hefur verið til Ríkiskaupa til að standa að útboði skólaaksturs í Borgarbyggð. Drög að útboðsgögnum lögð fram til kynningar. Í drögunum eru gerðar auknar kröfur til öryggis bifreiða og til bílstjóra. Nefndarmenn telja mikilvægt að bjóða tómstundaakstur út samhliða skólaakstri og að unnið verði að því að greina og ákveða þær leiðir sem farnar verða. Nefndarmenn leggja áherslu á að lokadrög verði lögð fyrir fund nefnarinnar.
4. 1408091 – Almenningssamgöngur í Borgarbyggð
Lilja Björg formaður starfshóps um almenningssamgöngur í Borgarbyggð kynnti störf hópsins og sagði frá helstu niðurstöðum hans. Hópurinn telur að leggja eigi áherslu á tómstundaakstur og almenningssamgöngur milli Hvanneyrar og Borgarness. Mikilvægt að vinna að tillögu að tómstundaakstri sem getur farið í útboðsferli með skólaakstrinum. Tillaga liggi fyrir á næsta fundi nefndarinnar.
5. 1608051 – Samningur um sölu á hádegisverði til nemenda Grunnskólans í Borgarnesi
Samningur um sölu Hótel Borgarnes á hádegisverði til nemenda Grunnskólans í Borgarnesi lagður fram. Í samningnum er gert ráð fyrir að maturinn sé í samræmi við Handbók Heilsueflandi grunnskóla og þær leiðbeiningar sem fram koma þar. Samningurinn er uppsegjanlegur af beggja hálfu með níu mánaða fyrirvara m.v. janúar og júní hvers árs.
6. 1606079 – Umsókn um leyfi til daggæslu barna í heimahúsi
Umsókn Þórunnar Unnar Birgisdóttur kt. 180681-4269 lögð fram. Þórunn Unnur uppfyllir öll skilyrði samkv. 13. grein Reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsi og fær leyfi til gæslu fjögurra barna í eitt ár. Nefndin veitir henni undanþágu í haust vegna aldurs barna í ljósi starfsreynslu hennar.
7. 1603015 – Sumarstarf barna og ungmenna 2016
Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir tómstundafulltrúi UMSB var gestur fundarins og sagði frá fyrirkomulagi sumarstarfs barna og ungmenna. Starfsemi var í Borgarnesi og á Hvanneyri fyrir börnin þar og börn frá Kleppjárnsreykjum. Leiðbeinendur voru fjórir í Sumarfjöri og voru börnin flest í Borgarnesi rúmlega 40 í ágúst en tvær vikur féllu niður í júlí vegna ónógrar þátttöku. Gekk skipulagið vel og gott framboð var af verkefnum og fjöri. Skoða þarf húsnæðismál Sumarfjörs fyrir næsta sumar, sérstaklega í upphafi sumars og lok.
Í Vinnuskólanum voru tveir verkstjórar og 40-50 unglingar. Næg verkefni voru fyrir hópinn og tók Vinnuskólinn virkan þátt í undirbúningi Unglingalandsmótsins. Ánægja var með störf Vinnuskólans.
8. 1608052 – Félagsmiðstöðin Óðal
Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir tómstundafulltrúi UMSB sat fundinn undir þessum lið. Laga þarf aðstöðu fyrir félagsstarf í félagsmiðstöðinni Óðali og fara í framkvæmdir. Einnig hefur komið til tals hvort færa eigi félagsmiðstöðina í húsnæði Hjálmakletts. Umræða varð um ávinning og annmarka þess að nota Hjálmaklett undir félagsmiðstöð fyrir unglinga á grunnskólaaldri. Formaður leggur áherslu á að málið sé kannað nánar áður en ákvörðun er tekin um að fara í framkvæmdir á húsnæði Óðals. Búið er að ganga frá ráðningu tómstundafræðings og íþróttafræðings til að starfa í Óðali næsta vetur. Því eru spennandi tímar framundan í félagsstarfi unglinga í Borgarbyggð. Fyrirhugað er að efla klúbbastarf næsta vetur og verður nýtt húsráð myndað. Mun skipulagið mótast að mestu leyti af unglingunum sjálfum. Æskilegt er að tómstundaakstur sé einu sinni í viku í tengslum við skipulagt starf í Óðali svo að allir unglingar í Borgarbyggð hafi greiðan aðgang að félagsmiðstöðinni.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:40